miðvikudagur, 9. apríl 2014

West Midlands | The Granary - kofi til leigu



Hafið þið áhuga á að skoða West Midlands svæðið? Í sveitinni austan við borgina Birmingham er hægt að leigja endurgerðan kofa sem kallast The Granary og er í lokuðum einkagarði sem tilheyrir sveitabýlinu Dove House, sem var byggt í kringum 1350. Svefnherbergin eru þrjú (svefnaðstaða fyrir 5) og það er rúmgott eldhús/borðstofa og setustofa. Allt er smekklega innréttað og öll heimilistæki eru til staðar. Rétt hjá er þorpið Shustoke og bærinn Coleshill.

The Granary er í norðurhluta Warwickshire og það er stutt í hraðbrautir og út á Birmingham-flugvöll. Ef haldið er í suðurátt er komið inn í Shakespeare's Country, eins og svæðið kallast, en þar er að finna ákaflega fallega bæi eins og Stratford-upon-Avon, Leamington Spa og Warwick.
(Sjá einnig The Lodge sem er með einu svefnherbergi (svefnaðstaða fyrir 4)).



myndir:
Lísa Hjalt

fimmtudagur, 3. apríl 2014

Perluliljur til vorskreytinga



Það er kominn fimmtudagur sem merkir að á blogginu fögnum við vori (ég þarf virkilega á svona innblæstri að halda í dag því hér á West Midlands svæðinu er sólarlaus, kaldur og grár dagur). Næstar í röðinni eru tvær hæfileikaríkar konur sem mynda öflugt teymi, ljósmyndarinn Lisa Warninger og stílistinn Chelsea Fuss af Frolic! blogginu. Þær hafa sett saman fjöldann allan af ljósmyndaþáttum fyrir þekkta viðskiptavini eins og HGTV, Kinfolk, Once Wed og Rue, til að nefna nokkra. Í þessum tiltekna fyrir Project Wedding (ég fékk bara nokkrar myndir lánaðar) voru það perluliljurnar sem fönguðu athygli mína. Einnig skærin sem sjást á efstu myndinni; mig langar svo í svona skæri.


Fyrir okkur sem erum alin upp á Íslandi þá eru perluliljur (Muscari armeniacum) kannski ekki týpískur vorboði þó að margir gróðursetji laukana í görðum sínum og noti blómin til skreytinga. En eftir að hafa verið búsett erlendis í nokkur ár þá eru þessi fagurbláu blóm, sem virðast skjóta upp kollinum svo til út um allt, einn af þessum dásamlegu vorboðum. Perluliljur uxu einmitt villtar í garðinum okkar í Luxembourg. Fyrir ykkur sem búið erlendis er óþarfi að skunda út í næstu blómabúð eða á blómamarkað til að verða ykkur út um perluliljur, ef þið búið nálægt skóglendi þá er nóg að grípa bastkörfuna og fara í góðan göngutúr í náttúrunni. Þið getið fyllt körfuna áður en heim er haldið.

Fill a glass full of these beauties to enjoy their clusters of tiny, urn-shaped flowers in finely drawn hues of blue at home. Though they bloom in April, their spicy-grape fragrance has been described as "the perfume of clove and sun-warmed Concord grapes of late September."
úr bókinni Bringing Nature Home eftir Ngoc Minh Ngo


myndir:
Lisa Warninger fyrir Project Wedding | stílisering: Chelsea Fuss af Frolic!
(birt með leyfi)

miðvikudagur, 2. apríl 2014

Innlit: Í glæstum garði ítalskrar villu



Þetta er eitt af þessum innlitum þar sem ég dvel aðallega utandyra enda garðurinn glæsilegur og auk þess eru fáar innanhússmyndir í umfjölluninni um húsið. Þessi landareign er í Piedmont á Ítalíu (í nágrenni Turin) og það var arkitektinn Paolo Pejrone, sem sérhæfir sig í landslagsarkitektúr, sem hannaði húsið og er einnig eigandi less. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þessar myndir; þær segja allt sem segja þarf en mig langar að benda á að steinarnir sem mynda gangstíginn sem sést á fyrstu tveimur myndunum koma úr ánni Ticino.
Í megin forstofunni er textíll áberandi rauður: stólarnir eru bólstraðir með rauðri
og fjólublárri indverskri bómull, gluggatjöld (utandyra) eru rauð og á gólfinu
er rauð tyrknesk Smyrna-motta breidd yfir terracotta-flísar
Pejrone ræktar plöntur sínar án nokkurra óæskilegra efna eða skordýraeiturs
sem kannski útskýrir heilbrigt útlit þeirra



myndir:
Oberto Gili fyrir House & Garden af AD DesignFile

þriðjudagur, 1. apríl 2014

Rýmið 59



Þetta rými er í raun tvö, opið rými með borðstofu og stofu og svo svalir. Mér finnst svarta rennihurðin með glerinu ákaflega smart og gaman að sjá gólfborð á svölunum. Ég veit ekki hvar þetta er (síðan er pólsk) en þetta er víst gömul skólabygging frá árinu 1893 sem var gerð upp og breytt í íbúðarhúsnæði.

mynd:
Birgitta Wolfgang af síðunni Dom & Wnetrze af síðu Susan Franklin/Pinterest