sunnudagur, 27. desember 2020

Philip Roth: The Biography · Blake Bailey

Kápa bókarinnar Philip Roth: The Biography eftir Blake Bailey · Lísa Hjalt


Það verður sannkallað Roth-vor á næsta ári því þá kemur í bókaverslanir Philip Roth: The Biography eftir Blake Bailey, gefin út af W. W. Norton & Co. Ég hef beðið eftir þessari opinberu ævisögu í nokkur ár, síðan ég sá Philip Roth Unleashed (2014), heimildarmynd í tveimur hlutum, í BBC-seríunni Imagine. Bailey var einn margra viðmælenda og ræddi ævisöguskrifin; Roth valdi hann sérstaklega til verksins og lét Bailey í hendur alla þá pappíra sem hann þurfti. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar ég sá bókarkápuna í sumar því þá vissi ég að biðin eftir bókinni væri að styttast.
Kápumynd: Bob Peterson, 1968

Philip Roth: The Biography
Höf. Blake Bailey
Innbundin, 880 blaðsíður
ISBN: 9780393240726
W. W. Norton & Company



fimmtudagur, 17. desember 2020

Lestrarkompan: Mendelsohn og Gornick

Three Rings eftir Daniel Mendelsohn, úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Ég er komin í jólafrí og þessa dagana fylgir mér vænn bunki af bókum. Ekki að ég þurfi að bera þær langar leiðir því hér í Austurríki er allt lokað vegna kófsins. Sumar voru á síðasta bókalista, sem ég á eftir að klára, aðrar eru nýjar sem munu rata á næstu tvo lista. Á mánudaginn barst í hús Three Rings: A Tale of Exile, Narrative, and Fate eftir Daniel Mendelsohn, sem er rithöfundur, gagnrýnandi og prófessor í klassískum fræðum. Bókin átti að fara undir tréð í ár, jólagjöf frá mér til mín, en ég gat ekki lagt hana frá mér þegar ég byrjaði að lesa hana í kaffipásu. Hún er stutt og inniheldur þrjár ritgerðir sem eru áhugaverð blanda af ævisögulegum skrifum, sögu og bókmenntarýni, sem tengjast höfundunum Erich Auerbach, François Fénelon og W. G. Sebald. Ef þið hafið gaman af bókum um bækur þá gæti þessi höfðað til ykkar.

Önnur bók í bunkanum er ritgerðasafn eftir Vivian Gornick, Approaching Eye Level. Mín fyrsta bók eftir hana og ekki sú síðasta. Hún rennur vel niður með kaffi og biscotti eins og ég spáði fyrir í síðustu bloggfærslu.
Vivian Gornick & kaffi; úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Í Lestrarkompunni hef ég fjallað um bækur af tilteknum bókalista en fann fyrir einhverju síðan að mig langaði að breyta til, að hafa hana tilviljanakenndari og í takt við líðandi stund. Mig vantaði líka færsluflokk til að halda til haga bókatengdum krækjum. Ég nefndi það einu sinni að það hefði aldrei verið hugmyndin að tjá mig um allar bækurnar á bókalistunum. Ég er vandlát á bækur og verð sjaldan fyrir vonbrigðum með þær sem rata á þá. Stundum þegar ég er mjög ánægð með bók þá langar mig bara að skrifa, Þetta er frábær bók, og ekkert meir. En það kallar varla á færslu; þá henta Instagram eða Twitter betur.
Bækur & kaffi; úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Bókamerki & kompuskrif

Nýlega keypti ég:
  Suppose a Sentence eftir Brian Dillon
  The Rings of Saturn eftir W. G. Sebald

... bætti á óskalistann:
  The Krull House eftir Georges Simenon

... forgangsraðaði á langar-að-lesa listunum:
  skáldskapur: Oresteia: Agamemnon. Libation-Bearers. Eumenides eftir Æskílos
  óskáldað efni: Trieste eftir Jan Morris

Bókakæti:
  Þegar Margaret Busby, formaður dómnefndar Booker-verðlaunanna árið 2020, tilkynnti að skáldsagan Shuggie Bain hefði unnið og höfundur hennar Douglas Stuart þakkaði fyrir sig á tilfinningaríkan hátt. Ég rak upp gleðiöskur þegar hann vann þrátt fyrir að hafa ekki lesið þessa frumraun hans. Ég vonaði að hann myndi vinna en var hrædd um að það ynni gegn honum að vera hvítur karlmaður.

Hljóðvarpsþættir sem ég mæli með:
  Aftur að Shuggie Bain: Sam Leith, ritstjóri bókaumfjöllunar hjá The Spectator, talaði nýlega við höfundinn Douglas Stuart á hlaðvarpinu þeirra, The Book Club.
  Og hér talar Leith við Natalie Haynes um konur í grískri goðafræði.
  Í samræðum við Eleanor Wachtel hjá Writers & Company, talaði Martin Amis um bókmenntir, ástir og missi. Virkilega einlægur og hreinskilinn Amis.
  Ég kættist þegar ég sá að Stig Abell, fyrrverandi ritstjóri TLS, var kominn með með nýtt hlaðvarp sem kallast Stig Abell's Guide to Reading. (TLS-hlaðvarpið er ekki hið sama án hans.) Nýja hlaðvarpið tengist nýútgefinni bók hans, Things I Learned on the 6.28: A Guide to Daily Reading. Þessir tveir þættir eru mínir uppáhalds hingað til: Modern Literary Fiction með Kit de Waal og English Classics með Sam Leith, áðurnefndum ritstjóra.



laugardagur, 3. október 2020

Approaching Eye Level · Vivian Gornick

Bókarkápa: Approaching Eye Level eftir Vivian Gornick (Daunt Books)


Ritgerðasafnið Approaching Eye Level eftir Vivian Gornick kom fyrst út árið 1996 en þessi tiltekna útgáfa er bresk, gefin út af Daunt Books í ágúst á þessu ári. Gornick er einn af þessum höfundum sem ég hef fylgst með lengi en aldrei lesið. Einn daginn hyggst ég bæta úr því og sé þegar fyrir mér vænan bunka af bókum hennar sem ratað hafa á óskalistann: Unfinished Business: Notes of a Chronic Re-Reader kom út í fyrra og fjallar um endurlestur bóka, ritgerðasafnið The End of the Novel of Love og tvær endurminningarnar, Fierce Attachments og The Odd Woman and the City. Latte, biscotti og Gornick ... það hlýtur að vera góð blanda.

Approaching Eye Level
Höf. Vivian Gornick
Kiljubrot, 176 blaðsíður
ISBN: 9781911547648
Daunt Books



laugardagur, 29. ágúst 2020

№ 24 bókalisti: endurlestur klassískra bóka

№ 24 bókalistinn minn; klassísk verk endurlesin · Lísa Stefan


Jæja, þá er haustönnin að byrja og best að deila þessum bókalista áður en verkefnaskil hefjast. Endurlestur klassískra verka einkennir listann en í byrjun sumars, þegar lítið var hægt að gera sökum heimsfaraldurs, fann ég löngun til að lesa ákveðnar bækur aftur. Ég er búin að lesa sjálfsævisögu Ednu O'Brien, Country Girl, og mæli með henni. Hún segir svo skemmtilega frá. Frásögnin kemst á flug þegar hún yfirgefur Írland og segir frá lífinu í London á 7. áratugnum; þegar hún ræðir bókmenntir og ritstörf. Ég átti oft erfitt með að leggja bókina frá mér.

№ 24 bókalisti:

1  Country Girl · Edna O'Brien
2  Lee Krasner: A Biography · Gail Levin
3  Museum Activism · ritstj. Robert R. Janes og Richard Sandell
4  The Varieties of Religious Experience · William James
5  One Hundred Years of Solitude · Gabriel García Márquez *
6  Crime and Punishment · Fyodor Dostoevsky * [hljóðbók]
7  War and Peace · Leo Tolstoy *
8  Sense and Sensibility · Jane Austen *
9  Sjálfstætt fólk · Halldór Kiljan Laxness * [RÚV]

* Endurlestur

Þessa dagana er Stríð og friður á náttborðinu. Ég skil ekki fólk sem kvartar yfir lengd bókarinnar, kaflarnir eru stuttir og mig langar alltaf að lesa „bara einn til viðbótar“. Tvímælalaust ein af mínum uppáhalds. Fyrir þennan endurlestur á Glæp og refsingu valdi ég hljóðbók, mína fyrstu. Ég virkilega naut þess að rifja upp þessa sögu með svona líka vönduðum upplestri. Þessi ánægjulega reynsla af hljóðbók varð til þess að ég hlustaði á Arnar Jónsson leikara lesa Sjálfstætt fólk eftir Nóbelsskáldið á vef RÚV og þá varð ekki aftur snúið. Laxness fór á listann.

Að öðru Nóbelsskáldi: Í sumar gaf elsta dóttirin mér í afmælisgjöf þessa fallegu innbundnu útgáfu af bók Márquez. Fyrir nokkrum árum ákvað ég að endurlesa verk hans Ástin á tímum kólerunnar og fékk strax góða tilfinningu. En eftir um 150 blaðsíður missti ég áhugann. Ég hafði greinilega breyst sem lesandi og sagan höfðaði ekki lengur til mín. Ég hafði smá áhyggjur af því að það yrði eins með Hundrað ára einsemd en svo var sem betur fer ekki.

Mig langar að minnast á bókina eftir William James (eldri bróðir Henrys). Ég vissi ekkert um hana fyrr en ég hlustaði á skemmtilegan þátt á bókahlaðvarpinu The Backlisted Podcast. John Williams hjá The New York Times Book Review var í spjalli hjá þeim um þessa bók, sem er röð fyrirlestra sem James hélt í Edinborgarháskóla árin 1901 og 1902. Þetta er áhugaverð bók, kannski eilítið þurr í byrjun sem lagast í þriðja kafla.

Ég vil þakka bókaútgáfunni Routledge fyrir safnafræðibókina á listanum, sem snýst um þá hugmynd að aðgerðastefna geti verið hluti af safnastarfi. Í bókinni eru 33 greinar eftir fleiri en 50 sérfræðinga á sviði safnafræðinnar. Ritstjórarnir tveir skrifa inngang en ég hef kynnst rannsóknum þeirra beggja í gegnum námið mitt; í einum kúrsi lásum við einmitt fræðigrein úr þessari tilteknu bók.

Museum Activism, gefin út af Routledge · Lísa Stefan
Museum Activism, published by Routledge / @lisastefanat

Þessa dagana nýt ég þess annars að fylgjast með Edinburgh International Book Festival. Þessi árlega, alþjóðlega bókmenntahátíð fer fram á netinu í ár sökum faraldursins og er öllum aðgengileg. Þvílík veisla fyrir bókaunnendur! Margar bækur hafa bæst á langar-að-lesa listann góða og ég er einkum spennt fyrir Shuggie Bain eftir hinn skoska Douglas Stuart. Þessi fyrsta skáldsaga hans komst á forvalslista Booker-verðlaunanna í ár. Það kemur í ljós um miðjan september hvort hún komist á lokalistann. Í upphafi hátíðarinnar spjallaði áðurnefndur John Williams við Stuart og aðra höfunda fyrir The New York Times Book Review og nú í vikunni var annar viðburður þar sem Stuart sat einn fyrir svörum. Virkilega einlægur rithöfundur sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.