Endurminningar Sigurðar Pálssonar heitins eru bækur sem ég les reglulega, allar þrjár: Minnisbók, Bernskubók og Táningabók. Þegar ég ferðast með lest hef ég alltaf eina þessara bóka með í för, hefð sem ég skapaði í Skotlandi árið 2017. Æviskrif rithöfunda og ljóðskálda fjalla vitanlega um tungumálið, það að skrifa prósa eða ljóð, og bókmenntaleg tengsl því ríkuleg. Ég fæ ekki nóg af slíku, af lestri bóka um bækur. Siggi Páls, eins og ég kalla hann án þess að hafa þekkt hann persónulega, var ljóðskáld og því er prósi hans knappur. Hann á það til að vera einstaklega hnyttinn þannig að ég skelli upp úr. Ég tengi sérstaklega við hugmyndir hans um það að vera Íslendingur í útlöndum, að horfa á fæðingarland sitt úr fjarlægð.
Í kaflanum Miðja og jaðar í Bernskubók skrifar hann um „mótun þeirrar vitundar að vera ekki fastur í fæðingarstað né fæðingarlandi“; um hina „víðari mynd, það að tilheyra veröldinni, mannkyninu“ og bætir við:
Í kaflanum Miðja og jaðar í Bernskubók skrifar hann um „mótun þeirrar vitundar að vera ekki fastur í fæðingarstað né fæðingarlandi“; um hina „víðari mynd, það að tilheyra veröldinni, mannkyninu“ og bætir við:
Það sem ég tengi við þessi orð.Þannig hef ég lengi reynt að upplifa sjálfan mig. Númer eitt tilheyri ég mannkyninu, númer tvö Evrópu, síðan Íslandi.
Svona er ég nú svakalega fortapaður orðinn.
Með árunum hef ég fengið sífellt sterkari tilfinningu fyrir þessu. Svo sterka að mér verður óglatt að hlusta á hvers kyns rembu, þjóðrembu, karlrembu. Allt jafn ömurlegt.
![]() |
Bernskubók Sigga Páls með í för til München síðasta haust |
Þegar fólk spyr mig hvaðan ég komi svara ég gjarnan að ríkisfangið tilheyri heiminum en að vegabréfið sé íslenskt. Fólk frá Íslandi spyr mig oft hvort ég ætli ekki að fara að koma heim. Nei, ég er ekki á leiðinni „heim“. Það er langt síðan Ísland glataði þeirri merkingu. Þýskan á frábært orð, heimat, sem þarf ekki endilega að merkja fæðingarstað heldur þann stað þar sem þér líður heima. Eftir að hafa búið hér í bráðum 6 ár er Austurríki jafnvel ekki mitt heimat. Fyrir mér er heimat visst svæði á meginlandi Evrópu og tengist frekar menningu heldur en tilteknum stað eða borg.
En hvað hefur þetta með vitlausan leshraða að gera eins og segir í titli? Ég endurlas Táningabókina með morgunkaffinu í janúar og í kaflanum þar sem Siggi Páls víkur að birtingu ljóða sinna í fyrsta sinn leggur hann ríka áherslu á hægan lestur ljóðtexta. Hann líkir þessu saman við spil á hljómplötum, segir að ljóð kalli á 33 snúninga en ekki 45 til að sjá „merkingu,tilfinningu“ og bætir við
En hvað hefur þetta með vitlausan leshraða að gera eins og segir í titli? Ég endurlas Táningabókina með morgunkaffinu í janúar og í kaflanum þar sem Siggi Páls víkur að birtingu ljóða sinna í fyrsta sinn leggur hann ríka áherslu á hægan lestur ljóðtexta. Hann líkir þessu saman við spil á hljómplötum, segir að ljóð kalli á 33 snúninga en ekki 45 til að sjá „merkingu,tilfinningu“ og bætir við
að mikið af misskilningi fólks gagnvart ljóðtextum sé í raun innstillingaratriði, móttökutækin eru vitlaust stillt. Leshraðinn er vitlaus.
![]() |
Zao Wou-Ki, 1969 |
Leshraðinn er vitlaus. Þessi orð Sigga eiga við prósa líka því sumar bækur kalla á hægari lestur. Þau voru góð áminning þegar ég byrjaði á ritgerðasafninu Serious Noticing: Selected Essays eftir gagnrýnandann James Wood. Það var jólagjöf frá kærri vinkonu og geymir greinar sem Wood skrifaði á árunum 1997 til 2019 fyrir tímaritin New Republic, The New Yorker og London Review of Books.
Að lokum vil ég segja að ég hef saknað þess að blogga, saknað þess að fjalla um bækur á íslensku. Þó að Ísland sé ekki mitt heimat þá á íslenskan alltaf sinn hjartastað.
Að lokum vil ég segja að ég hef saknað þess að blogga, saknað þess að fjalla um bækur á íslensku. Þó að Ísland sé ekki mitt heimat þá á íslenskan alltaf sinn hjartastað.
myndir: 1) birti ég á Instagram 26. janúar 2025 | 3) Zao Wou-Ki listaverk af vefsíðu Foundation Zao Wou-Ki (verkið er í safni Þjóðlistasafns Taiwan)