mánudagur, 31. mars 2014

Kaffi, bréfaskrif og góð bók



Stundum þegar ég fer að sofa þá finn ég fyrir tilhlökkun að vakna daginn eftir og drekka gott kaffi. Ég trúi því ekki að ég sé sú eina. Um helgina var ég eitthvað að pæla í þessu og velti því fyrir mér hvort það væri líklegra að finna fyrir slíkri tilhlökkun ef maður væri að lesa eitthvað skemmtilegt. Á föstudaginn kom ég við í bókabúð til að kaupa bréfsefni, penna og bók sem íslensk æskuvinkona mín sagði mér frá og mælti með. Bókin heitir á frummálinu The Guernsey Literary and Potato Peel Pie Society og er eftir Mary Ann Shaffer (hún var þýdd á íslensku og kallast Bókmennta- og kartöflubökufélagið). Undanfarið hef ég ekki verið að lesa skáldsögur, ég hef aðallega verið í tímaritum og hvers kyns hönnunarbókum, og það var svo góð tilfinning að snúa sér aftur að skáldsögum með svona skemmtilegri bók. Ég hef varla getað lagt hana frá mér og stend sjálfa mig að því að lesa síðustu kaflana hægt því mig langar ekki að bókin endi.

Sögusviðið er England árið 1946 og bókin fjallar aðallega um lífið á eyjunni Guernsey á tímum hernáms Þjóðverja, sem er lýst í bréfaskrifum eftir stríðið. Bréfaskrif skipa stóran sess í bókinni og því var ég glöð að kaupa skrifblokkir á föstudaginn og nýja penna því á laugardaginn langaði mig bara að skrifa bréf á milli þess sem ég las.

Ég fór með bréfin út á pósthús í morgun eftir að hafa farið með soninn í skólann. Það eru engar líkur á því að pósthúsið í hverfinu fái verðlaun fyrir smekklega hönnun, en það er lítið og sjarmerandi. Viðskiptavinirnir þekkja afgreiðslufólkið með nafni og afgreiðslufólkið býður ekki góðan daginn heldur spyr alla: „How are you, my love?“ eða „Is everything alright, my love?“ Án efa hallærislegt pósthús en það vinalegasta sem ég hef nokkurn tíma stigið fæti inn í.


2 ummæli:

  1. Ég get ekki orða bundist ! en mér finnst svo gaman að lesa bloggið þitt ...yfirleitt er ég óþolinmóð þegar ég les eitthvað ,en þegar ég les bloggið þitt þá hefur þú róandi áhrif á mig og ég nenni að lesa haha.... :) Sennilega er það af því að þú lýsir öllum smáatriðunum svo skemmtilega og eðlilega :)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Takk Kristín fyrir falleg orð og hrós. Mér þykir ákaflega gaman að heyra að bloggið hafi róandi áhrif á þig; ég held að einmitt þá sé tilganginum náð.

      Eyða

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.