miðvikudagur, 16. september 2015

Bókin Charleston: A Bloomsbury House & Garden

Umfjöllun um bókina Charleston: A Bloomsbury House & Garden · Lísa Hjalt


Í sumar fékk ég góða viðbót í safnið þegar eiginmaðurinn gaf mér bókina Charleston: A Bloomsbury House and Garden eftir Quentin Bell og dóttur hans Virginíu Nicholson. Quentin var sonur listakonunnar Vanessu Bell (systir rithöfundarins Virginiu Woolf) og eiginmanns hennar Clive. Bókin rekur sögu Charleston-setursins í Sussex, sem Vanessa tók á leigu á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar - á þeim tímapunkti var hjónaband hennar og Clive bara að nafninu til. Auk sona hennar bjuggu hjá henni listamaðurinn Duncan Grant og vinur hans David Garnett, en þeir voru elskendur. Það vill svo til að Vanessa og Duncan eignuðust dóttur sem hét Angelica og fæddist í húsinu. Fyrrnefndur David kvæntist henni síðar á ævinni. Það er ekki efni þessarar færslu en það er óhætt að segja að sambönd gátu oft verið örlítið flókin, eða eigum við að segja mjög áhugaverð, innan Bloomsbury-hópsins, eins og vinahópurinn var kallaður (sjá einnig nýlega færslu mína Þáttaröðin Ferkantað líf ). Bókin um Charleston er skemmtileg og smáatriðin í stílnum eru endalaus uppspretta innblásturs; bóhemískur stíll með dásamlegum persónulegum og listrænum snúningi.

Svefnherbergi Vanessu Bell, bls. 58

Bókin er sett upp þannig að hvert rými fær sinn kafla sem rekur sögu þess, hvernig það var notað og innréttað. Quentin var 85 ára gamall þegar hann byrjaði að skrifa bókina. Hann hafði lokið fyrsta uppkastinu þegar heilsu hans hrakaði. Þegar hann gat ekki lengur skrifað var það dóttir hans Virginia sem sat og hlustaði á sögur hans af húsinu og tók þær upp, en hún þekkti húsið einnig vel. Hann lést árið 1996 og það var hún sem kláraði bókina. Köflunum er skipt niður í hluta sem eru merktir með upphafsstöfum þeirra þannig að lesandinn veit alltaf hver skrifar. Ljósmyndir af rýmunum eru eftir Alen MacWeeney og í myndatexta má finna ýmis smáatriði. Það eru einnig gamlar svarthvítar ljósmyndir af heimilisfólki og vinum þeirra, en húsið varð vinsæll dvalarstaður Bloomsbury-hópsins.

Vanessa átti herbergið sem sést hér að ofan. Það var áður matargeymsla en árið 1939 var henni breytt og í stað lítils glugga komu franskir gluggar sem opnast út í garðinn. Ég hef aldrei farið að skoða Charleston en þetta horn er nú þegar í uppáhaldi. Fallega skrifborðið hennar er franskt frá 19. öld. Hún hannaði gluggatjöldin fyrir Omega-vinnustofurnar árið 1913. Gluggatjöldin sem sjást á myndinni eru endurgerð Laura Ashley frá árinu 1986.

Setustofa Duncans í vinnustofunni, bls. 67

Eftir samningsviðræður tók Vanessa húsið á langtímaleigu, sem þýddi að hún og Duncan gátu byggt alvöru vinnustofu. Hún var tilbúin árið 1925 með nægu plássi til að mála og með rými fyrir þá sem sátu fyrir á myndum. Roger Fry, sem tilheyrði Bloomsbury-hópnum og setti á stofn Omega-vinnustofurnar, aðstoðaði við bygginguna. Duncan notaði hluta rýmisins sem setustofu. Hann skreytti skilrúmin á bak við stólinn og panilana í kringum arininn upp úr 1930. Síðar, eða árið 1939, breytti Vanessa herbergi á efstu hæðinni í vinnustofu sem hún hafði út af fyrir sig.

Glugginn í svefnherbergi Duncans, bls. 109

Quentin segir í bókinni að hann hafi sofið í öllum herbergjum í Charleston en að svefnherbergið sem Duncan átti hafi verið í mestu uppáhaldi, en í því herbergi var skemað hvað mest útpælt. Vanessa málaði skreytingarnar í kringum gluggann og hún hannaði einnig ábreiðuna á franska gluggasætinu.

Í skrifstofuherbergi Clive Bell, bls. 47

Myndin hér að ofan sýnir skrifstofuherbergi Clive Bell, sem var áður notað sem stofa. Clive hafði verið tíður gestur í húsinu en árið 1939 flutti hann inn. Vanessa málaði skreytingarnar í kringum gluggann árið 1916-17. Duncan málaði flísarnar í borðplötunni upp úr 1920 eða 1930.

Þar til ég get farið að skoða Charleston-setrið (á vefsíðunni er að finna upplýsingar um hvenær það er opið almenningi) þá verð ég bara að njóta herbergjanna og skrautmunanna í bókinni minni. Eina eftirsjáin er að eiga ekki innbundið eintak því þessi bók er ein af þeim í safninu sem mér á eftir að þykja meira og meira vænt um.

Svo sannarlega endalaus uppspretta innblásturs!

Zarafshan efni úr líni frá Lewis & Wood

Að lokum: Allar textílprufurnar sem ég notaði í stíliseringunni eru frá Lewis & Wood. Efnið, sem er innblásið af hinni austrænu Suzani-hefð, kallast Zarafshan og er úr 100% líni. Það er til í nokkrum litum og sjást þrír þeirra hér: Í fyrstu tveimur myndunum Indigo/Cranberry, í þeirri þriðju Turquoise/Lime og í síðustu tveimur Rust/Slate. Meira um Lewis & Wood síðar.



2 ummæli:

  1. Áhugavert í meira lagi. Ég var að horfa á seinni hluta þáttana núna um daginn missti af þeim fyrsta en tók ekki vel eftir húsinu. Þú hefur nú vakið áhuga minn á þessari sögu til muna. haha já samböndin voru eins og í sápuóperu en ekki vissi ég að Angelica hefði gifst David... fyrrum elskhuga föður sins. Takk fyrir áhugaverðan blogpóst
    kveðja
    Stina

    SvaraEyða
    Svör
    1. Takk Stína. Til að krydda þessa sögu enn frekar þá hefði ég kannski átt að taka það fram líka að David Garnett var viðstaddur fæðingu stelpunnar! Hann var sá fyrsti sem sá hana þegar hún kom í heiminn, fyrir utan móður og ljósmóður ;-) Svona var bara stemningin hjá Bloomsbury-fólkinu, allt voða frjálslegt.

      Eyða

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.