mánudagur, 23. mars 2015

Kort og kjúklingaleggir

Kort og latte · Lísa Hjalt


Ég hélt að á þessum tímapunkti gæti ég sýnt ykkur vorið í allri sinni dýrð en sú myndataka verður aðeins að bíða því þetta vor virðist vera með smá hiksta. Það vantar ekki páskaliljur og krókusa í blóma en ég er að bíða eftir að ákveðið magnólíutré í bænum taki að blómstra. Þegar sá dagur kemur að ég labba fyrir hornið og sé tréð í fullum blóma þá verður vorið komið hjá mér. Og hvað hefur þetta að gera með kort og kjúklingaleggi? Nákvæmlega ekkert.
Kort úr bókunum The Food of France, myndskreyting eftir Russell Bryant,
og The Food of India, eftir Rosanna Vecchio

Nýverið var sonurinn að vinna að verkefni í skólanum sem snerist um mat, sem leiddi til enn meiri matarumræðu en gengur og gerist á heimilinu. Þar sem pizza er uppáhaldsmaturinn hans rataði Ítalía í verkefnið og þá kom nú kortið mitt að góðum notum. Síðan þá hefur kortið legið hérna á borðinu mínu og stuðlað að þó nokkru korta-oflæti (mér finnst myndskreytt kort líka svo flott) og ferðahugmyndum: Einn vill fara til Japans, annar til Fiji eða Hawaii og svo fékk ég líka spurninguna, Mamma, hvernig er í Norður-Kóreu?, sem varð til þess að ég fór að hugsa um hvort þar væri hægt að fá latte. Ég get nú ekki sagt að latte-drykkja í Norður-Kóreu hafi ratað á listann minn góða en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér?



Ég veit ekki hvar ég væri án Google-kortanna en ég verð að segja að það jafnast nú ekkert á við að dreifa úr stóru landakorti á borð og gera ferðaplön eða bara að láta sig dreyma.

Þar sem páskarnir eru á næsta leiti er ég aðeins farin að huga að því hvað ég eigi að bralla í eldhúsinu. Allar páskaminningar úr barnæsku snúast um páskaegg, veisluborð og fermingar. Ég veit ekki með ykkur en hjá okkur eru engar páskaveislur og við höfum þetta eins einfalt og hugsast getur. Hérna megin við Atlantshafið er líka veðrið yfirleitt orðið það gott að ég nenni ekki að vera inni að stússast í eldhúsinu þegar ég get verið úti í sólinni. Ég fór því að hugsa um kjúklingaleggi.
Kjúklingaleggir, maríneraðir · Lísa Hjalt


Mér líkar einfaldleikinn sem fylgir því að elda og bera fram maríneraða kjúklingaleggi. Maríneraður kjúklingur finnst mér mjög góður en ég vil ekki að maríneringin steli of miklu bragði frá kjúklingakjötinu. Kannski má segja að sú heimspeki eigi við alla mína matargerð því ég er lítið hrifin af því þegar eitthvað eitt tiltekið bragð verður einkennandi. Ég mæli með því að marínera leggina yfir nótt. Þegar ég ber þá fram með grjónum þá rista ég yfirleitt sesamfræ á pönnu og strái yfir grjónin áður en ég ber þau fram.

MARÍNERAÐIR KJÚKLINGALEGGIR

9-10 kjúklingaleggir (helst velferðar-/free-range)
1 matskeið jurtaolía
1 matskeið tamarisósa
1 matskeið appelsínusafi, nýkreistur
1 rautt chilli aldin
lítill bútur ferskt engifer
má sleppa: nokkrir dropar Tabasco-sósa

Fræhreinsið og fínsaxið chilli aldinið. Afhýðið og fínsaxið engiferið.

Setjið kjúklingaleggina ásamt öðru hráefni í góðan frystipoka. Lokið pokanum vel og veltið leggjunum í pokanum til að dreifa vel úr maríneringunni. Setjið pokann í skál og látið leggina marínerast í alla vega 2-4 klukkustundir í kæliskáp, helst yfir nótt og snúið þá pokanum nokkrum sinnum.

Þegar kjúklingaleggirnir hafa marínerast skuluð þið dreifa þeim í ofnskúffu með grind. Eldið við 200°C (180° ef blástursofn) í 35 mínútur (þar til safinn er orðinn glær).

Berið fram með, til dæmis, hvítum eða brúnum basmati hrísgrjónum og tamarisósu, og jafnvel með sneiðum af avókadó og rauðri papriku.

Recipe in English
Kjúklingaleggir · Lísa Hjalt


mánudagur, 23. febrúar 2015

84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff

Kápa bókarinnar 84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff · Lísa Stefan


Muniði hvenær þið síðast urðuð ástfangin af bók á blaðsíðu 10? Það henti mig í síðustu viku þegar ég las 84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff. Ég er lítið fyrir að segja fólki að það þurfi að lesa eitthvað en fyrir alla bókaunnendur þá er þessi eiginlega skyldulesning. Upphafið að þessu öllu er bréf sem fröken Hanff skrifar frá New York árið 1949 til bókabúðarinnar Marks & Co., á 84 Charing Cross Road í London, til að spyrjast fyrir um notaðar bækur á hagstæðu verði. Það leiddi til bréfaskrifta í 20 ár, aðallega við einn starfsmanninn, Frank Doel. Í þriðja bréfinu sínu hafði Hanff sleppt formlegheitunum og leyft kímni og einstökum húmor að njóta sín, en það gerðist ekki alveg strax hjá Bretanum Frank Doel. Hér er brot úr sjötta bréfi hennar frá mars 1950 (stafsetningin er hennar):
Where is the Leigh Hunt? Where is the Oxford Verse? Where is the Vulgate and dear goofy John Henry, I thought they'd be such nice uplifting reading for Lent and NOTHING do you send me. you leave me sitting here writing long margin notes in library books that don't belong to me, some day they'll find out i did it and take my library card away. (bls. 10)
Mér finnst kvörtunartónninn alveg dásamlegur og hvernig hún virðist garga á Doel. Ég hef ekki hugrekki Hanff til að skrifa út á spássíur bókasafnsbóka en í mínar eigin bækur merki ég heldur betur setningar og efnisgreinar með krossum eða lóðréttum strikum.


Bókin 84 Charing Cross Road er einungis 95 blaðsíður og því fljótlesin. Flest bréfin eru hreint út sagt dásamleg og svo eru nokkur, sérstaklega eitt, sem kremja hjartað. Ég segi ekki meira. Hanff sendi ekki bara bréf heldur lét hún einnig senda matarpakka (kjöt og egg) til starfsfólksins til að láta í ljós þakklæti sitt fyrir bækurnar sem hún fékk. Bréfaskiptin byrjuðu í Bretlandi eftirstríðsáranna og hún var hneyskluð yfir skömmtuninni sem henni þótti rýr. Í upphafi fékk hún alltaf bréf frá Marks & Co. þar sem hún var spurð hvort hún hefði enn áhuga á tilteknum bókum áður en þær voru sendar. Þetta gerði hún að umræðuefni í bréfi í september 1950, sem hún skrifaði frá íbúð sinni á 14 East 95th Street:
Never wonder if I've found something somewhere else, I don't look anywhere else any more. Why should I run all the way down to 17th St. to buy dirty, badly made books when I can buy clean, beautiful ones from you without leaving the typewriter? From where I sit, London's a lot closer than 17th Street. (bls. 15)
Bókin minnir mig á aðra dásamlega, The Guernsey Literary and Potato Peel Society (Bókmennta- og kartöflubökufélagið á íslensku) eftir Mary Ann Shaffer, sem ég minntist á í annarri bloggfærslu. Eftir lesturinn á þessum tveimur þá hélt ég eintökunum þétt upp að hjartanu í nokkrar sekúndur. Svo heitt elskaði ég þær! Ég elska bækur um bækur.


Mín útgáfa af 84 Charing Cross Road inniheldur framhaldið, The Duchess of Bloomsbury Street, sem fjallar um ferð Hanff til London (kápuna myndskreytti Sarah McMenemy). Ég myndi ekki hugsa um að lesa þá fyrri án þess að vera með þá síðari innan seilingar. Eftir lesturinn vildi ég lesa meira eftir Hanff og pantaði bókina Letter from New York. Ég fékk notað eintak sem ætti að berast fljólega. Ég fann líka hljóðbókarútgáfu af 84 Charing Cross Road á YouTube, sem ég hef hlustað á tvisvar á meðan ég sinni húsverkum. Svo er til kvikmynd frá árinu 1987, sem skartar Anne Bancroft og Anthony Hopkins í aðalhlutverkum, en hana á ég eftir að sjá.

Ef það rignir (eða snjóar) úti þá er þetta hin fullkomna bók til að lesa undir teppi með kaffi- eða tebolla í hönd og gleyma sér í dásemdinni. Ég mæli með að hafa bréfsefni við höndina því eftir lesturinn er ekki ólíklegt að ykkur langi að skrifa bréf, ekki tölvupóst.


þriðjudagur, 17. febrúar 2015

Skýjaður dagur í Suður-Jórvíkurskíri | Brauðbollur



Í dag er pönnukökudagurinn í Bretlandi og fleiri löndum. Sólin skín, fuglarnir syngja og við erum búin að borða pönnsur með sultu og rjóma. Í gær var aftur á móti skýjað. Ég skellti í brauðbollur og lét deigið hefast á meðan ég og sonurinn fórum í göngutúr. Það var ákaflega notalegt að koma svo inn í hlýjuna og taka eilítið síðar nýbakaðar brauðbollur með sesamfræjum úr ofninum. Það er ekkert lag sem heitir Cloudy Day in South Yorkshire (mér finnst þýðingin Suður-Jórvíkurskíri alltaf jafn fyndin) en í gær hljómaði lagið Rainy Night in Georgia stanslaust í kollinum á mér og ég fór eitthvað að rýna í textann:

I feel like it's rainin' all over the world,
How many times I wondered, It still comes out the same
No matter how you look at it or think of it,
It's life and you just got to play the game…

~ • ~
Þetta er lífið og þú þarft bara að leika leikinn ... góð þessi síðasta lína.


Íslenski bolludagurinn fór ekki fram hjá okkur í gær. Ég man enn þá eftir sunnudögunum í eldhúsinu þegar mamma var að baka vatnsdeigsbollur. Ég man meira að segja eftir skálinni sem hún notaði undir glassúrið, og ég man svo sannarlega eftir augnablikinu þegar ég opnaði nestisboxið með bollunum í skólanum.

Brauðbollur með sesamfræjum · Lísa Hjalt
Ég get ekki sagt að ég hafi haldið í bolludagshefðina. Ég held svei mér þá að ég hafi síðast bakað rjómabollur í Danmörku árið 2010! En ég get alveg sagt að ég hafi bakað bollur í gær, það voru bara brauðbollur.

Þessi vika er annars sú þriðja í grasekkjustandi. Eiginmaðurinn er á námskeiði í Þýskalandi og við finnum alveg fyrir fjarveru hans, sennilega vegna þess að enginn úr fjölskyldunni býr nálægt. Á þessum bæ sjáum við bæði um eldamennskuna, ákveðna rétti sér hann alfarið um og ég ákveðna, og svo eldum við nokkra saman. Það er engin regla á þessu hjá okkur. Sá sem er í stuði fyrir að elda sér um eldamennskuna. Þegar hann er í burtu þá geri ég grófan matseðil fyrir vikuna því ég læt senda vörurnar heim. Ég reyni að forðast að elda alltaf sömu réttina og nota tækifærið til að útbúa eitthvað sem ég hef ekki gert áður eða ekki gert í langan tíma. Ég baka afar sjaldan með geri og því finnst mér athyglisvert hvað ég er búin að gera þessar brauðbollur oft núna síðustu tvær vikur. Það er eitthvað róandi við það að hnoða deig í höndunum. Svo hef ég lengi átt í ástarsambandi við sesamfræ.

Talandi um sesamfræ, ég sá að það er að koma ný uppskriftabók á markaðinn sem kallast Sesame & Spice: Baking from the East End to the Middle East eftir Anne Shooter. Orðin sesame og baking fönguðu athygli mína. Ég hef enga hugmynd um hvernig uppskriftir eru í bókinni, hvort þær eru mjög sykraðar eða ekki, en kápan lofar góðu. Og þá að brauðbollunum.
Brauðbollur með sesamfræjum · Lísa Stefan


Þið sem hafið fylgst með blogginu í einhvern tíma hafið væntanlega tekið eftir því að ég nota yfirleitt spelti í bakstur. Þegar ég baka brauð/bollur þá blanda ég gjarnan fínu og grófu spelti saman. Undanfarið hefur verið erfitt að fá fínt spelti í búðum í nágrenninu. Grófa speltið sem ég keypti um daginn reyndist aðeins of gróft og hentar illa í brauðbakstur. Ég baka því þessar bollur með lífrænu hveiti eða brauðhveiti. Gerið sem ég nota er fast-active þannig að það blandast bara með þurrefnunum. Í stað þess að hita mjólkina, eins og oft er gert í gerbakstri, þá sýð ég vatnið og blanda því saman við mjólkina og hunangið. Sesamfræ eru auðug af kalki, magnesíum og járni og að mínu mati ætti að neyta þeirra á hverjum degi. Bollurnar berum við fram með harðsoðnum eggjum og agúrku eða heimagerðu pestó.

BRAUÐBOLLUR MEÐ SESAMFRÆJUM

450 g lífrænt hveiti
2 teskeiðar „fast-active“ þurrger
1 teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
2 matskeiðar sesamfræ
125 ml mjólk
100 ml soðið vatn
½ matskeið lífrænt hunang
1 matskeið jurtaolía
1 eggjahvíta eða mjólk til að pensla bollurnar
sesamfræ til að strá yfir

Blandið þurrefnum saman í stórri skál og hrærið sesamfræjum saman við.

Blandið mjólk, soðnu vatni og hunangi saman í lítilli skál og hrærið rólega til að leysa upp hunangið. Látið standa í skálinni í 1-2 mínútur áður en þið blandið olíu saman við. Hellið blöndunni hægt út í stóru skálina með þurrefnunum og hrærið rólega með sleif.

Notið fyrst sleif til að blanda hráefnunum vel saman, stráið svo örlitlu mjöli á borðplötu og hnoðið deigið í höndunum í 5-10 mínútur. Setjið deigið svo aftur í skálina og breiðið rökum klút yfir. Látið deigið hefast í 1½-2 klukkustundir (helst fjarri kulda).

Skiptið deiginu í 8 hluta og mótið úr því kúlur. Setjið kúlurnar á ofnplötu með bökunarpappír og fletjið hverja út með því að þrýsta rétt aðeins ofan á þær með lófanum. Penslið þær svo með eggjahvítu eða mjólk og stráið sesamfræjum yfir. Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 12-14 mínútur.

Brauðbollur með sesamfræjum á leið í ofninn

miðvikudagur, 28. janúar 2015

Maður með bláan trefil | Klattar

Maður með bláan trefil eftir Martin Gayford · Lísa Stefan


Á sínum tíma sat ég í kúrsi um sjálfs/ævisögur og skrifaði BA ritgerð um sama efni þannig að ég hef nokkuð sterkar skoðanir á slíkum ritum. Ég hef enga þolinmæði fyrir höfundum ævisagna sem gleyma sér í slúðursögum um viðfangsefnið eða eru í því að skreyta textann með nöfnum þekktra einstaklinga. Að því sögðu þá langar mig að segja aðeins frá bókinni sem ég er að lesa, Man With a Blue Scarf, sem er svo til laus við slíkt. Jarðbrúnir tónar eru einnig ofarlega í huga mér og klattar. Klattar með grjónum.

Þessa dagana nýt ég þess að lesa bók eftir Martin Gayford, Man With a Blue Scarf: On Sitting for a Portrait by Lucian Freud. Hún er ekki ævisaga heldur brot úr dagbók Gayfords þann tíma sem hann sat fyrir á mynd. Hann fer með okkur inn í vinnustofu Lucian Freud og við kynnumst listamanninum betur. Lucian Freud (1922-2011) var breskur listamaður, fæddur í Þýskalandi, einn áhrifamesti sinnar kynslóðar; maður með sterkan persónuleika (Sigmund Freud var afi hans). Dagbókarfærslur Gayfords sýna okkur málarann að störfum og hvernig hann nálgast viðfangsefni sitt.


Bókin er heillandi innsýn í líf listamannsins, sem átti nokkra daga í 81 árs afmælið þegar þessi bútur var skrifaður:
In practice, we alternate between conversation and periods when his concentration is intense. During those he keeps up a constant dance-like movement, stepping sideways, peering at me intently, measuring with the charcoal. He holds it upright, and with a characteristic motion moves it through an arc, then back to the canvas to put in another stroke … he mutters to himself from time to time, little remarks that are sometimes difficult to catch: 'No, that's not it', 'Yes, a little' … Once or twice he steps back and surveys what he has done, with his head on one side. (bls. 10)
Þeir félagar áttu skemmtilegar samræður um aðra listamenn, bókmenntir (Henry James, Gustave Flaubert og Thomas Hardy voru í uppáhaldi Freuds) og þeir töluðu jafnvel um matargerð (man einhver eftir Elizabeth David? Freud var hrifinn af bókum hennar). Í bókinni eru 64 myndir: verk eftir Freud og aðra listamenn og myndir af vinnustofunni. Ég er ekki búin og stend sjálfa mig að því að lesa síðustu blaðsíðurnar hægt því ég vil einfaldlega ekki að hún endi. Ég fékk eintakið lánað á safninu en þessa bók vil ég eignast.

Í desember byrjaði ég að lesa Breakfast with Lucian eftir Geordie Greig. Bókin byrjaði vel og skrautlegar lýsingar á Freud voru ansi skemmtilegar. Svo kom að því að ég hreinlega missti þolinmæðina, þegar Greig, sem var einnig vinur listamannsins, fór að segja fullmargar sögur af elskhugum Freud og ástarþríhyrningum og -flækjum. Honum gekk ekkert illt til og tónninn var gamansamur, en allt í einu fannst mér eins og ég væri að lesa slúðurrit (hef engan áhuga á þeim) og hætti lestrinum.

Hvað fleira hef ég enga þolinmæði fyrir? Klisjur í tímaritum ná ofarlega á listann.

Ég hef alltaf sagt að mér líkar litlu hlutirnir í lífinu og kætist til dæmis í hvert sinn þegar tímarit berst inn um lúguna. Í vikunni var það marsútgáfa Elle Decoration. Ég er hrifin af umfjöllun um liti sem er fastur liður, en hún fyllir eina blaðsíðu og segir sögu litarins og t.d. hvernig listamenn hafa notað hann. Í þessu tölublaði verða djúpir, brúnir tónar fyrir valinu og greinin hefst svona: „Startling news to report from the design world: brown is back.“ Er það já? Hvarf brúnn litur af yfirborði jarðar? Og hvað er svona startling? Í september var spurt á forsíðu: „Is black the new white?“ Nei, svo er ekki, svartur er svartur og hvítur er hvítur! Nær tilgangslaus pirringur minn að skína í gegn? Hvað um það, brúna skálin í umfjölluninni er frá Nicola Tassie, borðbúnaðurinn frá Reiko Kaneko og kjóllinn í forgrunni er úr vorlínu Chloé (hönnuður: Clare Waight Keller) árið 2015.

Eigum við ekki bara að fikra okkur yfir í klattana?

Þessa dagana er ég óð í möndlusmjör með chiafræjum og nota það á klattana með bláberjasultu. Þá má bera fram með ýmsu, eins og smjöri, osti og sultu, með lífrænu súkkulaði/hnetusmjöri eða hverju sem er. Krakkarnir borða þá oft með hlynsírópi.
 Klattar með grjónum · Lísa Hjalt


Ef þið eigið afgang af grjónagraut eða soðnum grjónum í kæli er upplagt að skella í klatta með morgunkaffinu eða eftir skóla fyrir börnin. Upprunalega uppskriftin kemur frá gamalli vinkonu og ég gerði síðar glútenlausa útgáfu þegar einn lítill gutti með óþol kom í heimsókn (ég nota glútenlausa mjölið frá Doves). Í staðinn fyrir glútenlaust mjöl má nota spelti eða lífrænt hveiti og minnka þá eilítið mjólkina (og sleppa þá xathangúmmí sem er algengt í glúteinlausum bakstri). Það má líka nota örlítið af kanil eða söxuðu súkkulaði með hrásykri. Stundum nota ég fersk bláber í klattana og læt þá 3-4 bláber á yfirborð hvers klatta um leið og deigið er komið á pönnuna. Ef bláberin fara beint í skálina verður deigið bláleitt! Uppskriftin gerir 10-12 klatta.

KLATTAR MEÐ GRJÓNUM

1-2 eggjahvítur eða 1 (hamingju)egg
2 matskeiðar lífrænn hrásykur eða hlyn-/agavesíróp
1 teskeið lífrænir vanilludropar
1½-2 matskeiðar góð jurtaolía
1 bolli (2½ dl) grjónagrautur eða soðin (brún) grjón
1 bolli glútenlaust mjöl (ca. 175 g) (eða spelti/hveiti)
má sleppa: ⅛ teskeið xanthangúmmí
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
ca. 175-200 ml möndlumjólk eða önnur mjólk

Hrærið saman eggjahvítum, sykri, vanillu og olíu í skál (ef þið notið 1 egg ætti 1½ msk af olíu að duga). Hrærið grjónagraut/soðnum grjónum saman við.

Blandið saman í minni skál glútenlausu mjöli, salti og xanthangúmmíi (ef notað í glútenlausri útgáfu). Hellið svo út í hina skálina ásamt mjólkinni og hrærið saman. Það er ágætt að byrja með 175 ml af mjólk og bæta við ef þarf. Deigið á að vera nokkuð þykkt í sér.

Hitið pönnu við meðalhita og pennslið með smá olíu. Ausið deigi á pönnuna (ég geri yfirleitt 2 klatta í einu) og bakið þar til botninn er gullinbrúnn. Snúið við með spaða og bakið hina hliðina í eilítið styttri tíma. Setjið á disk og endurtakið.

Bak við tjöldin: persneskur köttur treður sér inn í mynd

fimmtudagur, 15. janúar 2015

Nýtt! Lestur & Latte

Nýtt blogg! Lestur & Latte · Lísa Hjalt


Sæl öllsömul og gleðilegt ár! Ég vona að þið hafið átt notalega frídaga yfir hátíðirnar. Ég hefði gjarnan viljað byrja fyrsta póstinn á nýju ári, eftir langt blogghlé, á jákvæðum nótum en þar sem París er í miklu uppáhaldi þá verð ég að segja að hugur minn hefur verið með íbúum borgarinnar. Fyrst var það gíslatakan í Sydney fyrir jól og svo þessi hryllingur í París í síðustu viku. Eins og John Lennon leyfi ég mér að dreyma, samstöðugangan á sunnudaginn gaf mér von. Ég skrifaði þennan póst með lag hans, Imagine, í bakgrunni:

Nothing to kill or die for, And no religion too,
Imagine all the people, Living life in peace…

~ • ~
Í lok október í fyrra tilkynnti ég breytingar á blogginu og tók hlé og nú er kominn tími til að bjóða ykkur velkomin á „nýja“ Lestur & Latte. Ég breytti sem sagt nafninu og vefslóðinni líka en útlitið tók engum drastískum breytingum. Ég vildi ekki byrja að blogga aftur fyrr en eiginmaðurinn hefði lokið smíði á borði sem mig hefur dreymt um fyrir myndatökur. Það er sérsniðið fyrir eldhúsið og ég hef nóg pláss fyrir tölvuna, skrifblokkir, matreiðslubækur og aðra hluti þegar ég er að stússast í eldhúsinu - ég er þakklát fyrir að eiga laghentan mann. Megin breytingin á blogginu verður sú að héðan í frá birti ég bara mínar eigin myndir sem þýðir að ég hætti öllum bloggseríum. Ég mun auk þess birta færslur sjaldnar.

Edgar Degas, The Rehearsal, 1874 - bls. 171 í bókinni Masterworks eftir Iian Zaczek

Upphaflega var hugmyndin að nota bara Pinterest fyrir myndir frá öðrum, en mér líkar að skrolla niður síður með stórum myndum og vissi að hluti af mér kæmi til með að sakna þess að blogga eins og ég gerði áður. Ég opnaði því nýlega Tumblr-síðu undir Lunch & Latte heitinu. Þar verður að finna myndir sem hefðu líklega endað á blogginu, en án bloggtexta og bara með stuttri lýsingu og vísun í heimildir.

Ég hugsaði með mér að lesendur bloggsins væru líklega ekki allir á Pinterest og sá hópur saknaði þess kannski að skoða síðu með stærri myndum af fallega hönnuðum og stíliseruðum heimilum og slíku. Ef þið hafið notað bloggið sem slíkan innblástur („rýmið“ bloggserían var alltaf vinsæl) þá ætti Tumblr-síðan að vera eins konar sárabót. Ég hef þegar birt góðan slatta af myndum, bara svo síðan virkaði ekki tóm í upphafi (sjá yfirlitið). Hversu oft og hvenær ég deili myndum á Tumblr mun bara velta á skapinu; eitthvað til að gera yfir lattebollanum þegar það hentar.



Á blogginu verður eitt og annað í gangi og þessi fyrsti póstur ætti að gefa ykkur tóninn. Hér verða færslur um það sem ég er að bralla í eldhúsinu, um það sem ratar á borðið mitt góða. Suma daga kem ég til með að fjalla um bækurnar sem ég er að lesa eða bæta í safnið (þessa dagana er ég aðallega að fá lánaðar listabækur á bókasafninu), eitthvað sem höfðar til mín í tímaritunum sem ég er að fletta (ég er loksins að gerast áskrifandi að The World of Interiors þar sem má alltaf finna fallegan textíl). Aðra daga deili ég kannski því sem ég er að elda eða baka, uppskrift sem ég er að setja saman þá stundina og hvaðan ég sótti innblástur (ein af þeim nýjustu varð til dæmis til við lestur á skáldsögu sem ég las nýverið). Til að auðvelda hlutina þá ætla ég að hætta að uppfæra matarbloggið (uppfærði það einu sinni í fyrra!) og nota bara þetta blogg til að deila uppskriftum héðan í frá.

Bráðum er ég að byrja í kúrs um arkitektúr í gegnum netið og kannski fjalla ég eitthvað um hann (ég hef engin plön um að taka gráðu, aðrir verða að gerast Einar Sveinssynir eða Guðjón Samúelssynir framtíðarinnar). Þegar vorið kemur má treysta því að ég rölti um eða hjóli með myndavélina til að fanga kirsuberjatré og magnólíur í blóma. Þetta verður fyrsta vorið mitt í South Yorkshire! Kannski það síðasta svona í ljósi þess hversu títt við höfum fært okkur um set á síðustu árum! (Elskan, eigum við nokkuð að vera að henda kössunum, er ekki betra að geyma þá bara?) Hvað fleira? Já, alveg rétt, á þessu ári kemur út uppskriftabókin hennar (Cafe)Sigrúnar vinkonu sem ég var búin að segja ykkur frá. Þessa dagana erum við einmitt að lesa yfir lokahandritið. Við erum búnar að sjá prufur af umbrotinu og bókin verður glæsileg. Það sem ég hlakka til að fletta henni og deila með ykkur.

Í raun þá hef ég engin niðurnegld plön fyrir bloggið. Ég ætla bara að fikra mig áfram með breyttar áherslur og sjá hvert þær leiða mig. Að lokum vil ég þakka ykkur fyrir heimsóknirnar á liðnum árum. Ég vona að 2015 verði árið þar sem þið komið auga á og verið óhrædd við að grípa tækifærin sem birtast ykkur. Og munið, lífið er of stutt fyrir annað en gæðakaffi.

PS. Ef einhverjir tenglar á blogginu virka ekki þá bið ég ykkur bara að sýna því þolinmæði því sumt þarf að uppfæra eftir breytingar. Athugið líka að héðan í frá birtast alltaf sömu færslurnar á ensku og íslensku útgáfunni á sama tíma.