þriðjudagur, 25. ágúst 2015

Hortensíur og septemberhefti

Hortensíur og septemberhefti · Lísa Hjalt


Þessir síðustu dagar ágústmánaðar eru dásamlegir: morgunkaffi, göngutúrar, aðallega til að njóta hortensía, eilítið dimmari síðdegi og bóklestur undir kertaljósi í rigningu eða þrumuveðri. Svo eru það tölublöð septembermánaðar. Í mínu tilviki er einungis eitt þeirra tískutengt. The World of Interiors stendur alltaf fyrir sínu; mér finnst ég alltaf eilítið ríkari eftir lesturinn.
Hortensíur · Lísa Hjalt


Fyrir nokkrum árum síðan hefði ég mjög líklega keypt ýmsar Vogue útgáfur (í hillunum er að finna gömul septembertölublöð þess ameríska, breska, franska, ítalska og þýska) en á einhverjum tímapunkti hætti ég því. Ég ætlaði ekki að kaupa Harper's Bazaar UK en þegar ég blaðaði í því í tímaritabúð þá fangaði ein tiltekin umfjöllun athygli mína, um Amanda Brooks og fallega sveitasetrið hennar í Oxfordshire. Brooks var áður tískustjóri Barneys í New York.
Septemberhefti · Lísa Hjalt


Ég held að Vita Kin-kjóllinn sem Brooks klæðist á einni myndinni hafi haft töluvert með það að gera að ég keypti tímaritið. Ég er heilluð af hönnun, mynstri og bróderingu, þessara hefðbundnu úkraínsku flíka - vyshyvanka. Ég velti því fyrir mér hvort ég fengi leið á þeim núna þegar svo til allir virðast klæðast þeim en svo er ekki raunin. Þær eru klassík.



Fyrir utan fallega stíliseraða og ljósmyndaða tískuþætti sem segja sögu (oft erfitt að finna þá) þá er ekki mikið í tískutímaritum sem lengur höfðar til mín. Ég á þá við tískuhlutann. Ég held að þessi tímarit hafi elst af mér og ég er orðin þreytt á því hvernig fjallað er um tísku. Hvað er með þessar endalausu síður með myndum af flíkum og aukahlutum haust- eða vorlína sem alltaf eru eins uppsettar og áherslan að mestu á merkjavöru? Ég er mun hrifnari af hönnunarferlinu sjálfu og hvert tískuhönnuðurinn sækir innblástur þegar hann hannar nýja línu. Það er akkúrat þess vegna sem viðtal við Maria Grazia Chiuri og Pierpaolo Piccoli, listræna stjórnendur Valentino-tískuhússins, kom mér skemmtilega á óvart. Lítið bara á safn myndanna hér að neðan sem sýnir hvert þau sóttu innblástur fyrir haustlínuna í ár. Þetta er það sem ég vil sjá.


Í viðtalinu er komið inn á sambandið við saumakonurnar og þá virðingu sem þau bera fyrir þeim. Þær „setja ástríðu sína og umönnun í hverja línu ... Mikil vinna og natni er lögð í hvern kjól, í hvert smáatriði, og það má finna hversu dýrmætt þetta er“ (bls. 313). Þau hafa sett upp þriðju hátískuvinnustofuna og kenna ungu fólki iðnina. Chiuri bendir á: „Það er virðing í þessu starfi en það er líka gaman að sjá pönkklædda stelpu í Doc Martens-skóm vinna við hlið sextugrar konu í inniskóm - tvær kynslóðir saman sem deila þekkingu og sérhæfni“ (bls. 314). Þið getið skoðað nokkur smáatriði í hönnun Valentino á Tumblr-síðunni minni.
Bækur og septemberhefti · Lísa Hjalt


Önnur skemmtileg grein var um Diana Vreeland, hina frægu tískuritstýru, sem skrifuð er af breska sagnfræðingnum Kathryn Hughes (ævisaga hennar um George Eliot er á óskalistanum). Ný bók um Vreeland kemur út hjá Rizzoli-forlaginu í október, Diana Vreeland: the Modern Woman: The Bazaar Years, 1936-1962, í ritstjórn sonarsonar hennar Alexander Vreeland.



Það var fullt af umfjöllunum í The World of Interiors sem höfðuðu til mín. Ein þá sérstaklega um búgarð í Mexíkó, við landamæri Arizona í Bandaríkjunum, í eigu hönnuðanna Jorge Almada og Anne-Marie Midy sem reka Casamidy, húsgagnahönnunarfyrirtæki. Sjáið fyrir ykkur hefðbundnar, demantamynstraðar mottur og leðurstóla. Midy lýsir landslaginu sem „grænu eftir sumarregnið, en að haustið bleiki það fölum gylltum tón“ (bls. 130). Mig langar að sitja á þessari verönd og njóta dýrðarinnar.



Grein um kaffihúsið Caffè Stern sem er til húsa í Passage des Panoramas í París fékk hjartað til að slá örlítið hraðar vegna Picasso-púðanna sem notaðir eru til að skreyta staðinn (einn sést á myndinni hér að ofan til vinstri). Ég man ekki hvenær ég féll fyrir þeim fyrst. Púðaverin eru handofin og -unnin í Flæmingjalandi (norðurhluti Belgíu) og hönnuð í samvinnu við Picasso-stofnunina. Nokkrar ábreiður eru fáanlegar í versluninni The Conran Shop í London.

Bráðum fara krakkarnir aftur í skólann og skærir litir hortensíanna taka að fölna. Endanlega skipta lauf trjánna litum. Hluti af mér hlakkar til að njóta kaldari haustmorgna; annar hluti vonast eftir indjánasumri, eins og þurr og hlý haust kallast í enskri tungu.


[Uppfærsla: Vegna athugasemdar á ensku útg. bloggsins um ólífugrænu textílprufuna undir latteskálinni og tölvupósts sem mér barst um þá rauðu: Allar prufur í færslunni eru frá Fermoie. Sú ólífugræna er Rabanna (L-077), rauða Marden (L-275) og þessar með röndunum á einni mynd eru York Stripe (bláa L-173, rauða L-016). Allar eru 100% bómull. Allar uppl. um þá gulu sem glittir í á nokkrum myndum eru í bloggfærslunni gul efni frá Fermoie.]



2 ummæli:

  1. Hin!!!i Love your house and your beautiful blog , you have a new follower
    Angelica

    SvaraEyða
    Svör
    1. Thank you for your visit and comment, Angelica. I just want to point out that I have an English version of the blog: http://lattelisa.blogspot.co.uk

      Eyða

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.