þriðjudagur, 30. september 2014

Ný keramiklína: POME-POME



Eruð þið að leita að fallegum og stílhreinum munum til að prýða borðið ykkar, einhverju nýju til að safna? Nú í haust er væntanleg á markað ný keramiklína, POME-POME, frá hinni dönsku Malene Helbak, sem hún hannaði í samstarfi við sænska grafíska hönnuðinn Nygårds Maria. Þær stöllur sóttu innblástur í jurtaríkið og allir munirnir eru hvítir með sæbláum og petról-bláum (er til íslenskt heiti yfir svona lit?), mintugrænum og appelsínugulum tónum. Er það klisja að segja að það gerist varla skandinavískara? Ég veit ekki með ykkur en ég gæti vel hugsað mér að dekka mitt borð með þessum munum.

mynd:
af vefsíðu Bo Bedre

fimmtudagur, 25. september 2014

Rýmið 74



- stofa eða leskrókur með arni í hlutlausum tónum í Hollywood
- eigandi er Darren Star, maðurinn á bak við sjónvarpsþætti eins og Sex and the City, Beverly Hills, 90210 og Melrose Place
- innanhússhönnun var í höndum Waldo's Designs og um arkitektúr sá Rios Clementi Hale Studios

mynd:
Roger Davies fyrir Architectural Digest, mars 2012

þriðjudagur, 16. september 2014

mánudagur, 15. september 2014

Innlit: heimili listakonunnar Pepa Poch á Spáni



Þegar ég rekst á heimili listamanna sem eru jafn falleg og þetta þá fæ ég allt að því skjálfta í hnén. Hið vinsæla tímarit Lonny er ókeypis á netinu og septemberútgáfan er öll hin glæsilegasta. Þau heimsóttu katalónsku listakonuna Pepa Poch sem býr í hvítmáluðu húsi á Costa Brava á Spáni með útsýni út á Miðjarðarhaf. Ég allt að því slefaði þegar ég sá pússuðu gólfborðin, svo ég minnist nú ekki á loftbitana sem hafa verið málaðir í bláum tón. Það eru einmitt þessir bláu tónar hér og þar um húsið og í listaverkum Poch sem heilla mig. Ég er auk þess ákaflega hrifin af svona hráum stíl þar sem steinn og viður leika aðalhlutverk, sérstaklega þegar hann er hlýlegur eins og á þessu heimili. Það eru fleiri myndir á vefsíðu Lonny ef þið viljið sjá meira og að sjálfsögðu smá viðtal við listakonuna.


myndir:
Albert Font fyrir Lonny, september 2014

fimmtudagur, 11. september 2014

Heimagerður hindberjasafi í boði Ikea



Í júlí rakst ég á þessa fallegu mynd á Livet Hemma, bloggi sem sænska Ikea vefsíðan heldur úti. Stílistarnir þeirra útbúa oft skemmtilegar matarmyndir þegar verið er að kynna nýja eldhúslínu eða muni og þá fylgir gjarnan uppskrift. Ég hef ekki prófað þessa uppskrift að hindberjasafa sem inniheldur 2 kíló (4 lítra) hindber, 1½ lítra vatn, 1 kíló sykur og safa úr 1 sítrónu. Mér finnst sykurmagnið alltof mikið og myndi alveg örugglega minnka það verulega og nota frekar blöndu af lífrænum hrásykri, agave sírópi og stevia dropum.

Sigrún vinkona, sem heldur úti CafeSigrun vefnum, sendi mér flösku af Via Health stevia dropunum um daginn sem ég hef verið að prufa mig áfram með og mér líst vel á þá. Eftir flutningana til Englands datt sonur okkar beint inn í bresku tehefðina og fær sér alltaf te á kvöldin í stórum bolla, rosa fínt Earl Grey te frá Clipper, sem honum þykir best. Hann notar út í það mjólk og demerara sykurmola og ég hef reynt að fá hann til að minnka sykurmagnið. Núna samþykkir hann að nota 1 mola og stevia á móti. Ég prófaði svo að baka glútenlausa súkkulaðiköku í gær þar sem hluti sætunnar var stevia og hún heppnaðist mjög vel. Sem betur fer er ekkert glútenóþol á okkar bæ en mig langar að eiga góða uppskrift ef gesti með slíkt óþol ber að garði og mig langar líka að hafa uppskriftina á matarblogginu. Ég deili henni þegar ég hef neglt hana niður.

Talandi um Sigrúnu, sáuð þið sýnishornið hér á blogginu úr uppskriftabókinni hennar? Bókin er ekki enn komin út en ég læt ykkur að sjálfsögðu vita hvenær það gerist.

mynd:
Malin Cropper fyrir Ikea Livet Hemma

þriðjudagur, 9. september 2014

Rýmið 72



- stofa á Majorca á Spáni í eigu Brenda og Paul van Berg
- húsið er uppgert og situr í fjallshlíð nálægt borginni Palma

Ég hef sagt það áður en eitt uppáhaldstímaritið mitt um innanhússhönnun er Elle Decoration UK. Það kemur inn um lúguna í hverjum mánuði og ég er alltaf jafn spennt þegar ég tek það úr plastinu og sest niður til að fletta því með lattebolla í hendi. Þetta rými er hluti af innliti í júlítölublaði þessa árs og það var að sjálfsögðu hrái stíllinn sem höfðaði til mín. Eigendurnir, sem líka reka jógastöð við heimili sitt, hafa ferðast um Afríku og Asíu og keypt ýmsa muni, einkum á mörkuðum í norðurhluta Afríku. Heimilið ber að sjálfsögðu keim af því.

mynd:
Sunna & Marc van Praag fyrir Elle Decoration UK

mánudagur, 8. september 2014

Innlit: ljóst, grænt og hlýlegt á Spáni



Ég var að fá í hendurnar svo fallega bók með nútímalegum sveitasetrum, sem ég ætla að segja ykkur frá síðar, og varð eiginlega að kafa aðeins ofan í möppurnar mínar í leit að nútímalegum rómantískum stíl. Þetta hús á Spáni finnst mér fallegt og hlýlegt; rómantíski stíllinn er ekki yfirgnæfandi eða of væminn eins og oft vill verða. Ég er svolítið skotin í flísunum á gólfinu þó ég myndi ekki nota þær sjálf á svona stóran flöt.

Ég man ekki eftir að hafa farið í gegnum grænt innanhússtímabil í lífinu en ég hef alltaf verið hrifin af flöskugrænum vösum og stórum grænum glervösum. En að blanda þessu saman við hvítt hefur mér hingað til þótt full Breiðablikslegt (ég vona að ég móðgi engan með þessari samlíkingu). Ég held að þessi litasamsetning gangi upp hér vegna þess að hún er brotin upp með náttúrulegum mottum ásamt munum úr basti, og húsgögnin eru ekki öll eins heldur hafa þau mismunandi áferð og ljósa/hvíta og jafnvel gráa tóna. Það er sennilega trikkið.


myndir:
El Mueble

fimmtudagur, 4. september 2014

Merci: litrík rúmföt úr 100% líni



Þegar kemur að rúmfötum er ég týpan sem vel hlutlausa liti eða þá mjög milda tóna. Kannski vegna þess að það getur verið ansi erfitt að finna litrík rúmföt sem auk þess eru unnin úr náttúrulegum textíl. Það er staðreynd að mikið af þessum mynstruðu og litríku rúmfötum á markaðnum eru lituð með kemískum efnum sem mér finnst ekki eiga erindi í svefnrými fólks. En ef þið eruð mikið fyrir liti þá er hægt að fá náttúruleg og smekkleg rúmföt í versluninni Merci í París sem eru úr 100% líni. Þeir voru að bæta níu litum í flóruna, meðal annars þessum tónum sem sjást á myndinni, sem heldur betur  minna á haustið. Mér finnst graskersliturinn sérstaklega fallegur; það væri gaman að brjóta upp með honum. Þau hjá Merci er með vefverslun líka og senda til Íslands.

mynd:
Merci • af Facebook síðu