miðvikudagur, 27. mars 2013

sumargjöfin mín: bringing nature home eftir ngoc minh ngo


Ég er með sömu myndir á báðum bloggunum í dag en ekki alveg sama texta. Ég kynnti íslenska sumardaginn fyrsta fyrir lesendum enska bloggsins en það er óþarfi að gera það hér.

Í síðustu viku póstaði ég þessari færslu um blómabúð í Madrid og minntist um leið á bókina Bringing Nature Home: Floral Arrangements Inspired by Nature eftir ljósmyndarann Ngoc Minh Ngo.

Sama dag ákvað ég að bókin yrði sumargjöfin mín í ár - gjöf frá mér til mín. Ég held að það sé ágætis hugmynd að halda í þá íslensku hefð að gefa gjafir á sumardaginn fyrsta og héðan í frá ætla ég að gefa sjálfri mér gjöf á þessum degi. Ég ætla að gefa sjálfri mér bækur á sumardaginn fyrsta ár hvert sem hafa eitthvað með náttúruna að gera, bækur sem njóta sín vel hérna á stofuborðinu.


Bringing Nature Home var gefin út af Rizzoli forlaginu og í kynningartexta þeirra um bókina segir:

Unlike most flower-arrangement books, which rely on expensive and often nonseasonal flowers from florists, this book presents an alternative that is in line with the “back to nature” movement. This is the first volume to showcase how to be inspired by nature’s seasonal bounty and bring that nature into the home through floral arrangements.

Eins og ég sagði í síðustu viku þá voru blómaskreytingarnar í bókinni í höndum Nicoletta Owen, sem rekur Brooklyn's Little Flower School. Myndirnar í þessari færslu sýna nokkrar þeirra.


myndir:
Ngoc Minh Ngo, úr bókinni Bringing Nature Home: Floral Arrangements Inspired by Nature, gefin út af Rizzoli / 1-2 + 5-6: af blogginu Style Court / 3: af heimasíðu Rizzoli / 4: af blogginu An Indian Summer


fimmtudagur, 14. mars 2013

kaffihúsið the butcher's daughter í new york

Sjö ára sonur minn hefur mikinn áhuga á að ferðast til New York. Ég veit ekki hvers vegna, ég held að það hafi eitthvað með Madagascar teiknimyndirnar að gera. Ég er búin að segja við hann að einn daginn förum við bara tvö saman. Það er langt síðan ég var í NY og hvorki dæturnar né eiginmaðurinn eru spennt fyrir NY-ferð. Þegar við erum tvö saman í eldhúsinu að baka þá spyr ég hann oft hvað hann vilji gera og skoða þegar við förum (efst á óskalista hans er Frelsisstyttan en ég er búin að segja honum að við eyðum ekki allri ferðinni á Liberty Island). Yfirleitt segist hann bara vilja kíkja á kaffihús - ferðafélagi mér að skapi. Þegar ég sýndi honum þetta sem opnaði í nóvember, The Butcher's Daughter, sem er líka djúsbar og grænmetisstaður, leist honum vel á. Kannski að við eigum eftir að sitja þarna saman og spjalla um heima og geima, áður en við kíkjum á eitthvað safn.


myndir:
Taylor Jewell fyrir Vogue US


mánudagur, 11. mars 2013

Rýmið 25

Rose Uniacke · baðherbergi með gólfborðum



- baðherbergi í London með gólfborðum
- hönnuður og eigandi Rose Uniacke

mynd:
Henry Bourne fyrir T Magazine

fimmtudagur, 7. mars 2013

innlit: pastellitir og kvenlegur stíll í stofu í madrid

Ég viðurkenni að pastellitir eru ekki minn stíll (ég flippaði út á unglingsárum í notkun þeirra og tók út skammtinn fyrir lífstíð) en þessi stofa í Madrid á Spáni þykir mér falleg og kvenleg. Mér finnst húseiganda takast að nota pastelliti án þess að útkoman verði of væmin.

Sennilega er það sebramottan og dökkbleika áklæðið á bekknum sem brýtur þetta upp og líka það að hún notar bara ljósbláa litinn á púðana. Þið getið rétt ímyndað ykkur útkomuna ef púðarnir væru í gulu og bleiku líka.


myndir:
Nuevo Estilo

mánudagur, 4. mars 2013

Uppskrift: tómatsúpa með hvítlauk og timían



Nú fer vorið að koma og því síðasta tækifærið á þessum vetri að pósta uppskrift að súpu á matarbloggið. Annars eru nú súpur eitthvað sem má njóta allan ársins hring, eða það finnst mér alla vega. Þessi tómatsúpa með hvítlauk og timían er einföld og krefst lítils undirbúnings. Hljómar það ekki vel þegar tímaleysi hrjáir okkur?

mynd:
Lísa Hjalt