mánudagur, 19. maí 2014

Breytingar



Ég lofaði fréttum á föstudaginn. Fyrir ykkur sem hafið fylgst með blogginu síðan við bjuggum í Antwerpen (var bara með ensku útgáfuna þar) þá eru svona fréttir ekki beint óvæntar: við erum að flytja aftur! Í þetta sinn eru þetta ekki flutningar á milli landa (værum á leið til Ástralíu ef yngri dóttirin mætti ráða) heldur erum við að færa okkur til South Yorkshire (ætli það kallist ekki hinu skelfilega nafni Suður-Jórvíkurskíri á íslensku. Börnin fengu kast þegar ég sagði þeim frá íslenskum þýðingum á hinum og þessum „shires“ í Englandi). Ástæðan fyrir flutningunum er löng eiginmaðurinn-óvænt-að-skipta-um-vinnu saga. Við ætluðum að flytja síðar á árinu eða því næsta en svo fundum við rétta húsið núna um páskana.

Eftir það gerðust hlutirnar frekar hratt því krakkarnir vildu byrja í nýjum skólum fyrir sumarfrí til þess að vera búnir að kynnast skólastarfinu áður en skólinn byrjar aftur í haust. Ég tala yfirleitt ekki um börnin mín á blogginu en verð að segja að aðlögunarhæfni þeirra er hreint með ólíkindum. Svona breytingar virðast varla hagga þeim. Ég sjálf er óhrædd við breytingar og hef ekki tamið mér það að halda í hluti en stundum velti ég því fyrir mér hvort ég hafi alið börnin þannig upp að þau eigi hreinlega of auðvelt með að sleppa taki á hlutum!


Á laugardaginn sá ég húsið í fyrsta sinn og um leið og ég gekk inn í það þá var ég komin heim. Það er nýtt og nútímalega innréttað en samt hlýlegt. Veggir, gólfefni og innréttingar eru í hlutlausum tónum þannig að það verður auðvelt að koma okkar dóti fyrir og skapa fallegt heimili. Ég er skotin í eldhúsinu og get ekki beðið að elda fyrstu máltíðina og skella böku eða köku í ofninn. Garðurinn sem við erum með núna er mjög fallegur og fullur af blómum en á nýja staðnum er bara gras og engin blómabeð. En við lóðarmörkin standa tignarleg síprustré og svo kaupum við bara rósir, lavender og fleiri plöntur í pottum og gerum huggulegt hjá okkur.

Á morgun mætir hér hópur af starfsmönnum flutningsfélags sem sér um að pakka öllu dótinu okkar í kassa og á miðvikudaginn flytjum við í nýja húsið. Við erum orðin ansi spennt og ég get ekki beðið eftir að taka upp úr kössunum og koma dótinu fyrir.

Takk fyrir innlitið og njótið dagsins!


myndir:
1: Sean Fennessy fyrir The Design Files / 2: El Mueble / 3: Jodi af Practising Simplicity af síðu Jacquelyn/lark & linen á Pinterest

föstudagur, 16. maí 2014

Góða helgi



Það er búið að vera mikið að gera hjá mér þessa viku og þess vegna hef ég aðallega birt svo til textalausar færslur hér á íslenska blogginu. Stundum er nóg að láta myndirnar tala en mér fannst aðeins of snubbótt að segja ekkert í dag. Ég óska ykkur góðrar helgar og verð hér aftur á mánudaginn með smá fréttir.

mynd:
Lisa Thiele / With Style & Grace · stílisering: Floral Theory af síðunni Taylor'd Events

fimmtudagur, 15. maí 2014

Rýmið 64



- eldhús í 160 ára gömlum sveitakofa í Barossa dalnum þar sem er að finna elstu vínhéruð Ástralíu
- arinninn er upprunalegur og steypugólfið líka

mynd:
Sharyn Cairns fyrir Country Style

föstudagur, 9. maí 2014

Línvörur í Merci í París


Í stað þess að óska ykkur góðrar helgar með föstudagsblómum birti ég færslu í náttúruleg efni seríunni. Síðasta föstudag vorum við að dást að kirsuberjatrjám í París og því er eðal að halda þangað aftur. Ég vildi stundum að ég byggi í París bara svo ég gæti verslað borðbúnað hvenær sem mér hentaði í Merci, yndislegu concept-búðinni á Boulevard Beaumarchais í 3. hverfi, (muniði eftir þessari færslu?). Þau eru með netverslun en það er allt önnur stemning að rölta um búðina og snerta efnin. Ég er svo hrifin af línvörunum þeirra og hef sett margar á óskalistann. Ef þið eruð að leita að náttúrlegum efnum fyrir heimilið þá er Merci rétta verslunin.

Tauservíettur, 100% lín, blá (French blue) + fölbleik (blush pink)

Ég á nokkrar tauservíettur frá Merci í hlutlausum tónum. Þær eru framleiddar úr þvegnu líni og eru náttúrulega krumpaðar í útliti. Fyrir sumarið langar mig í liti eins og bláan (French blue), mjög ljósbláan tón (blue lagoon), fölbleikan (blush pink), og jafnvel skærbleikan (bright pink), sem lítur út fyrir að vera kóralrauður.


Síðasta sumar eyðilagðist því miður uppáhaldsborðdúkurinn minn, bómull-lín blanda í blá-gráum lit, þegar vax frá flugnafælukerti helltist niður á hann. Ég keypti hann þegar við bjuggum í Antwerpen og hef ekki fundið þennan sama lit hér í Englandi. Ég man þegar ég skoðaði dúkana í Merci hvað ég varð hrifin af gráa litnum (graphite grey) og beinhvíta (off-white). Ég er líka svolítið skotin í fjólubláa (violet) dúknum.

Svuntur með rönd, 100% lín, kóralrauð (light coral) + dökkblá (dark navy blue)

Önnur vara frá Merci sem mig langar í er svunta með rönd í svo til hvaða lit sem er. Þær eru einnig úr þvegnu líni sem er náttúrlega krumpað. Svunturnar eru fáanlegar í einni stærð og maður getur notað hálsbandið eða brotið þær saman og bundið um mittið.


myndir:
Merci

miðvikudagur, 7. maí 2014

Rýmið 63



Falleg stofa á Spáni þar sem hlutlausir litir á veggjum og húsgögnum eru brotnir upp með hlýjum gulum og rauðum tónum. Eins og sést er lofthæðin mikil og náttúrleg birta streymir auðveldlega inn í húsið.

mynd:
El Mueble