föstudagur, 23. desember 2016

Gleðilega hátíð



Við fjölskyldan höfum það notalegt í stofunni með arineld og þriðju Hringadróttinssögu-myndina í spilaranum á meðan vindurinn blæs úti. Hér norðar blæs stormurinn Barbara en við erum á svæði með gulri viðvörun og fáum bara hressilegan vind og rigningu. Veðrið skiptir annars litlu máli fyrir okkur því nú eru jólin að ganga í garð og við erum ekki að fara neitt. Næstu daga verður það bara góður matur, lestur og svefn. Ég byrja aðfangadagsmorgun á góðu kaffi áður en ég undirbý eftirrétt kvöldins, risalamande, eða möndlugraut, sem ég ber fram með heimagerðri kirsuberjasósu ... algjört lostæti! Um hádegisbilið fáum við okkur sænskt fléttubrauð og heitt súkkulaði á meðan hangikjötið er í pottinum. Ekta julehygge.

Ég óska ykkur, kæru blogglesendur, gleðilegrar hátíðar og gæfu á árinu 2017. Ég þakka fyrir heimsóknirnar á árinu sem er að líða, athugasemdirnar og að hafa líkað við myndir á öðrum samfélagsmiðlum.



mánudagur, 19. desember 2016

Ritdómur: Avid Reader eftir Robert Gottlieb

Ritdómur:  Avid Reader: A Life - æviminningar Robert Gottlieb · Lísa Stefan


Það er ástæða fyrir því að Beloved eftir Toni Morrison var ekki fyrsti hluti langrar skáldsögu og að þið lásuð Catch-22 eftir Joseph Heller í stað Catch-18. Ástæðan er ritstjórinn Robert Gottlieb, sem nýlega gaf út æviminningar sínar Avid Reader: A Life (Farrar, Straus and Giroux). Ævisögur eru oft uppfullar af nöfnum frægra en í hans tilviki eru það bókatitlar. Hvort það sé of mikið er umdeilanlegt. Hann segir sögu sína í gegnum vinnuna, hjá Simon & Schuster, Alfred A. Knopf og The New Yorker, og vegna allra bókatitlanna kann stíll hans í fyrstu að virðast skorta dýpt. Eftir því sem líður á lesturinn gengur þetta upp og gefur innsýn í útgáfuheim hans. Aðrar fjaðrir í hatt hans eru til dæmis rithöfundarnir Doris Lessing, John le Carré, John Cheever, Chaim Potok, Charles Portis, og í flokki óskáldaðs efnis, Jessica Mitford, Nora Ephron, Robert Caro, Lauren Bacall og Bill Clinton. Jafnvel Svínka. Þetta er maður sem elskaði starf sitt; ritstjórn var ástríða hans. Fyrir bókaunnendur, með áhuga á útgáfustarfsemi, er þetta bókin.


Árið 1955, eftir nám við Columbia og Cambridge, byrjaði hinn gífurlega vellesni Gottlieb, þá 24 ára, að vinna hjá Simon & Schuster bókaforlaginu, þar sem starf hans var svo til óskilgreint. Hann var í öllu: yfirlestri handrita, hönnun bókarkápu, ritstjórnarlegum ábendingum. Yfirmaður hans lést tveimur árum síðar og lykilstjórnendur yfirgáfu fyrirtækið. Skyndilega voru Gottlieb, Nina Bourne (þekkt auglýsingastýra; árið 1968 fylgdi hún honum til Knopf) og nokkrir aðrir við stjórn. Gottlieb, núna 84 ára, varð þungaviktarmaður í útgáfuheiminum, aðallega vegna þess að hann var réttur maður, á réttum stað, á réttum tíma og það vildi svo til að hann var góður ritstjóri. Í bókinni montar hann sig ekki, þó að hann hafi ríka ástæðu til.

Fyrir mig eru það hugsanir Gottliebs um samband ritstjóra og höfundar og hlutverk ritstjórans sem gera bókina góða. Doris Lessing var einn af S & S höfundunum sem hann átti í góðu sambandi við og hún fylgdi honum til Knopf. Þegar Gottlieb varð ritstjóri The New Yorker (árið 1987; því fylgdi drama þegar hann tók við af William Shawn) hélt Lessing áfram að sýna honum skrif sín. Hann varð „forviða“ þegar hún tjáði honum að hún væri „alltaf að leitast eftir viðurkenningu“ hans. Fyrr í textanum benti hann á að skáldsaga hennar The Golden Notebook „seldist innbundin í mjög fáum eintökum . . . [e]n þau voru réttu sexþúsund eintökin“ (bls. 136). Það sýnir að fyrir honum snerist starfið ekki um að gefa út metsölubækur heldur að ná til réttra lesenda. Síðan þá hefur bókinni auðvitað vegnað vel og Lessing hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2007. Hann minnir okkur á þegar hún fékk fregnirnar fyrir utan heimili sitt í London, „grumpily expressing her irritation at having her life interrupted this way“ (bls. 139). Ef þið hafið ekki séð stikluna flettið henni þá endilega upp á netinu. Hún hafði ekki hugmynd um út af hverju fréttamenn biðu hennar þegar hún kom heim eftir matarinnkaupin og viðbrögð hennar voru: „Oh Christ!“

Nokkrir bókatitlar sem Robert Gottlieb ritstýrði

Toni Morrison var enn annar rithöfundur hans sem hlaut Nóbelsverðlaunin, árið 1993, og þeirra faglega samband var gott. Innan um mikla velgengni voru að sjálfsögðu titlar sem gengu illa og ritstjórnarstarfið var ekki laust við slæma reynslu (honum líkaði illa við Roald Dahl (einnig starfsfólki Knopf) og fannst V.S. Naipaul, einnig Nóbelsskáld, vera „snobbaður“ en „frábær rithöfundur“). Sumir rithöfundar stukku frá borði (t.d. Salman Rushdie og Don DeLillo):
It's hard to convince a colleague (or oneself) that it's not personal—that a writer's chief concern is, and should be, protecting himself and his books as he thinks fit. If the editor and publisher don't provide that sense of security, they're not doing their job, which is first, last, and always a service job: What we're there for is to serve the writer and the book. That doesn't mean I haven't been stung when an author I valued moved on. (bls. 176)
Þegar Bill Clinton ákvað að skrifa æviminningar sínar valdi hann Gottlieb sem ritstjóra (hann var þá kominn aftur til Knopf eftir fimm ár hjá The New Yorker). Þið sem hafið lesið My Life  munið örugglega eftir öllum nafnaupptalningunum (tengdapabbi skilaði mér bókinni; gafst upp), en það dregur ekki úr þeirri staðreynd að bókin var vel skrifuð. Það lýsir ritstjórnarsambandi þeirra vel þegar Gottlieb skrifar út á spássíu: „This is the single most boring page I've ever read.“ Clinton sendir gögnin til baka og hefur bætt við: „No, page 511 is even more boring!“ (bls. 253 ).



Bók Gottlieb er ekki gallalaus. Talið um hann og fjölskyldu hans í fríum með, eða í náinni vináttu við, þennan höfundinn eða hinn samstarfsmanninn og fjölskyldur þeirra er of oft endurtekið, og nær þeim punkti að manni gæti ekki verið meira sama. Allavega mér. Það eru undantekningar; nokkrar kímnar sögur. Þegar Katherine Graham heitin var að skrifa sjálfsævisögu sína Personal History heimsótti hann hana til Washington til að lesa yfir og gisti á heimili hennar í Georgetown. „[O]ver the years we established an easygoing routine—breakfast, for instance, in slippers and dressing gowns at side-by-side tables in the library, with the Post waiting for her and the Times waiting for me“ (bls. 242). Bók hennar varð metsölubók og hlaut Pulitzer árið 1998.

Það er einnig kafli um dans sem ég hef mínar efasemdir um. Gottlieb, sem er mikill ballettunnandi, gerðist dansgagnrýnandi fyrir The New York Observer. Þeir sem fylgjast með dansheiminum í NY hafa örugglega gaman af þessum kafla en eina ástæðan fyrir því að ég tengdi við hann er sú að fyrir nokkrum árum síðan las ég báðar æviminningar ballerínunnar Gelsey Kirkland, Dancing on My Grave og The Shape of Love.


Gottlieb er ritstjóri sem sjálfur gerðist rithöfundur, en hann hafði engin plön um slíkt. Á meðal verka hans eru Collected Stories, sögusafn Rudyard Kipling (sem fékk Susan Sontag til að hrópa í bókabúð: „Bob, I didn't know you could write so well!“ (bls. 295)), Sarah: The Life of Sarah Bernhardt (fyrir Jewish Lives bókaseríu Yale University Press), George Balanchine: The Ballet Maker, Great Expectations: The Sons and Daughters of Charles Dickens og Reading Jazz.

Á meðan lestrinum stóð var ég stöðugt að spyrja sjálfa mig að því hvernig maðurinn hafði eiginlega tíma og orku fyrir allt sem honum varð úr hendi (stuðningur eiginkonu hans, leikkonunnar Maria Tucci, er án efa ein skýringin). Ég fann svarið í lokakaflanum:
Why, also, considering that my personality is so relentlessly ebullient, have I since childhood felt so melancholic, perhaps even depressive? I suspect that I've summoned up my hyper-energy to keep running fast enough to ward off that depressive tendency—the few times I brushed against the real thing were so distressing that it's no wonder I've done everything possible to avoid it. (bls. 311)
Hann var alinn upp á brotnu heimili - þau lásu við matarborðið í stað þess að tala saman - og virðist muna eftir barnæsku sinni í bókum. Snemma í bókinni viðurkennir hann að hann hafi verið í átta ár í sálgreiningu. Það var þá sem ég hugsaði, Ókei, hann hefur enga þörf fyrir að kafa djúpt í þessari bók. Hann er búinn. Ég er ekki að meina að bókin sé yfirborðskennd. Hann dvelur einfaldlega ekki við hlutina og fastheldni virðist ekki há honum. Það er líka ágætt að hafa í huga að hann hafði aldrei í hyggju að skrifa þessa bók. Hann gerði það bara fyrir dóttur sína (takk, Lizzie!) sem vildi að tvíburasynir sínir gætu kynnst ævistarfi afa gamla.

Það eru nokkrar vikur síðan ég lauk lestri Avid Reader: A Life og ég er enn með bókina í bunkanum sem ég tek með mér úr einu herbergi í annað. Ég er enn að fletta í gegnum hana og nóta hjá mér titla sem mig langar að lesa. Þetta er bók sem ég hafði virkilega gaman af. Ef ég á að gefa bókaunnendum ráð: hafið minnisbók við höndina því á meðan lestrinum stendur mun langar-að-lesa listinn ykkar verða enn lengri!

Avid Reader: A Life
Höf. Robert Gottlieb
Innbundin, 337 blaðsíður, myndskreytt
Farrar, Straus and Giroux



föstudagur, 9. desember 2016

№ 6 bókalisti | Bókmenntaleg póstkort

№ 6 bókalisti:  James Wood, Jun'ichirō Tanizaki, Karl Ove Knausgård ... · Lísa Stefan


Þegar finna má um þúsund bækur á óska- og langar-að-lesa-listanum þá er ekki auðvelt að forgangsraða þeim, en ég er alveg viss um að fyrstu tvær á listanum verði undir trénu þessi jól. Mig langaði að þakka einum bókabloggara fyrir að hafa mælt með bókinni eftir Carrión en glataði hlekknum þegar harði diskurinn minn hrundi fyrir nokkrum vikum síðan. Bókin er löng ritgerð um hvers vegna bókabúðir skipta máli og hann fer með lesandann á ferðalag um heiminn og heimsækir ýmsar bókabúðir, eins og Shakespeare & Company í París, Strand í NY og Librairie des Colonnes í Tangier, til að nefna nokkrar. James Wood er fastur penni og bókagagnrýnandi hjá The New Yorker og bókin hans er blanda æviminninga og gagnrýni. Hér er síðasti bókalistinn 2016:

1  Bookshops  · Jorge Carrión
2  The Nearest Thing to Life  · James Wood
3  The Makioka Sisters  · Jun'ichirō Tanizaki
4  The Noise of Time  · Julian Barnes
5  All We Shall Know  · Donal Ryan
6  A Man in Love: My Struggle 2  · Karl Ove Knausgård
7  Boyhood Island: My Struggle 3  · Karl Ove Knausgård
8  The Return: Fathers, Sons and the Land in Between  · Hisham Matar


Í minnisbókina var ég byrjuð að nóta hjá mér hugmyndir að japönskum bókalista til að deila síðar. Mig hefur lengi langað til að lesa bók Tanizaki og gat ekki beðið lengur þegar ég áttaði mig á því að ég gat pantað eintak á bókasafninu. Ég hef ekki lokið lestri á bókum Zadie Smith á síðasta bókalista en er þegar byrjuð að lesa Barnes og Ryan. Sá síðarnefndi er írskur höfundur sem ég uppgötvaði bara nýlega og mér líkar ritstíll hans. Ég er ansi spennt að halda áfram að lesa sjálfsævisögulegu skáldsögurnar hans Karl Ove Knausgård. Þegar ég kláraði fyrstu My Struggle bókina langaði mig að fara beint á bókasafnið að sækja þá næstu. Allt það jákvæða sem hefur verið sagt og skrifað um hana reyndist satt og ég held að næstu tvær standi undir væntingum mínum. Ég hlakka til að lesa The Return, æviminningar líbíska skáldsins Hisham Matar. Hann var bara nítján ára þegar föður hans var rænt í Líbíu, sem var þá undir stjórn Gaddafi, og það er líklegt að hann hafi dáið í fangelsi í Trípólí. Fyrir mörgum árum síðan las ég fyrstu skáldsögu Matar, In the Country of Men (Í landi karlmanna í ísl. þýð.). Ég man ekki lengur smáatriðin en man að hún hróflaði við mér.


„Give me books, fruit, French wine, fine weather and a little music.“ Þessar línur frá John Keats eru á póstkorti hérna á borðinu. Það er hannað af Obvious State, stúdíói í New York sem hannar pappírsvörur og aðra muni fyrir hina bókmenntahneigðu. Ertu að leita að jólagjöf fyrir bókaunnandann? Leitinni lýkur í vefverslun þeirra þar sem má finna minnisbækur, bókamerki, taupoka og fleira. Þau gefa núna sérstakan hátíðarafslátt. Ég fékk send fjögur póstkort sem voru óvænt gjöf, þakklætisvottur fyrir það að hafa bætt #osfall myllumerkinu þeirra við eina bókamynd á @lisastefanat.
Leskrókurinn í borðstofunni · Lísa Stefan


Mér finnst gaman að tengjast lesendum bloggsins og það er skemmtilegt að fá tölvupóst frá ókunnugu fólki sem hefur kannski verið hrifið af bók sem ég deildi. Síðan ég fór að birta bókalistana hef ég fengið nokkra tölvupósta með spurningum eins og: Líkaði þér þessi bók? Ætlarðu að fjalla um þessa? Í svörum mínum bendi ég á þetta: Bókalistarnir er aðallega á blogginu vegna þess að ég er mikil bókakona og er bara að gefa fólki hugmyndir að lesefni. Það stendur ekki til að skrifa ritdóm um hverja bók á bókalistunum. Greinilega eru sumir lesendur forvitnir eða hafa áhuga á að vita hvað mér finnst þannig að héðan í frá er hugmyndin sú að skrifa kannski nokkrar línur í athugasemdakerfi hverrar bókalistafærslu, eftir að hafa klárað allt á listanum. Ég ætla að hugsa þetta aðeins.

Ég hef notið þess að lesa bækurnar á listum þessa árs með örfáum undantekningum. Kannski mun ég koma þeim hugsunum í orð í sér færslu. Leyfið mér að hugsa það líka.

Einn lesandi spurði mig hvaða leskrókur væri í uppáhaldi. Ég á nokkra en þessa dagana hef ég aðallega verið að lesa í borðstofunni á meðan ég nýt langs hádegisverðar. Ég smellti mynd af algengri sýn: Á þeim degi var það pasta, í dag var það hummus og pítubrauð.



þriðjudagur, 29. nóvember 2016

Kaffistund í kyrrð

Kaffistund · Lísa Stefan


Í dag þurfti ég á kaffistund í kyrrð að halda með bókum og minnisbókum. Um leið og ég hafði tekið ljósmyndina kom persneski prinsinn minn niður og sofnaði á borðinu, upp við bókabunkann. Hann hrýtur núna. Líður einhverjum öðrum þannig að síðustu daga hafi þeir orðið fyrir auglýsingavæddri sprengjuárás? Ég er að tala um endalaust magn af „Black Friday“ og „Cyber Monday“ tölvupóstum í pósthólfinu, oft fleiri en einn frá sama fyrirtækinu á innan við sólarhring. Nú er nóg komið! Í morgun smellti ég miskunnarlaust á „segja upp áskrift“-hnappinn og hélt bara inni fréttabréfum sem tengjast bókum og textíl.

Sáuð þið Little Women teikninguna á Google í dag? Rithöfundurinn Louisa May Alcott fæddist á þessum degi, einnig C.S. Lewis. Ég hef hugsað um kvikmyndina (1994) í allan dag. Winona Ryder smellpassaði í hlutverk Jo March og ég hef alltaf verið svolítið skotin í Gabriel Byrne sem lék prófessor Bhaer. Það eru mörg ár síðan ég las bókina. Ef ég eignaðist innbundna Penguin-útgáfu myndi ég lesa hana aftur. Talandi um bækur. Fljótlega ætla ég að birta ritdóm minn um Avid Reader: A Life eftir ritstjórann Robert Gottlieb. Bókin var sú síðasta á „Booktober“ bókalistanum (№ 5) en sú fyrsta á honum sem ég kláraði að lesa því ég virkilega naut lestursins.



þriðjudagur, 22. nóvember 2016

Pizzasnúðar (gerlausir)

Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Stefan


Eruð þið tilbúin fyrir veturinn eða viljið þið leggjast í vetrardvala eins og birnir? Vetrardagarnir eru mun dimmari á Fróni og ég þekki nokkra sem glíma við skammdegisþunglyndi, sem betur fer ekki alvarlegt, ekkert sem má ekki tækla með D-vítamíni og enn þá meiri kósíheitum heima fyrir. Kertaljós, heitt súkkulaði og hlýir sokkar ná oft að fleyta manni langt. Hýasintur líka! Þetta er tíminn til að dreifa vösum með hýasintulaukum um heimilið. Veðrið hér á vesturströnd Skotlands er orðið kaldara en við erum ekki alveg komin yfir þröskuldinn og inn í veturinn. Ég tækla kuldann með hlýrri peysu og comfort food, sérstaklega baunaréttum eða nýbökuðu brauði eða bollum. Hlý eldhús með himneskum ilmi eru best á veturna, sem er ástæða þess að ég tók á móti börnunum eftir skóla í gær með heimabökuðum pizzasnúðum. Uppskriftin kemur úr Antwerpenflokknum mínum og kallar fram góðar minningar.

Pizzasnúðar á leið í ofninn · Lísa Stefan
Pizzasnúðar á leiðinni í ofninn

Áður en við bökum pizzasnúðana langar mig að minnast aðeins á (vínsteins)lyftiduft: Enginn á okkar heimili er með ofnæmi en í allar mínar uppskriftir nota ég glútenlaust lyftiduft frá Doves Farm. Þau borga mér ekki fyrir að auglýsa það, það er einfaldlega í uppáhaldi. Nýlega prófaði ég annað merki, einnig glútenlaust, en það gaf pizzasnúðunum smá eftirbragð sem mér líkaði ekki. Ástæða þess að ég nota aldrei hefðbundið lyftiduft er að mér finnst það alltaf gefa truflandi eftirbragð (notið a.m.k. helmingi minna í uppskriftina ef þið notið hefðbundið).

Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Stefan
Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Hjalt
Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Hjalt


Við bjuggum í Antwerpen þegar ég setti saman þessa uppskrift að mjúkum pizzasnúðum og fyrir einhverja ástæðu hef ég aldrei deilt henni hér. Persónulega er ég ekki mikið fyrir pizzasnúða (ég og sonurinn viljum bara pizzu) en dæturnar elska þessa heimagerðu. Snúðarnir eru frábært snakk eftir skóla, sérstaklega á köldum dögum, nýbakaðir úr ofninum. Í deigið nota ég fínt spelti en það má aðlaga uppskriftina að grófu (lífrænt hveiti er líka í góðu lagi). Saltmagnið veltur á því hversu söltuð pizzasósan ykkar er: Mín er það ekki, inniheldur bara ¼ teskeið. Ef sósan ykkar er vel söltuð þá myndi ég nota minna salt í deigið. Þið getið líka bætt út í sósuna ykkar smá hrásykri, eða sett smá í deigið. Stundum skipti ég út 2-3 matskeiðum af spelti fyrir semólína eða pólenta (gróft maísmjöl). Snúðana má gera vegan með sojajógúrt og vegan osti.

PIZZASNÚÐAR (GERLAUSIR)

gerir 20
435 g fínt spelti
1½ matskeið vínsteinslyftiduft
1 teskeið (eða minna) fínt sjávar/Himalayasalt
75 ml hrein jógúrt (5 matskeiðar)
1 matskeið létt ólífuolía
150-175 ml volgt vatn
3½-4 matskeiðar pizzasósa
100 g ostur, rifinn
má sleppa: parmesanostur og þurrt óreganó/ítölsk kryddblanda

Útbúið pizzasósu ef þið eigið ekki afgang í kæli. Hér er mín uppskrift að pizzasósu.

Blandið þurrefnunum saman í stórri skál (sjá punkta um lyftiduft hér að ofan). Myndið holu í miðjuna og hellið jógúrt, olíu og vatni ofan í (byrjið með 150 ml). Blandið saman með sleif og hnoðið svo deigið í höndunum á meðan það er enn í skálinni bara til að fá tilfinningu fyrir áferðinni. Deigið á ekki að vera klístrað þannig að ef það er of blautt þá sigtið þið smá mjöli yfir og hnoðið áfram.

Stráið spelti á borðplötu og hnoðið deigið aðeins í höndunum. Takið því næst kökukefli og fletjið deigið út. Leitist við að mynda ferning sem er ca. 37 cm (ég vil hafa snúðana þykka þannig að ég mynda ferning í stað ílangs ferhyrnings).

Dreifið pizzasósunni jafnt yfir útflatt deigið og stráið svo ostinum jafnt yfir. Því næst parmesanosti og kryddjurtum, ef notað. Rúllið upp deiginu nokkuð þétt. Skerið lengjuna í tvennt og svo hvora lengju í 10 sneiðar. Klæðið ca. 35 x 25 cm form/eldfast mót með bökunarpappír. Raðið snúðunum í fimm raðir með fjórum snúðum í hverri.

Bakið pizzasnúðana við 220°C (200°C á blæstri) í 13-15 mínútur. Kælið á grind í smá stund áður en þið berið þá fram.