mánudagur, 10. febrúar 2014

Innlit: hvítt og náttúrulegt í Lombardia á Ítalíu



Þetta fallega heimili er í eigu þýsks hönnuðar og listakonu að nafni Katrin Arens, sem gerði það upp. Upphaflega var húsið mylluhús sem síðar var breytt í klaustur og það var svo Arens sem breytti því í heimili og vinnustofu. Húsið stendur á landareign í Lombardia á Ítalíu (stutt frá Mílanó) og eins og sést á myndunum sem teknar eru utandyra þá er náttúrufegurð allt um kring. Á ensku útgáfu bloggsins í dag var ég með innlit á sama heimili en þær myndir komu úr annarri átt og sýndu aðra vinkla (fyrir nokkrum árum póstaði ég enn öðru innliti í sama hús - sjá hér). Það er hrái stíllinn á öllu sem heillar mig - allur þessi grófi viður er svo skemmtilegur - og náttúrulegu heimilimunirnir gera heimilið enn persónulegra. Arens sjálf hannaði flest öll húsgögnin og þið getið skoðað fleiri á heimasíðu hennar.


myndir:
Jordi Canosa fyrir Habitania af blogginu French By Design

fimmtudagur, 6. febrúar 2014

Georgia O'Keeffe innblásið borðhald



Fyrir ykkur sem lesið ensku útgáfu bloggsins þá ætti þessi póstur ekki að koma á óvart. Í fyrradag deildi ég tískuþætti innblásnum af Georgia O'Keeffe og í dag innliti í hús listakonunnar í Abiquiu í New Mexico, en því hefur verið haldið við síðan hún lést árið 1986. Mig langaði til að vera með eitthvað tengt Georgia O'Keeffe á íslenska blogginu líka og mundi þá eftir myndaþættinum „South by Southwest“ sem birtist í tímaritinu Gourmet fyrir nokkrum árum síðan. Stílisering var í höndum Ruth Cousineau og ljósmyndarinn Mikkel Vang festi herlegheitin á filmu. Hrái stíllinn og hlutlausu tónarnir í bland við þá bláu eru mér að skapi. Hauskúpur dýrana gætu ekki verið meira O'Keeffe. Þær voru innblástur að mörgum verka hennar, en hún safnaði þeim ásamt beinum og steinum í göngutúrum sínum í stórbrotinni náttúru New Mexico.


myndir:
Mikkel Vang fyrir Gourmet | stílisering: Ruth Cousineau af blogginu One Part Gypsy

miðvikudagur, 5. febrúar 2014

Rýmið 52



Ég vildi að ég gæti sagt ykkur nánar frá þessu baðherbergi en því miður veit ég ekkert um það nema það litla sem birtist í myndatextanum. Mig langar í þessa þykku eikarplötu!

mynd:
Elle Decor Italia, apríl 2011 af Tumblr

þriðjudagur, 4. febrúar 2014

Veggvasi frá Herman Cph


Velkomin á nýja seríu á blogginu þar sem ég kem til með að einblína á hvers kyns muni fyrir heimilið sem eru framleiddir úr náttúrulegum efnum. Ég hef safnað efni í töluverðan tíma og nýja serían verður blanda af heimilismunum, ráðum um stíliseringu, stuttum viðtölum við hönnuði (ég er þegar með þrjá í takinu) og bókaumfjöllunum, til að gefa ykkur einhverjar hugmyndir um það sem koma skal. Skandinavísk hönnun er mér að skapi og það er ánægjulegt að hefja seríuna með veggvasa (wall pocket) frá Herman Cph, sem er danskt hönnunarfyrirtæki með aðsetur í Frederiksberg í Kaupmannahöfn. Hugmyndafræði þeirra er mér að skapi.


Veggvasinn er stílhrein lausn til að koma í veg fyrir uppsöfnun hluta á heimilinu eða til að geyma muni sem eiga ekki að vera sýnilegir. Vasinn er gerður úr húsgagnaáklæði (60% bómull og 40% lín) og hefur leðuról með koparhnöppum. Hann er festur á vegg með viðarbita úr eik og skrúfum (áklæðið felur skrúfurnar sem fylgja með).
breidd 36 cm x hæð 47 cm

Veggvasinn er frábær lausn fyrir þröng eða lítil rými þar veggpláss fyrir hillur er takmarkað. Minn áhugi á vasanum vaknaði með nýju forstofunni okkar. Hún er sæmilega rúmgóð en frá henni er gengið inn í önnur rými hússins og beggja megin við útidyrahurðina eru gluggar. Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir fataskáp, bara fatastandi. Ég sé veggvasann fyrir mér á einum vegg til að geyma vettlinga og aðra aukahluti. Yngri dóttirin spurði hvort hún mætti raða mörgum veggvösum á vegg í sínu herbergi undir alla bangsana. Mér finnst sú hugmynd að vísu frábær en miðað við hvað hún á marga þá þarf ég að byrja að leggja til hliðar.


HUGMYNDAFRÆÐI HERMAN CPH
Við höfum þá sýn að hanna og framleiða einföld gæðahúsgögn og fylgja hönnuninni eftir frá teikniborðinu til fullunninnar vöru.
Hjá Herman Cph eru þau bæði hönnuðir og framleiðendur vörunnar; ferlið hefst á vinnustofu þeirra í Frederiksberg. Framleiðslan sjálf er í samvinnu við danska undirverktaka en þau hjá Herman Cph hafa yfirumsjón með öllu, alveg niður í minnstu smáatriði. Hugmyndafræði þeirra endurspeglast í fallegu handbragðinu.

Herman Cph | Rahbeks Allé 6, 1801 Frederiksberg, Danmörk
Sími: +45 26 22 21 54 | Netfang: jonas@hermancph.dk

myndir:
Herman Cph

mánudagur, 3. febrúar 2014

Innlit: hlýlegur og hrár stíll í Toscana-héraði



Innlitið að þessu sinni er hlýlegt sveitasetur, La Convertoie, í Toscana-héraði á Ítalíu sem birtist í tímaritinu Architectural Digest í mars árið 2010. Það samanstendur af húseign og fornri kirkju sem eiga rætur að rekja til 11. aldar. Setrið er í 3ja kílómetra fjarlægð frá bænum Greve In Chianti (það eru ca. 26 km til Flórens og 40 km til Siena). Núverandi eigendur keyptu eignirnar og fengu ítalska arkitektinn Marco Videtto til þess að sameina þær í eina stóra eign. Innanhússhönnun var í höndum Susan Schuyler Smith. Ég rakst fyrst á myndina af bókaherberginu á netinu og vildi endilega sjá restina af húsinu. Ég sleppti því að birta hér myndirnar af stofunni því hún höfðaði ekki til mín (þið getið skoðað hana með því að smella á tengilinn neðst í færslunni).


Útlitið í eldhúsinu gerist varla ítalskara; viðarbitar í lofti og terracotta-flísar á gólfinu. Arinninn er frá miðri 19. öld og fékk að halda sér.

Eins og sjá má er veröndin hin glæsilegasta í einfaldleika sínum og terracotta-blómakerin setja svip sinn á hana. Útsýnið hlýtur að vera dásamlegt, eins og neðsta myndin gefur til kynna. Það var landslagsarkitektinn Nancy Leszczynski sem sá um verkið. Hún lét planta ýmsum plöntum og jurtum, m.a. salvíu, rósmaríni og granateplatré.



Hér má sjá setrið, þ.e. gömlu kirkjuna og húsið sem voru sameinuð, úr fjarlægð.


Ég komst að því að hluti hússins er dvalarstaður sem hægt er að taka á leigu því ég fann tengil á þetta sama sveitasetur á vefnum HomeAway. Ég væri nú ekkert á móti nokkurra daga fríi í svona fallegu umhverfi.

myndir:
Kim Sargent fyrir Architectural Digest