þriðjudagur, 14. janúar 2014

Innlit: lúxus og bóhemískur stíll á grísku eyjunni Mykonos



Innlitið að þessu sinni er strandhótelið San Giorgio á grísku eyjunni Mykonos þar sem lúxus og bóhemstíll mætast. Í boði eru 33 herbergi þar sem hvítir veggir, húsgögn úr hráu timbri, bastkörfur og -mottur ásamt fallegum textíl leika lykilhlutverk. Hvað þarf maður meira þegar gríska Eyjahafið í allri sinni dýrð er innan seilingar?


myndir:
San Giorgio af vefsíðu Est Magazine

þriðjudagur, 7. janúar 2014

Rýmið 48



Stundum vildi ég að ég byggi í Ástralíu svo ég gæti skotist út í búð og gripið eintak af Vogue Living þegar mér hentar. Ég hef séð myndir úr hinum ýmsu umfjöllunum í blaðinu og allar eiga þær það sameiginlegt að vera smekklegar. Því miður veit ég engin nánari deili á þessu eldhúsi því ég hef bara þessa einu mynd. Mér þykir líklegt að þetta sé umfjöllun um sumarbústað eða sveitabæ, en það sem vakti áhuga minn voru fallegu hvítu og bláu eldhúsmunirnir. Ég er alltaf svolítið veik fyrir svona mynstrum og mig dauðlangar í þessar könnur þarna í efstu hillunni. Ég verð að finna flóamarkað fljótlega og sjá hvort ég hafi heppnina með mér.

mynd:
Jonny Valiant fyrir Vogue Living af Pinterest

mánudagur, 6. janúar 2014

Innlit: norskur fjallakofi í Geilo



Þessi póstur er tileinkaður þolinmóða eiginmanninum sem uppbót fyrir þær stundir sem ég er upptekin að sækja mér innblástur á netinu og veiti honum litla athygli. Norskir fjallakofar höfða sterkt til hans og þegar við bjuggum á Íslandi þá keypti hann oft eitthvað norskt fjallakofatímarit. Timbrið og handverkið heillaði hann. Þessi tiltekni kofi er í Geilo, sem er þekkt úitvistarsvæði í Noregi með skíðavæðum (liggur svo til mitt á milli Osló og Bergen ef maður lítur aðeins norðar á kortið), og eins og sést er búið að taka hann allan í gegn. Án þess að vilja hljóma neikvæð þá er ég persónulega ekki hrifin af skrautmáluðum við en norskara gerist það varla. Mér finnst annars antíkgræni liturinn í leskróknum afskaplega fallegur og hlýlegur.


myndir:
Anette Nordstrøm fyrir Interiør Magasinet