miðvikudagur, 27. nóvember 2013

Í leit að jólaskapi



Ég sit á Starbucks (enn netlaus heima) og hafði ætlað mér að birta nokkrar jólamyndir í dag í þeirri von að komast í jólaskap en það virðist ekki vera hægt að nota nettenginguna hér til þess að hlaða inn myndum. Ég notaði því bara þessa mynd af jólaglervörum frá Holmegaard sem ég póstaði á ensku útgáfuna í dag. Jólaflaska frá þeim hefur verið lengi á óskalistanum og ég viðurkenni fúslega að ég segði nú ekki nei við glösum og kertastjökum líka.

Ég þurfti annars að líta tvisvar í dagbókina í morgun til þess að trúa því að næsti sunnudagur væri fyrsti í aðventu. Ég er engan veginn tilbúin fyrir jólin enda er ég enn að taka upp úr kössum og raða dótinu okkar. Kannski finn ég jólaskapið pakkað ofan í einhverjum kassa, hver veit. Ég er mikil jólakona en er sem betur fer ekki týpan sem stressar sig fyrir jólin og ég held öllu jólaskrauti í lágmarki. Blikkljós í gluggum er ekki minn stíll. Ég hef nokkra skrautmuni á sjálfu jólaborðinu og svo er það bara jólatré og aðventukrans.

*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.


miðvikudagur, 23. október 2013

Innlit: enskt sveitasetur



Ég veit ekki í hvaða tímariti þessi umfjöllun um sveitasetrið hans John Roger birtist, en þar sem Carol Prisant skrifar greinina var það líklega World of Interiors eða House Beautiful. Roger stjórnar antíkmunadeild Sibyl Colefax & John Fowler, sem er enskt hönnunarfyrirtæki stofnað upp úr 1930. Það fyndna er að hann starfaði sem lögmaður þegar hann einn daginn gekk inn í sýningarsal þeirra í leit að skrifborði og starfsferill hann breyttist snarlega. Þið sjáið hluta af skrifborðinu hér fyrir neðan og svo getið þið séð það í horninu á myndinni úr stofunni. Mér finnst þetta sveitasetur hans heimilislegt en um leið smekklegt - ég er lítið fyrir ofhlaðinn sveitastíl. Garðhönnunin finnst mér ákaflega falleg og ekki of formleg. Ég vildi geta sagt ykkur eitthvað meira um húsið en ég fann þessar skönnuðu myndir á netinu án viðtalsins við Roger.

Á persónulegum nótum, vegna anna á næstu vikum þá verð ég í fríi frá bloggskrifum og veit ekki alveg hvenær ég sný aftur, kannski undir lok nóvember. Ég lofa smá fréttum þegar ég kem til baka. (Ef þið notið Pinterest þá er ég þar og kem til með að pinna í kaffipásum.) À bientôt!


Elizabeth Zeschin (skannaðar) af blogginu Kitchens I Have Loved

fimmtudagur, 17. október 2013

París: fyrir ári síðan við Palais Royal

París: fyrir ári síðan við Palais Royal · Lísa Hjalt


Ég var með París í huganum þegar ég vaknaði í morgun og þegar ég leit á dagatalið áttaði ég mig á því með bros á vör að ég var í París á þessum degi fyrir akkúrat ári síðan. Ég átti enn nokkrar myndir úr ferðinni sem ég hafði ekki deilt á blogginu. Myndin hér að ofan sýnir stemninguna fyrir utan Le Nemours kaffihúsið, sem er við Palais Royal í 1. hverfi. Við settumst ekki niður til að fá okkur kaffi þar sem við höfðum verið að borða hádegisverð og eftirrétt á veitingastað hinum megin við Signu. En það var grenjandi rigning og göng Palais Royal veittu skjól.
París: fyrir ári síðan við Palais Royal · Lísa Hjalt


miðvikudagur, 16. október 2013

Uppskrift: sætkartöflusúpa með ristuðum graskersfræjum



Í gær birti ég uppskrift að sætkartöflusúpu með ristuðum graskersfræjum á matarblogginu. Ég fann hana á Sweet Paul vefnum en hún birtist einmitt í nettímaritinu þeirra, haustblaðinu 2013, sem er ókeypis. Vefurinn þeirra er einstaklega skemmtilegur fyrir ykkur sem hafið áhuga á matargerð.

mynd:
Lísa Hjalt