sunnudagur, 2. júlí 2017

№ 10 bókalisti: Modiano enduruppgötvaður

№ 10 bókalisti: Modiano, skáldsögur, latte · Lísa Stefan


Sunnudagur, latte, bókahlaðvörp og nýr bókalisti. Þegar úti er alskýjað er tilvalið að eyða deginum með þessum hætti. Það eru níu bækur á listanum, sem sumum finnst kannski mikið, en margar þeirra eru stuttar og ég hef þegar klárað nokkrar, til dæmis aðra bókina eftir Patrick Modiano, In the Café of Lost Youth. Þessi franski rithöfundur hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2014 og er orðinn einn af mínum uppáhalds. [Uppfærsla: Ég breytti titli þessarar færslu þegar ég áttaði mig á því stuttu síðar að ég hafði lesið Modiano áður, fyrir mörgum árum síðan. Það var þessi þýska útgáfa af Villa Triste. Ég man enn eftir að hafa keypt hana í lítilli bókabúð í einni af þröngu hellulögðu götunum í Zurich. Ég þarf að lesa hana aftur; er búin að gleyma söguþræðinum.] Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að einungis ein bók eftir Modiano er til á íslensku, Svo þú villist ekki í hverfinu hérna (þýð. Sigurður Pálsson). Mörg verka hans eru fáanleg á ensku og á bókasafninu hér í bænum er úrvalið sem betur fer gott.

№ 10 bókalisti:
1  The Ballad of the Sad Café  · Carson McCullers
2  Pedigree  · Patrick Modiano
3  In the Café of Lost Youth  · Patrick Modiano
4  Invisible Cities  · Italo Calvino
5  Stoner  · John Williams
6  Point Omega  · Don DeLillo
7  Jigsaw: An Unsentimental Education  · Sybille Bedford
8  The Captain's Daughter  · Alexander Pushkin
9  Dancing in the Dark: My Struggle 4  · Karl Ove Knausgård

Það var kominn tími til að halda áfram með My Struggle bækur Knausgård; ég var farin að sakna raddar hans. Eina bókin sem ég á í bunkanum er Jigsaw eftir Bedford, að hluta til sjálfsævisöguleg skáldsaga. Bókavinur á Instagram mælti með henni og eitthvað segir mér að ég eigi fljótlega eftir að næla mér í eintak æviminninga hennar, Quicksands.

Ég ætlaði að hafa nýjustu skáldsögu Arundhati Roy, The Ministry of Utmost Happiness, á listanum en ég er enn að bíða eftir eintakinu sem ég pantaði á bókasafninu. Hún verður á næsta lista. Í vikunni var hún gestur á bókahlaðvarpi The Guardian. Hún talaði ekki bara um bókina heldur líka um hlutverk sitt sem pólitískur aðgerðasinni í Indlandi, sem mér fannst áhugavert. Dómsmálin sem hafa verið höfðuð gegn henni eru mörg og fáránleg, en hún hefur mikla kímnigáfu og hikar ekki við að gera grín að andstæðingum sínum.

Ég hef þegar lesið allar bækurnar á japanska bókalistanum (№ 9), fyrir utan The Tale of Genji (doðranturinn undir kaffibollanum mínum). Ég sagði ykkur að ég myndi lesa hana rólega og, já, ég nýt lestursins. Ég skulda ykkur gagnrýni á tvær bækur og nokkra punkta úr lestrarkompunni (rétt áður en ég ætlaði að deila færslunni eyddi ég óvart uppkastinu að gagnrýni minni á Pachinko. Ég kunni textann nokkurn veginn utan að þannig að ég þarf bara að pikka hann aftur). Vonandi verður júlí góður lestrarmánuður.



miðvikudagur, 21. júní 2017

Sumar 2017: nýjar bækur

sumar 2017 nýjar bækur · Lísa Stefan


Lengsti dagur ársins er runninn upp og á vesturströnd Skotlands eru ský á lofti og létt rigning af og til. Hið fullkomna veður til að minnast á nýjar bækur, ekki satt, og að finna angan bóndarósanna á skrifborðinu mínu. Ég pantaði tvo titla á listanum á bókasafninu og vona að ég geti bætt þeim á næsta bókalista:

· The Ministry of Utmost Happiness eftir Arundhati Roy (Hamish Hamilton). Loksins, eftir tuttugu ár, ný skáldsaga frá Roy! Bók hennar The God of Small Things, sem hlaut Man Booker verðlaunin árið 1997, er ein af eftirminnilegustu bókum sem ég hef lesið.
· Theft by Finding: Diaries: Volume One eftir David Sedaris (Little, Brown). Nýverið var hann gestur á hlaðvarpi The NYT Book Review, þar sem hann talaði um og las upp úr dagbókinni, og ég var í hláturkasti í eldhúsinu. Hann er óborganlegur.
· House of Names eftir Colm Tóibín (Viking). Höfundur sem ég hef enn ekki lesið. Á langar-að-lesa listanum mínum er skáldsaga hans Brooklyn, sem mig langaði að lesa áður en ég sá kvikmyndina (2015), sem skartar Saoirse Ronan í aðalhlutverki. Gat ekki beðið og er svo glöð að ég lét undan. Myndin er svo falleg; ég get horft á hana aftur og aftur.
· The Unwomanly Face of War eftir Svetlana Alexievich (Penguin). Hún hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2015. Biðin hefur verið löng eftir enskri þýðingu á þessu klassíska verki með reynslusögum sovéskra kvenna í síðari heimsstyrjöldinni. Kemur út í júlí.
· Friend of My Youth eftir Amit Chaudhuri (Faber). Fjallar um mann, sem heitir einmitt Amit Chaudhuri, sem snýr aftur á æskuslóðirnar, til borgarinnar Bombay. Kemur út í ágúst.



laugardagur, 17. júní 2017

The Tale of Genji í þýðingu Seidensticker | 17. júní

The Tale of Genji í þýðingu Seidensticker · Lísa Stefan


„In a certain reign there was a lady not of the first rank whom the emperor loved more than any of the others.“ Svo hefst The Tale of Genji sem japanska hirðdaman Murasaki Shikibu ritaði í upphafi 11. aldar (Heian-tímabilið). Tvær þýðingar á verkinu var að finna á № 9 bókalistanum mínum, þeim með japönskum bókmenntum eingöngu - ég átti eftir að ákveða hvora ég kæmi til með að lesa. Ég var svo heppin að eignast ólesið, notað eintak af þýðingu Edward G. Seidensticker, sem Everyman's Library gaf út. Það er ekki einu sinni búið að draga út borðann eða áfasta bókamerkið.

Ég hef næstum því klárað að lesa öll verkin á bókalistanum þannig að ég deili líklega öðrum fljótlega. Mér líkar að lesa nokkrar bækur í einu og þar sem The Tale of Genji er 1184 blaðsíður finnst mér líklegt að ég lesi fyrstu 250 síðurnar og eftir það einn til tvo kafla daglega meðfram öðrum bókum þar til ég klára. Svo má vel vera að ég sökkvi mér alveg ofan í bókina.


Að lokum óska ég ykkur gleðilegrar þjóðhátíðar. Á vesturströnd Skotlands er sólríkur sumardagur og við hjónin fögnum 19 ára brúðkaupsafmæli.



fimmtudagur, 1. júní 2017

№ 9 bókalisti: japanskar bókmenntir I

Japanskur bókalisti (№ 9): Kawabata, Tanizaki, Mishima, Shikibu · Lísa Stefan


Hugmyndin að japönskum bókalista kviknaði fyrir mörgum mánuðum síðan og þegar ég byrjaði að skrifa höfunda og titla í vasabókina sá ég strax að listarnir yrðu fleiri en einn. Þrátt fyrir að orðið snjór komi fyrir í einum titlinum hér að neðan fannst mér tilvalið að fara inn í sumarið lesandi japanskar bókmenntir. Þessi fyrsti listi er eilítið styttri en hann átti að vera, einfaldlega vegna þess að ein bók sem ég pantaði hefur enn ekki borist og á síðustu stundu ákvað ég að hafa ekki á honum tvö verk eftir sama höfund. Það þýðir að skáldsaga eftir Yasunari Kawabata, sem hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1968, færist yfir á næsta. Þeir sem fylgjast með blogginu ættu að kannast við Tanizaki, en verk hans The Makioka Sisters var á einum lista. Það gladdi mig þegar einn blogglesandi sagðist hafa ákveðið að lesa bókina og notið lestursins rétt eins og ég.

№ 9 bókalisti:
1  First Snow on Fuji  eftir Yasunari Kawabata
2  The Temple of the Golden Pavilion  eftir Yukio Mishima
3  Some Prefer Nettles  eftir Jun'ichirō Tanizaki
4  The Tale of Genji  eftir Murasaki Shikibu *
5  The Tale of Genji  eftir Murasaki Shikibu **
6  My Neighbor Totoro: The Novel  eftir Tsugiko Kubo ***

Ensk þýðing eftir: * Edward G. Seidensticker; ** Dennis Washburn
*** Myndskreyting eftir Hayao Miyazaki

Eins og sjá má eru á listanum tvær óstyttar útgáfur af The Tale of Genji og ég hef enn ekki ákveðið hvora ég ætla að lesa. Sú sem Washburn þýddi er ný útgáfa í kiljubroti frá W. W Norton & Co, hin er innbundin frá Everyman's Library. Ég er að reyna að panta þessa í þýðingu Seidensticker í gegnum bókasafnið, sem er ástæða þess að ég hef frestað birtingu listans. Ef ég næ ekki að redda henni þá þarf ég bara að ákveða hvora ég kaupi. Kannski hafið þið tekið eftir því á Instagram að ég er byrjuð að lesa The Temple of the Golden Pavilion eftir Mishima. Hann setti í skáldsöguform söguna um munkinn sem árið 1950 kveikti í Gullna hofinu í Kyoto, sem var reist á 15. öld (Bandaríkjamenn vörpuðu ekki sprengjum á hofin í stríðinu). Þessi atburður var sjokkerandi. Fyrir dómi sagðist ungi munkurinn hafa verið að mótmæla markaðssetningu búddisma. Fræðimaðurinn Donald Keene skrifar aftur á móti í inngangi bókarinnar: „[H]e may have been directly inspired by nothing more significant than pique over having been given a worn garment when he had asked the Surperior of the temple for an overcoat“! (Hann á sem sagt að hafa beðið um nýja yfirhöfn og móðgast þegar hann fékk notaða!) Ég er meira en hálfnuð með bókina og Gullna hofið sem stendur enn er byrjað að trufla hugarró aðalsöguhetjunnar, sem ég myndi lýsa sem frekar fráhrindandi einstaklingi.


Hafið þið séð teiknimyndina My Neighbour Totoro (1988) eftir Hayao Miyazaki? Hún er ein af japönsku myndunum í uppáhaldi á okkar bæ. Í fyrra sat ég með syni mínum á bókakaffinu í Waterstones hér í bænum þegar hann spottaði bókina í hillu. Við höfðum ekki hugmynd um tilvist bókarinnar. Kom þá í ljós að skáldsaga var gerð eftir kvikmyndinni með myndskreytingum Miyazaki. Bókin er svo falleg og við nældum okkur að sjálfsögðu í eintak. Sonurinn hafði virkilega gaman af lestrinum og nú er röðin komin að mér.



laugardagur, 13. maí 2017

Lestrarkompan 2017: Lessing, Athill, Borges ...

Lestrarkompan mín: Lessing, Athill, Borges ... · Lísa Stefan


Nýverið rakst ég á frábært enskt orð sem er ekki að finna í orðabók: readlief (read og relief skeytt saman). Merking þess er þegar þú loksins kemst í það að byrja á bók sem þú hefur ætlað að lesa í mörg ár. Lestrarléttir væri kannski ágætt íslenskt orð, en bókalistarnir mínir hafa stuðlað að mörgum slíkum. Það er gefandi að strika bók af listanum og enn frekar ef hún reynist góð. Langar-að-lesa listinn minn styttist að vísu ekki neitt því ég er stöðugt að rekast á bækur sem rata á hann. Höfuðverkur bókaunnandans. Hér að neðan er að finna nokkrar pælingar um bækur sem voru á № 7 bókalistanum mínum, sem ég deildi í febrúar. Ég bjó til nýjan flokk fyrir þessar tilteknu færslur sem ég kalla Lestrarkompan (árið í titlinum gefur til kynna hvenær umræddur bókalisti birtist á blogginu).

Lestrarkompan, № 7 bókalisti, 6 af 9:

Fictions eftir Jorge Luis Borges
Þessu smásögusafni er ávallt lýst sem frumlegu. Það er bókmennta- og heimspekilegt og ekki fyrir alla. Ég hef ekki lesið neitt í líkingu við það. Fyrstu tvær sögurnar fönguðu mig ekki en um leið og ég byrjaði á þeirri þriðju þá var ekki aftur snúið. Sú saga kallast „Pierre Menard, Author of the Quixote“ (birtist í argentíska bókmenntaritinu Sur í maí 1939) og fjallar um mann sem endurskrifar Don Quixote eftir Cervantes, línu fyrir línu. Hugmyndin að sögunni er snilld.

The Grass is Singing eftir Doris Lessing
Þegar ég lauk lestrinum var mín fyrsta hugsun á ensku: powerful. Síðan þá hef ég heyrt marga nota sama orð yfir bókina sem var sú fyrsta eftir Lessing og kom út árið 1950. Hún byrjar á morði á aðalsögupersónunni Mary Turner og eftir því sem líður á lesturinn kynnumst við bakgrunni hennar og hvað leiddi til þessa harmleiks, í raun hvað sundraði lífi hennar á bóndabæ í Suður-Ródesíu (núna Simbabve). Lessing ólst þarna upp og lýsir afríska landslaginu meistaralega. Það eru mánuðir síðan ég lauk lestrinum og ég er enn að hugsa um bókina sem er góð sálfræðistúdía.

The Golden Notebook eftir Doris Lessing
Þessi telst til klassískra verka og er ekki fyrir alla. Ég átti erfitt með nokkra hluta, áveðnir partar fannst mér ýmist fullir af endurtekningum eða of langir, og það tók mig dágóðan tíma að klára bókina. En það er ekki hægt að þræta fyrir þá staðreynd að þetta er áhrifaríkt bókmenntaverk. Góðu hlutarnir eru eftirminnilegir og ég er glöð að ég tók loks af skarið og sneri þessari bók upp í lestrarlétti.

Captain Corelli's Mandolin eftir Louis De Bernières
Ég las einhvers staðar að þetta væri skáldsaga með hjarta og sú lýsing á vel við. Það eina sem truflaði mig örlítið á fyrstu 100 blaðsíðunum eða svo voru kynningar á persónunum (hver fær sér kafla), en hann komst ekki hjá þeim því í bókinni koma margir við sögu. Bernières bætir upp fyrir þetta með dásamlegum, og oft kómískum, smáatriðum, sérstaklega lýsingum á lífinu í þorpinu (bókin gerist á grískri eyju í síðari heimsstyrjöldinni).

Instead of a Book: Letters to a Friend eftir Diana Athill
Ég er hrifin af bréfum en undir lokin á þessu safni var ég við það að missa þolinmæðina. Athill og vinur hennar voru að eldast og síðustu bréfin innihéldu of mikið af tali um heilsufar, sem er ósköp eðlilegt á milli náinna vina en allt annað en skemmtilegt að lesa. Hún kemur einmitt að þessu í eftirmálanum og segir þetta vera ástæðu þess að hún hafði bréfin ekki fleiri. Bók hennar Stet er á langar-að-lesa listanum mínum og ég hef ekki lesið neitt nema lof um hana þannig að kannski ættuð þið að íhuga að lesa hana fyrst ef þið hafið áhuga á skrifum Athill.

Local Souls eftir Allan Gurganus
Ég ákvað að fresta lestrinum á þessari. Eins og fram kom í bloggfærslunni ætlaði ég alltaf að lesa bók hans Oldest Living Confederate Widow Tells All  á undan þessari. Það var akkúrat það sem ég ákvað svo að gera.

In Montmartre: Picasso, Matisse and Modernism in Paris, 1900-1910 eftir Sue Roe
Ég er ekki listfræðingur en ég held að höfundurinn hafi unnið heimavinnuna sína vel. Mér fannst bókin áhugaverð en hefði viljað sjá meira af ljósmyndum af málverkum (ég var stöðugt að fletta upp á netinu verkum sem komu fyrir í textanum til að vera viss um að ég væri með rétt í huga eða til að sjá þau sem ég kannaðist ekki við). Mér fannst gaman að lesa um Picasso, Matisse og aðra listamenn en stundum voru stuttar sögur úr lífi fólks sem tengdist þeim sem, að mínu mati, höfðu lítið vægi. Að því leyti hefði bókin mátt við frekari endurskrifum.

Hafið þið fundið fyrir lestrarlétti (readlief ) nýlega?

Þessa dagana er ég að klára að lesa bækurnar á № 8 bókalistanum og kem til með að skrifa tvo ritdóma, um stríðsdagbækur Astrid Lindgren, A World Gone Mad, og um skáldsöguna Pachinko eftir Min Jin Lee.