þriðjudagur, 29. nóvember 2016

Kaffistund í kyrrð

Kaffistund · Lísa Stefan


Í dag þurfti ég á kaffistund í kyrrð að halda með bókum og minnisbókum. Um leið og ég hafði tekið ljósmyndina kom persneski prinsinn minn niður og sofnaði á borðinu, upp við bókabunkann. Hann hrýtur núna. Líður einhverjum öðrum þannig að síðustu daga hafi þeir orðið fyrir auglýsingavæddri sprengjuárás? Ég er að tala um endalaust magn af „Black Friday“ og „Cyber Monday“ tölvupóstum í pósthólfinu, oft fleiri en einn frá sama fyrirtækinu á innan við sólarhring. Nú er nóg komið! Í morgun smellti ég miskunnarlaust á „segja upp áskrift“-hnappinn og hélt bara inni fréttabréfum sem tengjast bókum og textíl.

Sáuð þið Little Women teikninguna á Google í dag? Rithöfundurinn Louisa May Alcott fæddist á þessum degi, einnig C.S. Lewis. Ég hef hugsað um kvikmyndina (1994) í allan dag. Winona Ryder smellpassaði í hlutverk Jo March og ég hef alltaf verið svolítið skotin í Gabriel Byrne sem lék prófessor Bhaer. Það eru mörg ár síðan ég las bókina. Ef ég eignaðist innbundna Penguin-útgáfu myndi ég lesa hana aftur. Talandi um bækur. Fljótlega ætla ég að birta ritdóm minn um Avid Reader: A Life eftir ritstjórann Robert Gottlieb. Bókin var sú síðasta á „Booktober“ bókalistanum (№ 5) en sú fyrsta á honum sem ég kláraði að lesa því ég virkilega naut lestursins.



þriðjudagur, 22. nóvember 2016

Pizzasnúðar (gerlausir)

Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Stefan


Eruð þið tilbúin fyrir veturinn eða viljið þið leggjast í vetrardvala eins og birnir? Vetrardagarnir eru mun dimmari á Fróni og ég þekki nokkra sem glíma við skammdegisþunglyndi, sem betur fer ekki alvarlegt, ekkert sem má ekki tækla með D-vítamíni og enn þá meiri kósíheitum heima fyrir. Kertaljós, heitt súkkulaði og hlýir sokkar ná oft að fleyta manni langt. Hýasintur líka! Þetta er tíminn til að dreifa vösum með hýasintulaukum um heimilið. Veðrið hér á vesturströnd Skotlands er orðið kaldara en við erum ekki alveg komin yfir þröskuldinn og inn í veturinn. Ég tækla kuldann með hlýrri peysu og comfort food, sérstaklega baunaréttum eða nýbökuðu brauði eða bollum. Hlý eldhús með himneskum ilmi eru best á veturna, sem er ástæða þess að ég tók á móti börnunum eftir skóla í gær með heimabökuðum pizzasnúðum. Uppskriftin kemur úr Antwerpenflokknum mínum og kallar fram góðar minningar.

Pizzasnúðar á leið í ofninn · Lísa Stefan
Pizzasnúðar á leiðinni í ofninn

Áður en við bökum pizzasnúðana langar mig að minnast aðeins á (vínsteins)lyftiduft: Enginn á okkar heimili er með ofnæmi en í allar mínar uppskriftir nota ég glútenlaust lyftiduft frá Doves Farm. Þau borga mér ekki fyrir að auglýsa það, það er einfaldlega í uppáhaldi. Nýlega prófaði ég annað merki, einnig glútenlaust, en það gaf pizzasnúðunum smá eftirbragð sem mér líkaði ekki. Ástæða þess að ég nota aldrei hefðbundið lyftiduft er að mér finnst það alltaf gefa truflandi eftirbragð (notið a.m.k. helmingi minna í uppskriftina ef þið notið hefðbundið).

Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Stefan
Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Hjalt
Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Hjalt


Við bjuggum í Antwerpen þegar ég setti saman þessa uppskrift að mjúkum pizzasnúðum og fyrir einhverja ástæðu hef ég aldrei deilt henni hér. Persónulega er ég ekki mikið fyrir pizzasnúða (ég og sonurinn viljum bara pizzu) en dæturnar elska þessa heimagerðu. Snúðarnir eru frábært snakk eftir skóla, sérstaklega á köldum dögum, nýbakaðir úr ofninum. Í deigið nota ég fínt spelti en það má aðlaga uppskriftina að grófu (lífrænt hveiti er líka í góðu lagi). Saltmagnið veltur á því hversu söltuð pizzasósan ykkar er: Mín er það ekki, inniheldur bara ¼ teskeið. Ef sósan ykkar er vel söltuð þá myndi ég nota minna salt í deigið. Þið getið líka bætt út í sósuna ykkar smá hrásykri, eða sett smá í deigið. Stundum skipti ég út 2-3 matskeiðum af spelti fyrir semólína eða pólenta (gróft maísmjöl). Snúðana má gera vegan með sojajógúrt og vegan osti.

PIZZASNÚÐAR (GERLAUSIR)

gerir 20
435 g fínt spelti
1½ matskeið vínsteinslyftiduft
1 teskeið (eða minna) fínt sjávar/Himalayasalt
75 ml hrein jógúrt (5 matskeiðar)
1 matskeið létt ólífuolía
150-175 ml volgt vatn
3½-4 matskeiðar pizzasósa
100 g ostur, rifinn
má sleppa: parmesanostur og þurrt óreganó/ítölsk kryddblanda

Útbúið pizzasósu ef þið eigið ekki afgang í kæli. Hér er mín uppskrift að pizzasósu.

Blandið þurrefnunum saman í stórri skál (sjá punkta um lyftiduft hér að ofan). Myndið holu í miðjuna og hellið jógúrt, olíu og vatni ofan í (byrjið með 150 ml). Blandið saman með sleif og hnoðið svo deigið í höndunum á meðan það er enn í skálinni bara til að fá tilfinningu fyrir áferðinni. Deigið á ekki að vera klístrað þannig að ef það er of blautt þá sigtið þið smá mjöli yfir og hnoðið áfram.

Stráið spelti á borðplötu og hnoðið deigið aðeins í höndunum. Takið því næst kökukefli og fletjið deigið út. Leitist við að mynda ferning sem er ca. 37 cm (ég vil hafa snúðana þykka þannig að ég mynda ferning í stað ílangs ferhyrnings).

Dreifið pizzasósunni jafnt yfir útflatt deigið og stráið svo ostinum jafnt yfir. Því næst parmesanosti og kryddjurtum, ef notað. Rúllið upp deiginu nokkuð þétt. Skerið lengjuna í tvennt og svo hvora lengju í 10 sneiðar. Klæðið ca. 35 x 25 cm form/eldfast mót með bökunarpappír. Raðið snúðunum í fimm raðir með fjórum snúðum í hverri.

Bakið pizzasnúðana við 220°C (200°C á blæstri) í 13-15 mínútur. Kælið á grind í smá stund áður en þið berið þá fram.




föstudagur, 11. nóvember 2016

Bless meistari Cohen

Minning um Leonard Cohen · Lísa Stefan


Leonard Cohen hefur yfirgefið sviðið. Með morgunkaffinu hlustaði ég á tónleikaupptökur og lét hugann reika til unglingsáranna, þegar ég keypti I'm Your Man, fyrsta diskinn minn með Cohen. Dásamlegar minningar. Í dag finnst mér gaman að nota Facebook því það er áhugavert að sjá hvaða lögum vinir eru að deila - Suzanne var mitt val þegar ég heyrði fréttirnar í morgun. Þessi fögnuður á lífi hans er eins og smyrsl á sárin eftir niðurstöður kosninganna í Bandaríkjunum. Ég hef bara eitt um það mál að segja: Ég neita að láta mann sem ég ber enga virðingu fyrir hrófla við minni hugarró.

Aftur að Cohen. Það er kominn tími til að kaupa bók hans Book of Longing, sem hefur verið of lengi á óskalistanum. Ef þið eruð aðdáendur þá skuluð þið endilega lesa viðtal ritstjórans David Remnick við Cohen í The New Yorker, „Leonard Cohen Makes It Darker“ („How the Light Gets In,“ 17. október 2016). Í gær deildu þau hljóðskrá á vefsíðu sinni með hluta af viðtalinu, þar sem Cohen undirbýr sig fyrir dauðann.

Bless meistari Cohen og takk fyrir ljóðin þín og tónlistina.