föstudagur, 9. maí 2014

Línvörur í Merci í París


Í stað þess að óska ykkur góðrar helgar með föstudagsblómum birti ég færslu í náttúruleg efni seríunni. Síðasta föstudag vorum við að dást að kirsuberjatrjám í París og því er eðal að halda þangað aftur. Ég vildi stundum að ég byggi í París bara svo ég gæti verslað borðbúnað hvenær sem mér hentaði í Merci, yndislegu concept-búðinni á Boulevard Beaumarchais í 3. hverfi, (muniði eftir þessari færslu?). Þau eru með netverslun en það er allt önnur stemning að rölta um búðina og snerta efnin. Ég er svo hrifin af línvörunum þeirra og hef sett margar á óskalistann. Ef þið eruð að leita að náttúrlegum efnum fyrir heimilið þá er Merci rétta verslunin.

Tauservíettur, 100% lín, blá (French blue) + fölbleik (blush pink)

Ég á nokkrar tauservíettur frá Merci í hlutlausum tónum. Þær eru framleiddar úr þvegnu líni og eru náttúrulega krumpaðar í útliti. Fyrir sumarið langar mig í liti eins og bláan (French blue), mjög ljósbláan tón (blue lagoon), fölbleikan (blush pink), og jafnvel skærbleikan (bright pink), sem lítur út fyrir að vera kóralrauður.


Síðasta sumar eyðilagðist því miður uppáhaldsborðdúkurinn minn, bómull-lín blanda í blá-gráum lit, þegar vax frá flugnafælukerti helltist niður á hann. Ég keypti hann þegar við bjuggum í Antwerpen og hef ekki fundið þennan sama lit hér í Englandi. Ég man þegar ég skoðaði dúkana í Merci hvað ég varð hrifin af gráa litnum (graphite grey) og beinhvíta (off-white). Ég er líka svolítið skotin í fjólubláa (violet) dúknum.

Svuntur með rönd, 100% lín, kóralrauð (light coral) + dökkblá (dark navy blue)

Önnur vara frá Merci sem mig langar í er svunta með rönd í svo til hvaða lit sem er. Þær eru einnig úr þvegnu líni sem er náttúrlega krumpað. Svunturnar eru fáanlegar í einni stærð og maður getur notað hálsbandið eða brotið þær saman og bundið um mittið.


myndir:
Merci

miðvikudagur, 7. maí 2014

Rýmið 63



Falleg stofa á Spáni þar sem hlutlausir litir á veggjum og húsgögnum eru brotnir upp með hlýjum gulum og rauðum tónum. Eins og sést er lofthæðin mikil og náttúrleg birta streymir auðveldlega inn í húsið.

mynd:
El Mueble

þriðjudagur, 6. maí 2014

Fyrir heimilið: Toast vor 2014



Í hverjum mánuði kemur nýr bæklingur frá Toast með alls kyns munum fyrir heimilið og yfirleitt er stíliseringin mjög flott. Þetta er sá nýjasti, fyrir apríl. Gallinn við þá er að mér tekst alltaf að lengja hjá mér óskalistann, en sem betur fer er ég laus við þá þörf að þurfa að eignast allt sem lendir á honum. Stundum er nefnilega í góðu lagi að láta sig dreyma … þar til næsti bæklingur kemur.


myndir:
Toast, apríl 2014 bæklingur

föstudagur, 2. maí 2014

Góða helgi



Þessa mynd (og fleiri) tók kær bloggvinkona mín og ljósmyndari, Georgianna Lane, í París nú í vor. Stundum vildi ég óska að þessi blóm kirsuberjatránna stöldruðu við aðeins lengur.

mynd:
Georgianna Lane

fimmtudagur, 1. maí 2014

Notaður batik-vefnaður úr indígó



Í síðastu færslu í seríunni náttúruleg efni fjallaði ég um malíska textílhönnuðinn Aboubakar Fofana, umhverfisvæna framleiðlu hans og jurtalitun með indígó. Ég hef verið haldin nettu indígóæði og í möppum mínum er að finna nóg af efni, eins og þennan notaða etníska vefnað sem Clubcu selur. Fyrirtækið sérhæfir sig í hvers kyns endurunnum efnum og notuðum hlutum. Það eru smáatriðin í mynstri textílsins sem heilla mig; þetta er batik-vefnaður sem er litaður með indígó.

Jurtalitun með batik-aðferð fer þannig fram að vax er notað til þess að búa til mynstur. Það er borið á hluta efnisins sem ekki á að jurtalita. Ferlið má endurtaka en endanlega er vaxið fjarlægt og þá er varan tilbúin. Þessi forna hefð á uppruna sinn á eyjunni Jövu í Indónesíu.


Ástæða þess að mig langaði að halda áfram að fjalla um indígó er sennilega sú að benda á hið augljósa, að það sé engin ástæða til þess að nota ekki liti þegar kemur að því að skapa heimili með náttúrlegum stíl. Hlutlausir tónar einkenna gjarnan stíl slíkra heimila. Það er stíll sem ég er að vísu hrifin af svo lengi sem notaður er viður, vefnaður og skrautmunir með ólíkri áferð, sem gerir stílinn áhugaverðan. Notkun textíls er leið til þess að gera náttúruleg heimili litríkari, við þurfum bara að gæta að því að nota umhverfisvæn efni, úr t.d. bómull, líni og ull, sem eru jurtalituð án kemískra efna sem skaða umhverfið.



Ég minntist á bók um indígó í fyrrnefndri bloggfærslu og það eru tvær aðrar bækur sem mig langar að benda ykkur á: Indigo: Egyptian Mummies to Blue Jeans eftir Jenny Balfour-Paul og Indigo: The Colour that Changed the World eftir Catherine Legrand. Þær eru án efa innblástur fyrir þá sem vilja skreyta náttúrleg heimili sín með jurtalituðum indígótextíl.


myndir:
Clubcu