sunnudagur, 9. júlí 2017

Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee

Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee · Lísa Stefan


Fyrr á árinu kom út skáldsagan Pachinko eftir Min Jin Lee, bandaríska skáldkonu af kóreskum uppruna, frá bókaútgáfunni Head of Zeus (Apollo). Mér barst eintak til að ritdæma og birti bókina á № 8 bókalistanum mínum. Verkið er reynslusaga kóreskrar fjölskyldu, um baráttu hennar og seiglu sem innflytjendur í Japan, og spannar átta áratugi 20. aldar. Tilfinningar mínar til bókarinnar eru eilítið blendnar, aðallega vegna þess að höfundur fer hratt yfir sögu - 490 síður bókarinnar eru fljótlesnar - og stundum vantaði að þróa persónur betur. Engu að síður er boðskapur bókarinnar mikilvægur og hún hefur sögulegt mikilvægi því höfundurinn varpar ljósi á félagslegt vandamál sem ég var ómeðvituð um: þá meðferð og kúgun sem kóreskir innflytjendur hafa búið við í japönsku samfélagi áratugum saman.

Titill bókarinnar, orðið pachinko, krefst útskýringar. Það birtist fyrst þegar bókin er hálfnuð. Pachinko er spilakassi með stálkúlum og pachinko-salirnir mynda risastóran iðnað í Japan, með hærri tekjur en útflutningstekjur bílaiðnaðarins. Pachinko-salirnir voru einn fárra staða sem vildu ráða fólk frá Kóreu í vinnu. Auk þess voru kofahreisi í kóreskum gettóum eina húsnæðislausnin því enginn vildi leigja þeim húsnæði.

Í Pachinko er rakin saga fjögurra kynslóða, sem byrjar árið 1911 í sjávarþorpi á suðausturhluta Kóreuskagans, ári eftir að Japanir innlimuðu landið. Spólum aðeins fram: Hin fimmtán ára gamla Sunja verður barnshafandi eftir ástarsamband við kvæntan mann. Fjölskyldu hennar er forðað frá útskúfun þegar Ísak, kristinn prestur frá norðurhluta landsins, býðst til að kvænast henni og taka hana með sér til Osaka, í Japan, þangað sem þau koma í apríl 1933.
Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee · Lísa Stefan


Við upphaf ferðalagsins, í kringum blaðsíðu 80, fer sagan á flug og verður nokkuð spennandi. Ritstíllinn er einfaldur og vegna samræðna er takturinn hraður, sem einnig er megin galli bókarinnar. Í stað þess að þróa persónurnar, gefa þeim meiri dýpt, og að leyfa lesandanum að staldra aðeins við með þeim til að öðlast betri innsýn þá virðist sem höfundurinn sé stöðugt að keyra söguna áfram, kannski til að halda í við sögulegt samhengi. Saga Min Jin Lee er sannarlega áhugaverð en frásögnina skortir fyllingu.

Hún skiptir bókinni í þrjá hluta: Fyrstu tveir eru aðallega um reynslu innflytjandans, um baráttu Sunja og fjölskyldu hennar í kóresku gettói, og á bóndabæ á meðan heimstyrjöldin geisar. Þriðji hlutinn hefst í apríl 1962 og fjallar aðallega um afkomendurna. Á þeim punkti er fjölskyldan fjárhagslega stöndugri og síðar uppskera yngri meðlimirnir vel vegna pachinko-iðnaðarins. Þarna fer höfundurinn út af sporinu; sá þriðji er veikasti hlekkur bókarinnar. Min Jin Lee kynnir nýjar persónur til sögunnar - fáar sem höfðuðu til mín - og skilur eftir tómarúm þegar hún allt að því yfirgefur eldri kynslóðina. Það virðist sem Sunja og eldri fjölskyldumeðlimirnir falli í bakgrunninn, eins og þau séu ekki lengur mikilvæg, þegar það einmitt blasir við að svo mikið er ósagt um sögu þeirra, einkum tilfinningar.

Sunja er persóna sem ég hændist að og vonaðist til að kynnast betur í þriðja hlutanum. Eftir um það bil hundrað síður mátti loksins gægjast inn í hugarheim hennar: „All her life, Sunja had heard this sentiment from other women, that they must suffer—suffer as a girl, suffer as a wife, suffer as a mother—die suffering. Go-saeng—the word made her sick. What else was there besides this? She had suffered to create a better life for Noa, and yet it was not enough“ (bls. 420). Þetta var skammvinnt, því miður. Höfundurinn leiddi okkur beint inn í samræður og hélt áfram með söguna.

Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee · Lísa Stefan


Þó að Pachinko teljist seint til meistaraverka á bókmenntasviðinu ber að virða framlag höfundarins. Partur af mér vill standa með bókinni vegna þema hennar og mikilvægis fyrir okkar tíma: innflytjendur og sjálfsmynd, og hvernig við komum fram við innflytjendur og flóttafólk. Þarna tekst Min Jin Lee vel til. Þarna er að finna ádeilu á Japan en hún hvorki matar lesendur af skoðunum né fellur í þá gryfju að láta þá sjá hlutina í svörtu og hvítu. Ég treysti fullkomlega rannsóknarvinnu hennar fyrir ritun bókarinnar, reynslu fólks frá Kóreu í japönsku samfélagi, og hún lætur það í hendur lesandans að fella dóm.

Lesendur sem eru einungis í leit að sögu munu njóta lesturs bókarinnar, njóta þess hversu fljótlesin hún er. En lesendur sem snúa sér að bókmenntum fyrir ritstílinn, fyrir setningar sem þá langar að lesa aftur, og jafnvel skrifa niður, sitja uppi eilítið tómhentir.

Pachinko
Höf. Min Jin Lee
Innbundin, 490 blaðsíður
Head of Zeus / Apollo



Pachinko birtist á № 8 bókalistanum mínum



sunnudagur, 2. júlí 2017

№ 10 bókalisti: Modiano enduruppgötvaður

№ 10 bókalisti: Modiano, skáldsögur, latte · Lísa Stefan


Sunnudagur, latte, bókahlaðvörp og nýr bókalisti. Þegar úti er alskýjað er tilvalið að eyða deginum með þessum hætti. Það eru níu bækur á listanum, sem sumum finnst kannski mikið, en margar þeirra eru stuttar og ég hef þegar klárað nokkrar, til dæmis aðra bókina eftir Patrick Modiano, In the Café of Lost Youth. Þessi franski rithöfundur hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2014 og er orðinn einn af mínum uppáhalds. [Uppfærsla: Ég breytti titli þessarar færslu þegar ég áttaði mig á því stuttu síðar að ég hafði lesið Modiano áður, fyrir mörgum árum síðan. Það var þessi þýska útgáfa af Villa Triste. Ég man enn eftir að hafa keypt hana í lítilli bókabúð í einni af þröngu hellulögðu götunum í Zurich. Ég þarf að lesa hana aftur; er búin að gleyma söguþræðinum.] Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að einungis ein bók eftir Modiano er til á íslensku, Svo þú villist ekki í hverfinu hérna (þýð. Sigurður Pálsson). Mörg verka hans eru fáanleg á ensku og á bókasafninu hér í bænum er úrvalið sem betur fer gott.

№ 10 bókalisti:
1  The Ballad of the Sad Café  · Carson McCullers
2  Pedigree  · Patrick Modiano
3  In the Café of Lost Youth  · Patrick Modiano
4  Invisible Cities  · Italo Calvino
5  Stoner  · John Williams
6  Point Omega  · Don DeLillo
7  Jigsaw: An Unsentimental Education  · Sybille Bedford
8  The Captain's Daughter  · Alexander Pushkin
9  Dancing in the Dark: My Struggle 4  · Karl Ove Knausgård

Það var kominn tími til að halda áfram með My Struggle bækur Knausgård; ég var farin að sakna raddar hans. Eina bókin sem ég á í bunkanum er Jigsaw eftir Bedford, að hluta til sjálfsævisöguleg skáldsaga. Bókavinur á Instagram mælti með henni og eitthvað segir mér að ég eigi fljótlega eftir að næla mér í eintak æviminninga hennar, Quicksands.

Ég ætlaði að hafa nýjustu skáldsögu Arundhati Roy, The Ministry of Utmost Happiness, á listanum en ég er enn að bíða eftir eintakinu sem ég pantaði á bókasafninu. Hún verður á næsta lista. Í vikunni var hún gestur á bókahlaðvarpi The Guardian. Hún talaði ekki bara um bókina heldur líka um hlutverk sitt sem pólitískur aðgerðasinni í Indlandi, sem mér fannst áhugavert. Dómsmálin sem hafa verið höfðuð gegn henni eru mörg og fáránleg, en hún hefur mikla kímnigáfu og hikar ekki við að gera grín að andstæðingum sínum.

Ég hef þegar lesið allar bækurnar á japanska bókalistanum (№ 9), fyrir utan The Tale of Genji (doðranturinn undir kaffibollanum mínum). Ég sagði ykkur að ég myndi lesa hana rólega og, já, ég nýt lestursins. Ég skulda ykkur gagnrýni á tvær bækur og nokkra punkta úr lestrarkompunni (rétt áður en ég ætlaði að deila færslunni eyddi ég óvart uppkastinu að gagnrýni minni á Pachinko. Ég kunni textann nokkurn veginn utan að þannig að ég þarf bara að pikka hann aftur). Vonandi verður júlí góður lestrarmánuður.



miðvikudagur, 21. júní 2017

Sumar 2017: nýjar bækur

sumar 2017 nýjar bækur · Lísa Stefan


Lengsti dagur ársins er runninn upp og á vesturströnd Skotlands eru ský á lofti og létt rigning af og til. Hið fullkomna veður til að minnast á nýjar bækur, ekki satt, og að finna angan bóndarósanna á skrifborðinu mínu. Ég pantaði tvo titla á listanum á bókasafninu og vona að ég geti bætt þeim á næsta bókalista:

· The Ministry of Utmost Happiness eftir Arundhati Roy (Hamish Hamilton). Loksins, eftir tuttugu ár, ný skáldsaga frá Roy! Bók hennar The God of Small Things, sem hlaut Man Booker verðlaunin árið 1997, er ein af eftirminnilegustu bókum sem ég hef lesið.
· Theft by Finding: Diaries: Volume One eftir David Sedaris (Little, Brown). Nýverið var hann gestur á hlaðvarpi The NYT Book Review, þar sem hann talaði um og las upp úr dagbókinni, og ég var í hláturkasti í eldhúsinu. Hann er óborganlegur.
· House of Names eftir Colm Tóibín (Viking). Höfundur sem ég hef enn ekki lesið. Á langar-að-lesa listanum mínum er skáldsaga hans Brooklyn, sem mig langaði að lesa áður en ég sá kvikmyndina (2015), sem skartar Saoirse Ronan í aðalhlutverki. Gat ekki beðið og er svo glöð að ég lét undan. Myndin er svo falleg; ég get horft á hana aftur og aftur.
· The Unwomanly Face of War eftir Svetlana Alexievich (Penguin). Hún hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2015. Biðin hefur verið löng eftir enskri þýðingu á þessu klassíska verki með reynslusögum sovéskra kvenna í síðari heimsstyrjöldinni. Kemur út í júlí.
· Friend of My Youth eftir Amit Chaudhuri (Faber). Fjallar um mann, sem heitir einmitt Amit Chaudhuri, sem snýr aftur á æskuslóðirnar, til borgarinnar Bombay. Kemur út í ágúst.



laugardagur, 17. júní 2017

The Tale of Genji í þýðingu Seidensticker | 17. júní

The Tale of Genji í þýðingu Seidensticker · Lísa Stefan


„In a certain reign there was a lady not of the first rank whom the emperor loved more than any of the others.“ Svo hefst The Tale of Genji sem japanska hirðdaman Murasaki Shikibu ritaði í upphafi 11. aldar (Heian-tímabilið). Tvær þýðingar á verkinu var að finna á № 9 bókalistanum mínum, þeim með japönskum bókmenntum eingöngu - ég átti eftir að ákveða hvora ég kæmi til með að lesa. Ég var svo heppin að eignast ólesið, notað eintak af þýðingu Edward G. Seidensticker, sem Everyman's Library gaf út. Það er ekki einu sinni búið að draga út borðann eða áfasta bókamerkið.

Ég hef næstum því klárað að lesa öll verkin á bókalistanum þannig að ég deili líklega öðrum fljótlega. Mér líkar að lesa nokkrar bækur í einu og þar sem The Tale of Genji er 1184 blaðsíður finnst mér líklegt að ég lesi fyrstu 250 síðurnar og eftir það einn til tvo kafla daglega meðfram öðrum bókum þar til ég klára. Svo má vel vera að ég sökkvi mér alveg ofan í bókina.


Að lokum óska ég ykkur gleðilegrar þjóðhátíðar. Á vesturströnd Skotlands er sólríkur sumardagur og við hjónin fögnum 19 ára brúðkaupsafmæli.



fimmtudagur, 1. júní 2017

№ 9 bókalisti: japanskar bókmenntir I

Japanskur bókalisti (№ 9): Kawabata, Tanizaki, Mishima, Shikibu · Lísa Stefan


Hugmyndin að japönskum bókalista kviknaði fyrir mörgum mánuðum síðan og þegar ég byrjaði að skrifa höfunda og titla í vasabókina sá ég strax að listarnir yrðu fleiri en einn. Þrátt fyrir að orðið snjór komi fyrir í einum titlinum hér að neðan fannst mér tilvalið að fara inn í sumarið lesandi japanskar bókmenntir. Þessi fyrsti listi er eilítið styttri en hann átti að vera, einfaldlega vegna þess að ein bók sem ég pantaði hefur enn ekki borist og á síðustu stundu ákvað ég að hafa ekki á honum tvö verk eftir sama höfund. Það þýðir að skáldsaga eftir Yasunari Kawabata, sem hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1968, færist yfir á næsta. Þeir sem fylgjast með blogginu ættu að kannast við Tanizaki, en verk hans The Makioka Sisters var á einum lista. Það gladdi mig þegar einn blogglesandi sagðist hafa ákveðið að lesa bókina og notið lestursins rétt eins og ég.

№ 9 bókalisti:
1  First Snow on Fuji  eftir Yasunari Kawabata
2  The Temple of the Golden Pavilion  eftir Yukio Mishima
3  Some Prefer Nettles  eftir Jun'ichirō Tanizaki
4  The Tale of Genji  eftir Murasaki Shikibu *
5  The Tale of Genji  eftir Murasaki Shikibu **
6  My Neighbor Totoro: The Novel  eftir Tsugiko Kubo ***

Ensk þýðing eftir: * Edward G. Seidensticker; ** Dennis Washburn
*** Myndskreyting eftir Hayao Miyazaki

Eins og sjá má eru á listanum tvær óstyttar útgáfur af The Tale of Genji og ég hef enn ekki ákveðið hvora ég ætla að lesa. Sú sem Washburn þýddi er ný útgáfa í kiljubroti frá W. W Norton & Co, hin er innbundin frá Everyman's Library. Ég er að reyna að panta þessa í þýðingu Seidensticker í gegnum bókasafnið, sem er ástæða þess að ég hef frestað birtingu listans. Ef ég næ ekki að redda henni þá þarf ég bara að ákveða hvora ég kaupi. Kannski hafið þið tekið eftir því á Instagram að ég er byrjuð að lesa The Temple of the Golden Pavilion eftir Mishima. Hann setti í skáldsöguform söguna um munkinn sem árið 1950 kveikti í Gullna hofinu í Kyoto, sem var reist á 15. öld (Bandaríkjamenn vörpuðu ekki sprengjum á hofin í stríðinu). Þessi atburður var sjokkerandi. Fyrir dómi sagðist ungi munkurinn hafa verið að mótmæla markaðssetningu búddisma. Fræðimaðurinn Donald Keene skrifar aftur á móti í inngangi bókarinnar: „[H]e may have been directly inspired by nothing more significant than pique over having been given a worn garment when he had asked the Surperior of the temple for an overcoat“! (Hann á sem sagt að hafa beðið um nýja yfirhöfn og móðgast þegar hann fékk notaða!) Ég er meira en hálfnuð með bókina og Gullna hofið sem stendur enn er byrjað að trufla hugarró aðalsöguhetjunnar, sem ég myndi lýsa sem frekar fráhrindandi einstaklingi.


Hafið þið séð teiknimyndina My Neighbour Totoro (1988) eftir Hayao Miyazaki? Hún er ein af japönsku myndunum í uppáhaldi á okkar bæ. Í fyrra sat ég með syni mínum á bókakaffinu í Waterstones hér í bænum þegar hann spottaði bókina í hillu. Við höfðum ekki hugmynd um tilvist bókarinnar. Kom þá í ljós að skáldsaga var gerð eftir kvikmyndinni með myndskreytingum Miyazaki. Bókin er svo falleg og við nældum okkur að sjálfsögðu í eintak. Sonurinn hafði virkilega gaman af lestrinum og nú er röðin komin að mér.