laugardagur, 12. júlí 2014

Góða helgi



Ég er einum degi of sein með þennan póst. Ég átti afmæli í gær og hélt mig að mestu fjarri tölvunni til að njóta sólarinnar og nýju bókanna minna. Ég verð í bloggfríi næstu tvær vikurnar. Ég er að vonast til að kynnast svæðinu hér í kring betur og að komast út að strönd því það er orðið langt síðan ég dýfði tánum í sjóinn.

Ég óska ykkur góðrar helgar!

mynd:
El Mueble

fimmtudagur, 10. júlí 2014

Innlit: hönnuðurinn Naja Munthe í Frederiksberg



Þegar innlit hafa birst á mörgum bloggum þá reyni ég helst að forðast að birta þau á mínu, en sum eru bara þannig að þau láta mig ekki í friði og ég stend sjálfa mig að því að skoða myndirnar reglulega. Þessi lúxusíbúð danska tískuhönnuðarins Naja Munthe í Frederiksberg er eitt þeirra. Innlitið er óhefðbundið því myndirnar birtust upphaflega í bók hennar Fashionable Living. Eins og sjá má er heimili hennar allt hið smekklegasta. Ég er sérstaklega hrifin af svörtu gluggarömmunum og ljósakrónunum, og sem yfirlýst bókakona þá finnst mér alltaf heillandi að sjá stafla af bókum innan um skrautmuni.


myndir:
Morten Koldby úr bókinni Fashionable Living eftir Naja Munthe, af Agua Marina Blog

fimmtudagur, 3. júlí 2014

Rýmið 68




Þessi mynd er hluti af innliti tímaritsins Veranda á heimili hönnuðarins Mark D. Sikes í Hollywood Hills í Kaliforníu. Sikes og sambýlismaður hans hafa endurnýjað húsið og hér sést inn í stofuna frá veröndinni. Mér finnst gluggarnir fallegir og ég er alltaf hrifin af stórum vösum með blómstrandi greinum.

Roger Davies fyrir Veranda af bloggi Mark D. Sikes

þriðjudagur, 1. júlí 2014

Innlit: sveitasæla á Martha's Vineyard



Þetta fallega heimili á eyjunni Martha's Vineyard er í eigu amerískra hjóna sem fengu nóg af borgarlífinu í London og ákváðu að breyta um lífsstíl þegar þau fluttu aftur til Bandaríkjanna. Þau fengu arkitektinn Mark Hutker til að hanna fyrir sig hús og hlöðu og sneru sér að lífrænum búskap. Eins og sjá má þá er heimilið hlýlegt, prýtt hlutlausum tónum og stíllinn einfaldur. Hráir viðarbitar í loftum eru skemmtilegt mótvægi við nútímalegar innréttingar og stórir gluggar hleypa inn náttúrulegri birtu.

Mér finnst alltaf svolítið skemmtileg útfærsla að vera með skrifborð fyrir aftan sófa í stofum, ef nægilegt rými er fyrir hendi. Mér finnst líka eldhúsbekkurinn upp við gluggann, sem einnig er nýttur sem geymslurými, ákaflega skemmtileg lausn. Það sést ekki mjög vel á myndinni en mér sýnist glugginn í svefnherberginu vera notaður sem leskrókur.


myndir:
Nikolas Koenig fyrir Architectural Digest