þriðjudagur, 9. apríl 2024

The Selected Letters of Ralph Ellison

Kápa bókarinnar The Selected Letters of Ralph Ellison (The Modern Library)


Það er fyrir löngu kominn tími á bloggfærslu og þar sem valin bréf rithöfundarins Ralphs Ellison er sú bók sem ég nærist á með morgunkaffinu þessa dagana er við hæfi að mæla með henni í bókarkápufærslu. The Selected Letters of Ralph Ellison var lengi á óskalistanum því ég vildi bíða eftir kiljunni sem kom út nýverið hjá The Modern Library (upphaflega gefin út innbundin fyrir um fjórum árum). Hún var biðarinnar virði. Ellison kann þá list að skrifa bréf, var afkastamikill á því sviði og því mjög áhugavert að kynnast sögu hans í gegnum bréfin. Ég á enn eftir að lesa Invisible Man (1952) og Juneteenth (1999, gefin út eftir andlát hans) en bæti úr því síðar.

Bréfin eru flokkuð eftir áratugum með inngangstexta ritstjórans John F. Callahan fyrir hvern. Ég mæli með að lesa bréfin á undan þannig að Ellison segi sína sögu og rödd hans fái að njóta sín. Stundum finnst mér full mikið um tilvitnanir í bréfin í inngangstextunum ásamt túlkun sem spillir „söguþræðinum“. Já, það má alveg tala um söguþráð í þessu samhengi því bréfin eru gjarnan löng og innihaldsrík. Þau fyrstu skrifar hann upp úr 1930, flest til móður sinnar sem bláfátækur námsmaður í Alabama.

Hann flyst svo til New York, sest að síðar í Harlem, og mér finnst sem bókin fari á flug með bréfi til ljóðskáldsins Langstons Hughes í byrjun árs 1939 þegar Ellison hefur snúið sér að skrifum („There is really little that I can tell you Lang. I spend all of my time trying to make a writer of myself ...“). Bréf til rithöfundarins Richards Wright (bók hans Native Son kom út 1940) eru mörg á 5. áratugnum og heillandi að sjá Ellison munda pennann („You told me I would begin to write when I matured emotionally, when I began to feel what I understood. I am beginning to understand what you meant“). Þetta bréfasafn verður best lýst sem góðri skáldögu sem erfitt er að leggja frá sér.

Kápuhönnun: Rachel Ake
Ljósmynd: James Whitmore/The LIFE


The Selected Letters of Ralph Ellison
Ritstjórar: John F. Callahan og Marc C. Conner
Kiljubrot, 1072 blaðsíður
ISBN: 9780593730072
The Modern Library


Túlípanar á kaffiborði, páskar 2024 · Lísa Stefan
Bókastemningin hjá mér um páskana



mánudagur, 3. júlí 2023

No One Prayed Over Their Graves · Khaled Khalifa

Bókarkápan af No One Prayed Over Their Graves. Höfundur: Khaled Khalifa (FSG)


Í mánuðinum kemur út í enskri þýðingu skáldsagan No One Prayed Over Their Graves eftir sýrlenska rithöfundinn Khaled Khalifa. Ameríska forlagið FSG gefur bókina út, en sögusviðið er sýrlenskt þorp í nágrenni Aleppo þar sem flóð umbreytir lífi tveggja vina. Þýðandi er Leri Price sem einnig þýddi Death Is Hard Work, sem er fáanleg í íslenskri þýðingu, Dauðinn er barningur (Salka).

Ég er svag fyrir fallegum bókarkápum, sem skýrir þennan lið á blogginu, og oftar en einu sinni hef ég látið blekkjast. En ég hef ekki lært mína lexíu og það gerist varla úr þessu. Er til betri samsetning en góð bók og falleg bókarkápa? Nú hef ég ekki lesið þessa og get því ekki dæmt innihaldið, en ljósmyndin fangar mig svo og titilhönnunin. Ég hef aldrei ferðast til Sýrlands eða Miðausturlanda en það er eitthvað við útlínurnar sem bera við himin miðausturlenskra borga, moskurnar og turnarnir - mínaretturnar - sem einkenna þær. Þetta er líkast til Aleppo eins og hún var. Khalifa fæddist í nágrenni borgarinnar en í dag býr hann í Damaskus og bækur hans eru bannaðar í heimalandinu. Hann var í áhugaverðu viðtali í The Guardian um helgina.

No One Prayed Over Their Graves
Höf. Khaled Khalifa
Þýðandi: Leri Price
Innbundin, 416 blaðsíður
ISBN: 9780374601935
FSG



laugardagur, 6. maí 2023

The Writing School · Miranda France

Bókarkápan af The Writing School. Höfundur: Miranda France (Corsair)


Í gær hlustaði ég á nýjasta þátt TLS hlaðvarpsins og meðal gesta var Miranda France að tala um nýjustu bók sína, The Writing School, sem kom út í vikunni hjá Corsair. Ég hef aldrei lesið neitt eftir hana en var forvitin og bætti bókinni á óskalistann eftir að hafa lesið þessar línur í samantekt forlagsins: „Dásamleg og óvenjuleg blanda frásagnarlistar og endurminninga, ... The Writing School er áhrifamikil og oft mjög fyndin bók um hvers vegna fólk skrifar, auk þess að vera einstaklega rausnarlegt meistaranámskeið í ritlist.“

The Writing School
Höf. Miranda France
Innbundin, 224 blaðsíður
ISBN: 9781472157348
Corsair



mánudagur, 9. janúar 2023

№ 34 bókalisti: Annie Ernaux og Guðrún Eva

Á № 34 bókalistanum: A Man's Place (Staðurinn) eftir Annie Ernaux · Lísa Hjalt


Gleðilegt ár! Ég ákvað að byrja bloggárið á nýjum bókalista sem verður líka sá síðasti í þessu formi. Ég er að hugsa um að hvíla listana alveg eða breyta þeim síðar í samantektarlista þannig að ég geti gert meira af því að mæla með bókum sem ég hef lesið. Hluti af mér mun sakna þessa forms því mér finnst það agandi að hafa hugmynd um hvað ég ætla mér að lesa nokkrar vikur fram í tímann. En stundum gerist það að ég eignast nýja bók sem mig langar að lesa strax en finnst sem ég þurfi að klára fyrst þær sem eru á bókalista hverju sinni - lúxusvandamál, ég veit. Önnur ástæða fyrir breytingunni er sú að mig langar að lesa meira á þýsku til að ná betri tökum á málinu.

№ 34 bókalisti:

1  A Man's Place  · Annie Ernaux
2  Útsýni  · Guðrún Eva Mínervudóttir
3  Of Time and the River  · Thomas Wolfe
4  Letters of Leonard Woolf  · ritstj. Frederic Spotts
5  Dichter im Café  · Hermann Kesten [þýsk]

Ensk þýðing: 1) A Man's Place: Tanya Leslie

Franski rithöfundurinn Annie Ernaux hlaut Nóbelsverðlaunin í fyrra. Bók hennar á listanum, La Place á frönsku, fjallar um samband hennar við lítt menntaðan föður sinn og um þá fjarlægð sem smám saman myndast milli þeirra því meira sem hún fetar menntaveginn og verður hluti af millistétt. Áherslan sem hann lagði á tungumálið kemur mikið við sögu: Hún lýsir m.a. atviki þar sem hann þarf að fá lögfræðing til að votta undirskrift sína á pappíra. Þegar hann áttar sig á því hann hefur misritað eitt smávægilegt orðalag við undirritunina þá upplifir hann gríðarlega mikla skömm, sem er ekkert í takt við tilefnið. Í þessari stuttu bók, rétt um 100 síður, staldrar Ernaux stundum við til að segja nokkur orð um skrifin sjálf eða deila hugsunum sínum í tengslum við ákveðna minningu. Staðurinn, í þýðingu Rutar Ingólfsdóttir, kom út hjá Uglu í fyrra. Þetta er fyrsta bók Ernaux sem gefin hefur verið út á Íslandi sem mun án efa breytast eftir Nóbelinn. Fyrir óþreyjufulla þá hefur breska útgáfan Fitzcarraldo Editions sent frá sér 8 verk hennar á ensku nú þegar.

Kaffistund og bókalestur (№ 34 bókalisti) · Lísa Hjalt
Kaffistund og bókalestur í desember

Ég féll fyrir Annie Ernaux þegar ég las The Years (№ 20) í fyrsta sinn, eins konar æviminningar sem fanga tíðarandann einstaklega vel og eru merkilegar vegna þess að hún notar aldrei persónufornafnið ég. Ég keypti í haust þýsku þýðinguna, Die Jahre, til að lesa verkið enn og aftur með þá ensku til hliðsjónar. Ég hef einnig lesið I Remain in Darkness sem fjallar um móður hennar og Alzheimer-sjúkdóminn. Að lesa þá bók var stundum eins og að vera kýldur í magann - hrá og afhjúpandi skrif.

Ef þið viljið kynna ykkur Ernaux þá má finna fínar umfjallanir á RÚV. Ég man einkum eftir að hafa hlustað á Lestina í október þar sem Torfi Tuliníus prófessor benti á aðdáun hennar á franska félagsfræðingnum Pierre Bourdieu. Kenningum Bourdieu kynntist ég fyrst í safnafræðináminu og hef hann núna á bak við eyrað þegar ég les texta hennar. Eftir tilkynninguna um Nóbelsverðlaunin var mjög áhugaverð umfjöllun um skrif Ernaux í TLS-bókahlaðvarpsþætti (mín. 27:40) þar sem rithöfundurinn Lauren Elkin var gestur. Þar kom Bourdieu einnig við sögu.

Á № 34 bókalistanum: Útsýni eftir Guðrúnu Eva Mínervudóttur · Lísa Hjalt
Lestarstund í janúar: Útsýni, nýjasta skáldsaga Guðrún Evu Mínervudóttur

Á þessum síðasta lista er ánægjulegt að geta haft nýtt íslenskt verk. Það gerist ekki oft. Kær vinkona sendir mér af og til bækur frá Íslandi og hún valdi Útsýni Guðrúnar Evu Mínervudóttur handa mér í jólagjöf. Ég hafði séð Kolbrúnu og Þorgeir hrósa bókinni Kiljunni og hugsaði með mér að hún gæti höfðað til mín. Ég er rúmlega hálfnuð og verð að viðurkenna að ég tengi ekki enn við 4-stjörnu límmiðann á eintakinu mínu sem segir syngur í eyrum lesanda. Þegar ég er komin þetta langt inn í bók án þess að finna nokkra tengingu við persónur þá veit það ekki á gott. Ég hef annars sagt það áður að ég og samtímaverk eigum yfirleitt litla samleið; ég er mjög vandlát þannig að það er ekkert að marka mína skoðun á þessu verki. Guðrún Eva gerir margt vel en svo er annað í stílnum sem höfðar ekki til mín.

Kannski segir það eitthvað um mig sem lesanda að geta endurlesið æviminningar Sigga Páls út í hið óendanlega en að hafa látið það nægja að lesa skáldsögu hans Parísarhjólið einu sinni. Ég get svo bætt því við til frekari útskýringar að svo til allar bækur á óskalistanum mínum eru rit almenns eðlis, bréf, esseyjur og æviminningar, ekki skáldsögur.



föstudagur, 18. nóvember 2022

№ 33 bókalisti: Keegan og COVID-einkenni

Á № 33 bókalistanum er m.a. að finna Small Things Like These eftir írsku skáldkonuna Claire Keegan · Lísa Hjalt


Ég hef beðið með að deila þessum bókalista því mig langaði að nota myndavélina til að fanga bækurnar með kaffibolla og kannski blómum líka í stað þess að nota myndir af Instagram. En ég hef ekki verið í skapi fyrir myndatöku. Ég nældi mér í COVID fyrir 5 vikum síðan og slapp nokkuð vel. Svaf aðallega út í hið óendanlega vegna þreytu. En því miður missti ég bragðskynið - 5 vikur án kaffibragðs! - og mér fannst allar bækur sem ég var að lesa leiðinlegar. Kannski ætti ég að taka til baka þetta með að hafa sloppið vel. Við skulum líta á listann og verkin á honum því ég á bara eftir að klára eina bók.

№ 33 bókalisti:

1  Pain  · Zeruya Shalev
2  Small Things Like These  · Claire Keegan
3  Night  · Elie Wiesel
4  Nemesis  · Philip Roth
5  Sapiens: A Brief History of Humankind  · Yuval Noah Harari

Ensk þýðing: 1) Pain: Sondra Silverston; 3) Night: Marion Wiesel

Bókin hennar Claire Keegan, sem var tilnefnd til Booker-verðlaunanna í ár, er lítil perla sem gerist í írskum smábæ árið 1985 og tekur á viðkvæmu efni: hvernig kaþólska kirkjan á Írlandi komst upp með að nota ungar, þungaðar stúlkur sem vinnuafl í klaustrum og tók svo af þeim börnin eftir fæðingu. Keegan þarf ekki nema nema 116 síður til að segja allt sem segja þarf og innihaldið er ríkara en mörg lengri skáldverk. (Ég mæli með kvikmyndinni The Magdalene Sisters (2002; Peter Mullan) um sama efni.) Aðra stutta en innihaldsríka bók á listanum á Elie Wiesel, sem lifði af helförina og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1986. Hún segir frá reynslu hans í fangabúðunum, Auschwitz og Buchenwald, og lesturinn tekur oft á. Í mörg ár hef ég forðast að þessa bók. Það er fyrst núna sem ég hafði hugrekki til þess.

Í Nemesis býr Philip Roth til mænusóttarfaraldur í fæðingarbæ sínum Newark árið 1944, sem ógnar lífi barna. Ég var ekki viss hvort þetta væri rétti tíminn til að lesa bók um faraldur þar sem við erum enn að glíma við kórónaveirufaraldurinn en það truflaði mig ekki við lesturinn. Bókin er vel skrifuð (hlaut alþjóðlegu Booker-verðlaunin árið 2011) en kannski aðeins of stutt fyrir minn smekk. Í þriðja hluta erum við komin til ársins 1971 og sögumaðurinn segir í stuttu máli frá því sem gerst hefur á öllum þessum tíma. Hér fannst mér einhverja fyllingu vanta í verkið og fannst ég þurfa meira þegar það endaði.

Ég er lítið fyrir bækur sem verða ofur vinsælar og hef tilhneigingu til að forðast bækur sem allir virðast vera að lesa og kalla skyldulesningu. Sapiens eftir ísraelska sagnfræðinginn Yuval Noah Harari fellur í þann flokk. Hún hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál; á íslensku með undirtitlinum Mannkynssaga í stuttu máli. Eitthvað hélt þó áfram að draga mig að henni þannig að ég keypti hana handa syni mínum og hugsaði að ég gæti fengið hana lánaða einn daginn. Ég hef núna lesið fyrsta hlutann af fjórum í rólegheitum og bókin lofar góðu. Harari nálgast viðfangsefnið þverfaglega og er lipur penni.

Kápa bókarinnar Pain eftir Zeruya Shalev á bókalistanum · Lísa Hjalt
Pain er skáldsaga eftir ísraelska rithöfundinn Zeruyu Shalev

Samband mitt við nútímaskáldverk getur oft verið skrýtið. Ég fylgist vel með útgáfu bóka en verð sjaldan spennt fyrir nýjum skáldsögum. Þegar það gerist hef ég líklega látið lokkandi bókarkápu ginna mig. Sjálfur lesturinn veldur mér oft vonbrigðum og ég finn jafnvel fyrir ergelsi og óþolinmæði. Ég ákvað að lesa Pain eftir Zeruya Shalev eftir að hafa lesið stutt viðtal við fransk-marokkósku skáldkonuna Leïlu Slimani þar sem hún mærði skrif Shalev. Pain fjallar um ísraelska konu sem lifir af hryðjuverkaárás en glímir enn við afleiðingarnar 10 árum síðar. Bókin byrjaði vel en fljótlega varð hún ein af þessum skáldsögum sem ég klára bara til að geta haft skoðun á henni. Shalev á ágætis spretti í bókinni, það vantar ekki, en við skulum orða það þannig að ég mun ekki rjúka út í bókabúð til að kaupa aðra bók eftir hana, sem skrifast alfarið á mig.

Ég minntist á leiðinlegar bækur í upphafi. Ein af þeim átti að fara á listann, klassíska ferðaritið In Patagonia eftir sjálfan Bruce Chatwin, en ég gafst upp eftir nokkra kafla. Fyrst hélt ég að það væru bara mín COVID-einkenni að finnast bókin óáhugaverð (mér fannst allar bækur leiðinlegar) og hélt því lestrinum áfram þegar ég komst almennilega á fætur. En ritstíllinn gerði ekkert fyrir mig og stuttir kaflarnir, meira eins og stuttar frásagnir heldur en kaflar, voru of sundurlausir fyrir minn smekk. Ég hef sagt það áður að lífið er of stutt og dýrmætt fyrir bækur sem fá ekki lestrarhjartað til að slá hraðar.