þriðjudagur, 29. nóvember 2016

Kaffistund í kyrrð

Kaffistund · Lísa Stefan


Í dag þurfti ég á kaffistund í kyrrð að halda með bókum og minnisbókum. Um leið og ég hafði tekið ljósmyndina kom persneski prinsinn minn niður og sofnaði á borðinu, upp við bókabunkann. Hann hrýtur núna. Líður einhverjum öðrum þannig að síðustu daga hafi þeir orðið fyrir auglýsingavæddri sprengjuárás? Ég er að tala um endalaust magn af „Black Friday“ og „Cyber Monday“ tölvupóstum í pósthólfinu, oft fleiri en einn frá sama fyrirtækinu á innan við sólarhring. Nú er nóg komið! Í morgun smellti ég miskunnarlaust á „segja upp áskrift“-hnappinn og hélt bara inni fréttabréfum sem tengjast bókum og textíl.

Sáuð þið Little Women teikninguna á Google í dag? Rithöfundurinn Louisa May Alcott fæddist á þessum degi, einnig C.S. Lewis. Ég hef hugsað um kvikmyndina (1994) í allan dag. Winona Ryder smellpassaði í hlutverk Jo March og ég hef alltaf verið svolítið skotin í Gabriel Byrne sem lék prófessor Bhaer. Það eru mörg ár síðan ég las bókina. Ef ég eignaðist innbundna Penguin-útgáfu myndi ég lesa hana aftur. Talandi um bækur. Fljótlega ætla ég að birta ritdóm minn um Avid Reader: A Life eftir ritstjórann Robert Gottlieb. Bókin var sú síðasta á „Booktober“ bókalistanum (№ 5) en sú fyrsta á honum sem ég kláraði að lesa því ég virkilega naut lestursins.



þriðjudagur, 22. nóvember 2016

Pizzasnúðar (gerlausir)

Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Stefan


Eruð þið tilbúin fyrir veturinn eða viljið þið leggjast í vetrardvala eins og birnir? Vetrardagarnir eru mun dimmari á Fróni og ég þekki nokkra sem glíma við skammdegisþunglyndi, sem betur fer ekki alvarlegt, ekkert sem má ekki tækla með D-vítamíni og enn þá meiri kósíheitum heima fyrir. Kertaljós, heitt súkkulaði og hlýir sokkar ná oft að fleyta manni langt. Hýasintur líka! Þetta er tíminn til að dreifa vösum með hýasintulaukum um heimilið. Veðrið hér á vesturströnd Skotlands er orðið kaldara en við erum ekki alveg komin yfir þröskuldinn og inn í veturinn. Ég tækla kuldann með hlýrri peysu og comfort food, sérstaklega baunaréttum eða nýbökuðu brauði eða bollum. Hlý eldhús með himneskum ilmi eru best á veturna, sem er ástæða þess að ég tók á móti börnunum eftir skóla í gær með heimabökuðum pizzasnúðum. Uppskriftin kemur úr Antwerpenflokknum mínum og kallar fram góðar minningar.

Pizzasnúðar á leið í ofninn · Lísa Stefan
Pizzasnúðar á leiðinni í ofninn

Áður en við bökum pizzasnúðana langar mig að minnast aðeins á (vínsteins)lyftiduft: Enginn á okkar heimili er með ofnæmi en í allar mínar uppskriftir nota ég glútenlaust lyftiduft frá Doves Farm. Þau borga mér ekki fyrir að auglýsa það, það er einfaldlega í uppáhaldi. Nýlega prófaði ég annað merki, einnig glútenlaust, en það gaf pizzasnúðunum smá eftirbragð sem mér líkaði ekki. Ástæða þess að ég nota aldrei hefðbundið lyftiduft er að mér finnst það alltaf gefa truflandi eftirbragð (notið a.m.k. helmingi minna í uppskriftina ef þið notið hefðbundið).

Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Stefan
Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Hjalt
Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Hjalt


Við bjuggum í Antwerpen þegar ég setti saman þessa uppskrift að mjúkum pizzasnúðum og fyrir einhverja ástæðu hef ég aldrei deilt henni hér. Persónulega er ég ekki mikið fyrir pizzasnúða (ég og sonurinn viljum bara pizzu) en dæturnar elska þessa heimagerðu. Snúðarnir eru frábært snakk eftir skóla, sérstaklega á köldum dögum, nýbakaðir úr ofninum. Í deigið nota ég fínt spelti en það má aðlaga uppskriftina að grófu (lífrænt hveiti er líka í góðu lagi). Saltmagnið veltur á því hversu söltuð pizzasósan ykkar er: Mín er það ekki, inniheldur bara ¼ teskeið. Ef sósan ykkar er vel söltuð þá myndi ég nota minna salt í deigið. Þið getið líka bætt út í sósuna ykkar smá hrásykri, eða sett smá í deigið. Stundum skipti ég út 2-3 matskeiðum af spelti fyrir semólína eða pólenta (gróft maísmjöl). Snúðana má gera vegan með sojajógúrt og vegan osti.

PIZZASNÚÐAR (GERLAUSIR)

gerir 20
435 g fínt spelti
1½ matskeið vínsteinslyftiduft
1 teskeið (eða minna) fínt sjávar/Himalayasalt
75 ml hrein jógúrt (5 matskeiðar)
1 matskeið létt ólífuolía
150-175 ml volgt vatn
3½-4 matskeiðar pizzasósa
100 g ostur, rifinn
má sleppa: parmesanostur og þurrt óreganó/ítölsk kryddblanda

Útbúið pizzasósu ef þið eigið ekki afgang í kæli. Hér er mín uppskrift að pizzasósu.

Blandið þurrefnunum saman í stórri skál (sjá punkta um lyftiduft hér að ofan). Myndið holu í miðjuna og hellið jógúrt, olíu og vatni ofan í (byrjið með 150 ml). Blandið saman með sleif og hnoðið svo deigið í höndunum á meðan það er enn í skálinni bara til að fá tilfinningu fyrir áferðinni. Deigið á ekki að vera klístrað þannig að ef það er of blautt þá sigtið þið smá mjöli yfir og hnoðið áfram.

Stráið spelti á borðplötu og hnoðið deigið aðeins í höndunum. Takið því næst kökukefli og fletjið deigið út. Leitist við að mynda ferning sem er ca. 37 cm (ég vil hafa snúðana þykka þannig að ég mynda ferning í stað ílangs ferhyrnings).

Dreifið pizzasósunni jafnt yfir útflatt deigið og stráið svo ostinum jafnt yfir. Því næst parmesanosti og kryddjurtum, ef notað. Rúllið upp deiginu nokkuð þétt. Skerið lengjuna í tvennt og svo hvora lengju í 10 sneiðar. Klæðið ca. 35 x 25 cm form/eldfast mót með bökunarpappír. Raðið snúðunum í fimm raðir með fjórum snúðum í hverri.

Bakið pizzasnúðana við 220°C (200°C á blæstri) í 13-15 mínútur. Kælið á grind í smá stund áður en þið berið þá fram.




föstudagur, 11. nóvember 2016

Bless meistari Cohen

Minning um Leonard Cohen · Lísa Stefan


Leonard Cohen hefur yfirgefið sviðið. Með morgunkaffinu hlustaði ég á tónleikaupptökur og lét hugann reika til unglingsáranna, þegar ég keypti I'm Your Man, fyrsta diskinn minn með Cohen. Dásamlegar minningar. Í dag finnst mér gaman að nota Facebook því það er áhugavert að sjá hvaða lögum vinir eru að deila - Suzanne var mitt val þegar ég heyrði fréttirnar í morgun. Þessi fögnuður á lífi hans er eins og smyrsl á sárin eftir niðurstöður kosninganna í Bandaríkjunum. Ég hef bara eitt um það mál að segja: Ég neita að láta mann sem ég ber enga virðingu fyrir hrófla við minni hugarró.

Aftur að Cohen. Það er kominn tími til að kaupa bók hans Book of Longing, sem hefur verið of lengi á óskalistanum. Ef þið eruð aðdáendur þá skuluð þið endilega lesa viðtal ritstjórans David Remnick við Cohen í The New Yorker, „Leonard Cohen Makes It Darker“ („How the Light Gets In,“ 17. október 2016). Í gær deildu þau hljóðskrá á vefsíðu sinni með hluta af viðtalinu, þar sem Cohen undirbýr sig fyrir dauðann.

Bless meistari Cohen og takk fyrir ljóðin þín og tónlistina.



föstudagur, 28. október 2016

Lestrarstund með persanum mínum

Lestrarstund með persanum mínum · Lísa Stefan


Ég hef komið mér upp föstudagsrútínu sem mér er farið að þykja vænt um. Á ákveðnum tíma skelli ég mér í þægileg föt og snyrti heimilið fyrir helgina og tek svo kaffipásu. Á þessum punkti birtist yfirleitt persakötturinn okkar, hoppar upp á borðið, treður sér á milli bókanna og tekur sér góðan tíma að finna rétta staðinn. Hann liggur og fylgist með mér á meðan ég les og drekk kaffi og við „spjöllum“ saman. Hann byrjar að mala og ég strýk honum, svo rís hann upp, snýst í hringi þar til hann finnur rétta staðinn aftur og sofnar; sefur í nokkrar klukkustundir á sama stað. Ég tók myndina af honum um hádegisbilið í dag og klukkan er um hálftíu um kvöld og hann sefur þarna enn! Eftir að börnin komu heim úr skólanum voru þau að horfa á Netflix í stofunni og það hafði engin áhrif á hann, hann lætur ekkert trufla sig. Dásamlegur.

Í dag var ég að lesa tvær bækur: Pósturinn kom loksins með Avid Reader: A Life, æviminningar ritstjórans Robert Gottlieb sem ég setti á nýjasta bókalistann (№ 5). Síðasta föstudag, klukkutíma eða svo eftir að ég deildi listanum á blogginu, hringdi bjallan og póstmaðurinn færði mér pakka: gjöf frá höfundinum Francisca Mattéoli, eintak af nýjustu bók hennar: Map Stories: The Art of Discovery - svo falleg bók með gömlum landakortum og skemmtilegum sögum. Það er virkilega gaman að lesa hana; ég ætla að fjalla um hana á blogginu síðar.

Góða helgi!



föstudagur, 21. október 2016

№ 5 bókalisti: Booktober 2016

№ 5 bókalisti: Booktober 2016 · Lísa Stefan


Dásamlegar samræður tveggja rithöfunda áttu sér stað á Lannan Literary viðburði í apríl þegar Zadie Smith og Karl Ove Knausgård deildu sviðinu. Karl Ove var mættur til að lesa upp úr Some Rain Must Fall, fimmtu My Struggle bókinni, og Zadie til að kynna hann og spyrja spurninga. Hún byrjaði á skondinni sögu: Á flugvellinum, á leið sinni til viðburðarins, heyrði hún konu segja við vinkonu sína: „Hvers konar manneskja eiginlega segir svona lagað upphátt?“ Og hún hugsaði: „Ég er að fara að hitta hann núna, ég veit nákvæmlega hver þetta er.“ („What kind of a person even says that out loud?“ . . . „I'm gonna go meet him now, I know exactly who it is.“)

Þeir sem hafa lesið sjálfsævisögulegar bækur Karl Ove þar sem hann opinberar allt brosa sennilega eða hlæja núna. Allavega voru það viðbrögð fólksins í salnum. Bók 1 er á Booktober-bókalistanum mínum og ég er svo glöð að hafa dembt mér ofan í lesturinn. Ég var ekki viss hvort My Struggle bækurnar (Min Kamp á norsku) væru fyrir mig, auk þess er ég alltaf örlítið skeptísk þegar verk verða ofurvinsæl. En það var eitthvað sem stöðugt togaði í mig og þegar ég áttaði mig á því að ég hafði meira eða minna séð annað hvert myndband á YouTube með samræðum við Karl Ove þá sagði ég við sjálfa mig, Þetta fer að verða fáranlegt, að vita svona mikið um þessar bækur og lesa þær ekki. Ég hef varla lagt bókina frá mér en ætla að geyma Bók 2 fyrir næsta lista og lesa í staðinn annað verk eftir hann. Hér er listinn, sem mun teygja sig vel inn í nóvember:

1  A Death in the Family: My Struggle 1  · Karl Ove Knausgård
2  A Time for Everything  · Karl Ove Knausgård
3  White Teeth  · Zadie Smith
4  NW  · Zadie Smith
5  Americanah  · Chimamanda Ngozi Adichie
6  Purple Hibiscus  · Chimamanda Ngozi Adichie
7  Avid Reader: A Life  · Robert Gottlieb

Ég hef lengi fylgst með Zadie Smith - hún hefur einstaka persónutöfra á bókmenntasviðinu - en aldrei lesið neitt eftir hana fyrr en núna þegar ég keypti fyrstu skáldsögu hennar, White Teeth, og fékk NW lánaða á bókasafninu (stundum snýst þetta allt um tímasetningu). Nýjasta bókin hennar, Swing Time, er að koma út og ég tek eftir Zadie-umfjöllunum í ýmsum fjölmiðlum, t.d. viðtal í T Magazine sem rithöfundurinn Jeffrey Eugenides tók. Hún prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs The Gentlewoman, nr. 14, haust og vetur 2016. Mig langaði að kaupa það en hef ekki fundið eintak hérna í bænum. Önnur skáldkona með persónutöfra er hin nígeríska Chimamanda Ngozi Adichie. Mér fannst Half of a Yellow Sun frábær, las hana tvisar og mun líklega lesa hana aftur. Mig hefur langað að hlusta á samræður á milli Zadie og Chimamanda sem fóru fram í Schomburg-miðstöðinni í Harlem-hverfi í New York. Ég byrjaði að horfa og fannst þær frábærar saman en vildi ekki halda áfram fyrr en ég væri búin að lesa Americanah, sem ég keypti í sumar. Þegar ég hef lokið lestri þessara skáldsagna ætla ég að snúa mér að æviminningum ritstjórans Robert Gottlieb sem voru að koma út. Þegar þetta er skrifað er eintakið mitt á leiðinni með póstinum og ég get ekki beðið eftir því að fá það í hendur.

Listaverk: Georgia O'Keeffe, Black Cross with Stars and Blue, 1929
Georgia O'Keeffe, Black Cross with Stars and Blue, 1929

Í ágúst þegar við vorum í London fór ég með eldri dótturinni á Georgia O'Keeffe sýninguna í Tate Modern; ein af ástæðum ferðarinnar. Hún hafði lært um O'Keeffe í listatímum í skólanum og þetta var mín fyrsta O'Keeffe-sýning. Það var einstök upplifun að sjá mörg uppáhaldsverk með eigin augum. Eitt þeirra var Black Cross with Stars and Blue, 1929, sem glittir í á myndunum mínum:
This painting depicts a cross of the Penitente sect of Catholicism, frequently sited within the New Mexico landscape, but viewed here against the outline of Taos Mountain, a sacred site for the local Native American community. The composition thus emphasises O'Keeffe's understanding of the layering of cultural identity on the American landscape. As she described: „It was in the late light and the cross stood out – dark against the evening sky. If I turned a little to the left, away from the cross, I saw the Taos Mountain – a beautiful shape. I painted the cross against the mountain although I never saw it that way.“ (Tate, bls. 68)
Annað verk var Abstraction White Rose, 1927. Ég sver það, ég þurfti að bæla niður óp þegar ég sá það og hjartað sló hraðar þegar ég virti það fyrir mér. Sýningunni lýkur í lok október og ég hvet ykkur að fara ef þið eruð í London.

№ 5 bókalisti: Booktober 2016 · Lísa Stefan
Booktober-bókalisti í bígerð

Georgia O'Keeffe málverk af vefsíðu Studio International