mánudagur, 13. júlí 2015

Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna

Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Stefan


Á laugardaginn fagnaði ég afmælinu mínu í Whitby, sögulegum og fallegum bæ við sjávarsíðu North Yorkshire. Höfnin skiptir bænum í tvennt og er gamli hlutinn á austurbakkanum. Í Whitby má finna gömul hús, þröngar hellulagðar götur frá miðöldum, fallegar búðir, litríkar hurðir, krár, kaffihús, sandstrendur, kletta, svo við gleymum ekki frægum rústum Whitby Abbey, gotnesku kirkjunnar sem stendur á East Cliff-klettinum.
Höfnin í Whitby · Lísa Stefan


Whitby hljómar örugglega kunnuglega í eyrum þeirra sem hafa lesið klassísku, gotnesku hryllingssöguna Drakúla eftir Bram Stoker. Rússneskt skip sem Drakúla greifi ferðast með til Englands strandar við Whitby. Hann kemur í land í dulargervi svarts hunds og hefst þá „fjörið“! Eftir að hafa komið til Whitby þá verð ég að segja að sögusviðið er fullkomið.
Smábátahöfnin í Whitby með North York Moors-þjóðgarðinn í bakgrunni

Útsýnið í allar áttir frá tröppunum 199 er stórkostlegt. Þegar maður horfir yfir gömlu, rauðu húsþökin þá er eins og maður ferðist aftur í tímann eða að maður sé staddur í ævintýri. Ég mæli með því að labba inn í bæinn niður þessar tröppur sem eru með aðliggjandi hellulagðri brekku (það eru bílastæði á East Cliff-klettinum við rústir Whitby Abbey). Þegar farið er niður tröppurnar gengur maður beint inn í Church Street-götuna (sjá myndirnar hér að neðan), sem er sjarmerandi, þröng, hellulögð gata þar sem finnast alls kyns búðir, krár og kaffihús.
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Stefan
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Stefan


Hvert sem litið er má finna eitthvað sem vert er að festa á filmu en á laugardaginn var bærinn pakkaður af fólki, sem gerði myndatöku erfiða. Við keyrðum til Whitby og til að aka inn í bæinn þarf að aka í gegnum North York Moors-þjóðgarðinn, sem er með fallegu landslagi.
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Stefan
Marie Antoinette's Patisserie-bakaríið við götuna Church Street

Ég kom auga á eitt í Whitby sem pirraði mig (ekki í fyrsta sinn). Þegar við vorum að labba í Church Street-götunni þá sá ég skilti bakarísins Marie Antoinette's Patisserie með orðunum 'let them eat cake' (látum þau borða kökur). Franska drottningin er gjarnan ranglega tengd við þessi orð, sem hún átti að hafa mælt þegar henni var tjáð að lýðurinn hefði ekki efni á brauði. Staðreyndin er sú að hún sagði þetta aldrei, heldur var þetta bara hluti af áróðri Frönsku byltingarinnar. Það vill svo til að í töskunni minni var ég með eintak af Must You Go?: My Life with Harold Pinter eftir Antonia Fraser (snemmbúin afmælisgjöf frá eiginmanninum). Fyrir nokkrum árum síðan las ég ævisöguna Marie Antoinette: The Journey eftir Fraser þar sem hún leiðréttir látum-þau-borða-kökur lygasöguna og mér finnst það beinlínis vera skylda mín að gera svo hér, ef þið rækjuð augun í orðalagið á skilti bakarísins sem ég tók mynd af.



Ég tók nokkrar myndir af rústum Whitby Abbey-kirkjunnar, sem ég deili kannski síðar. Eins og ég sagði fyrr þá var svo mikið af fólki í Whitby sem torveldaði myndatöku. Þessi ferð var auk þess til skemmtunar fyrir fjölskylduna og ég vildi helst hlífa fólkinu mínu við því að þurfa stöðugt að stoppa á meðan ég mundaði linsuna. Hugmyndin er annars sú að fara aftur til Whitby á virkum degi og ég get þá skellt mér í göngutúr með myndavélina á meðan liðið flatmagar á ströndinni.


þriðjudagur, 7. júlí 2015

Bóndarósir og indversk blómamynstur

Bóndarósir og indversk blómamynstur · Lísa Hjalt


Á einhverjum tímapunkti nótaði ég í minnisbókina að kínverska orðið yfir bóndarós væri sho yu, sem þýðir sú fegursta. Nafn við hæfi! Sennilega er það klisjukennt að birta bloggfærslu um bóndarósir en í fyrra lét ég bók um textílhönnun fylgja með og ég hugsaði með mér að textíll og bóndarósir væru bara ágætis árlegt þema hér á blogginu. Nýjasta textílbókin í safninu mínu er V&A Pattern: Indian Florals.

Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt

Á bókarkápunni: Bútur af efni til bólstrunar, bróderuð bómull með silkiþráðum,
Gujurat (fyrir evrópskan markað), snemma á 18. öld

V&A Pattern: Indian Florals er lítil bók með aðeins fjórum blaðsíðum af texta eftir Rosemary Crill. Í henni eru 66 síður af mynstrum, auk mynstranna á bókarkápunni og á öðrum síðum til skrauts (samtals 71). Það eru stuttar lýsingar fyrir neðan öll mynstrin (eins og myndatextinn minn) og bókinni fylgir auk þess tölvudiskur með öllum mynstrunum í góðri upplausn.
Rúmábreiða, lituð og bútasaumuð bómull (chintz), Coromandel-ströndin
(fyrir evrópskan markað), ca. 1725-50
Bútur af kjólaefni, blokkprentuð bómull (chintz), Suður-Indland
(fyrir evrópskan markað), 18. öld

V&A Pattern-bækurnar eru frábær kynning á yfirgripsmiklu minjasafni (textíll, skraut, veggfóður og prent) Victoria and Albert-safnsins í London. Fyrir áhugafólk um textílhönnun og fyrir nemendur er kjörið að safna þeim. Næst er ég að hugsa um að kaupa Kimono eða William Morris, eða kannski þetta bókasett, Box-Set III, sem inniheldur Spitalfields Silks, Chinese Textiles, Pop Patterns og Walter Crane.

Mér finnst svolítið erfitt að ákveða mig en bækurnar eru ódýrar þannig að ég trúi því að á stuttum tíma verði ég komin með þó nokkuð margar í safnið.
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt


Þegar þetta er skrifað er síðasti vöndurinn af bóndarósum þessarar árstíðar í hvítum keramikvasa á eldhúsborðinu. Ég kann að hljóma dramatísk (ég er allt annað en dramatísk) þegar ég segi að ég vildi að ég hefði þann ofurmátt að geta forðað rósunum frá því að visna. Mig langar ekki að bíða í næstum heilt ár eftir því að finna himneska angan þeirra að nýju.

Bóndarósir eru svo sannarlega fegurstar.
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt




fimmtudagur, 2. júlí 2015

Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow

Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow · Lísa Hjalt


Í gær skelltum við okkur til Glasgow í Skotlandi og ég varð bálskotin í West End-hverfinu. Einhvers staðar í hjarta þessa fallega og afslappaða hverfis, þar sem má finna kaffihús og veitingastaði á svo til hverju horni, leit ég á eiginmanninn og spurði: Hvar hefur þessi borg eiginlega verið allt mitt líf? Á Byres Road númer 134 fundum við Kember & Jones delí og kaffihús og þegar ég opnaði hurðina var ég komin heim. Við fengum borð uppi með útsýni yfir aðalhæðina þar sem við heldur betur gátum notið góðs anda staðarins.

Á blogginu skrifa ég aldrei svona 'vikan mín á Instagram'-færslur (afsakið en mér finnst slíkar færslur tilgangslausar með öllu) en þegar ég tók myndavélina upp úr töskunni og ætlaði að taka myndir af West End-hverfinu til að deila á blogginu þá áttaði ég mig á því að batteríið varð eftir í hleðslutækinu heima ... ég er ekki í lagi! Sem betur fer var eiginmaðurinn með símann á sér þannig að ég tók þessar á Kember & Jones og deildi þeim á Instagram. En þetta þýðir að ég þarf að fara aftur til Glasgow.
Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow · Lísa Hjalt


Aftur að kaffihúsinu. Persónulega þá þoli ég ekki þegar ég panta latte og það er borið fram í stóru glasi. Ég var svo heilluð af hráum stíl og hönnun Kember & Jones í gær að ég hreinlega gleymdi að spyrja hvernig þau bæru það fram. Kaffið kom í meðalstóru, svolítið gamaldags glasi, sem fór ekkert í taugarnar á minni latte-sál. Aðalatriðið var að kaffið var gott! Ég pantaði samloku á matseðlinum þeirra með grilluðu grænmeti, hummus, spínati og harissa chilli-dressingu, með baunum og salati til hliðar, sem var gómsæt. Þegar ég hélt að þetta kaffihús gæti ekki heillað mig meira þá fann ég á borði á aðalhæðinni svo til allar uppskriftabækurnar á óskalistanum mínum (Sunday Suppers eftir Karen Mordechai og A Kitchen in France: A Year of Cooking in My Farmhouse eftir Mimi Thorisson (íslenskur eiginmaður hennar, Oddur Þórisson, tekur myndirnar), bara til að nefna einhverjar, og ég bætti á listann The River Cafe Classic Italian Cookbook eftir Rose Gray and Ruth Rogers). Þetta kaffihús er einfaldlega draumur.

Að lokum verð ég að segja að ef þið ferðist einhvern tíma til Glasgow eða millilendið þar, ekki gera þau mistök að dvelja bara í einn dag. Ég gæti eytt nokkrum dögum bara í West End-hverfinu. Í raun þá gæti ég eytt nokkrum dögum í að njóta kaffi- og veitingahúsanna og andrúmsloftsins á Byres Road eingöngu.

þriðjudagur, 16. júní 2015

Heltekin af strandarstíl



Ég er heltekin af strandarstíl. Í allan dag hefur hugurinn reikað á ströndina og mig langar bara að finna sand á milli tánna og dýfa þeim í sjóinn. Þetta byrjaði þegar eiginmaðurinn sendi mér mynd frá þeim stað sem hann dvelur á í augnablikinu. Hann er fjarverandi vegna vinnu og gistir í einum af þessum litlu bæjum sem eru með strönd og bátahöfn. Á morgun, á þjóðhátíðardaginn, eigum við brúðkaupsafmæli (17 ár) og ef börnin væru ekki enn í skólanum þá hefðum við getað verið þar með honum og fagnað. Kannski einn daginn.

Sem sárabót með lattebollanum í morgun keypti ég júlítölublað Country Living UK, en það vill svo til að það er stútfullt af strandarstíl. Það var einn ljósmyndaþáttur sem fangaði athygli mína, Shades of the Shoreline, sem er fallega stíliseraður af Hester Page og ljósmyndaður af Catherine Gratwicke. Ef ég ætti strandarhús þá væri þetta horn með veðraða skrifborðinu í því. Ég er að hugsa um að apa eftir hluta af stíliseringunni í forstofunni í sumar. Ég er með hvítt borð þar og ég þyrfti bara að verða mér út um skeljar og grænar glervörur. Ég sá einmitt grænar glerflöskur og -krukkur í búð um daginn.



Það er hellingur af öðrum áhugaverðum ljósmyndaþáttum og greinum í tímaritinu og ein fjallar um eyjuna Guernsey og endar með þessu sæta myndskreytta korti hér að neðan (elska svona kort!). Eftir að hafa lesið bókina The Guernsey Literary and Potato Peel Pie Society eftir Mary Ann Shaffer (sjá þessa færslu) hefur það verið draumur minn og æskuvinkonu minnar að ferðast þangað saman.


Undanfarið hef ég verið með nett æði fyrir laufblöðum bananatrjáa og í umfjölluninni las ég að Seigneur Peter de Sausmarez sem á Sausmarez Manor-setrið í St. Martin "umbreytti fimm ökrum af skóglendi í suðræna paradís þar sem bambus- og bananatré standa meðfram göngustígum, þar sem má finna meira en 300 kamellíu-runna og fullkominn skúlptúrgarð" (bls. 64). Annar staður sem ég myndi vilja skoða er Hauteville-húsið, með Victor Hugo-garðinum, þar sem rithöfundurinn bjó þegar hann var í útlegð á eyjunni frá 1856 til 1870.

Gleðilegan þjóðhátíðardag á morgun!


myndir teknum af síðum Country Living UK, júlí 2015, bls. 92-98

mánudagur, 1. júní 2015

Stílhreinn bóhemískur blær á Ibiza

Bóhemískur stíll á Ibiza · Lísa Stefan


Á laugardaginn barst nýjasta tölublað Elle Decoration UK í hús og innlitið sem ég féll kylliflöt fyrir var 300 ára gamalt stílhreint hús með bóhemískum blæ á afskekktu svæði á Ibiza. Það gerist ekki oft að mér líki svo til öll rými í innlitum tímarita en ég hef verið kannski full heltekin af þessu (efsta myndin skreytir núna tölvuskjáinn), sem kallast ,Where the cicadas sing' (ljósmyndarar Sunna og Marc Van Praag). Ég varð að smella af nokkrum myndum og deila með ykkur, af þeim rýmum í húsinu sem fá hjartað til að syngja.



Það er hrái stíllinn í húsinu sem sérstaklega höfðar til mín, eins þessir innbyggðu setkrókar næst eldhúsinu (ekki sýnt í tímaritinu) sem virka svo kósí og notalegir. Borðstofan tengist setustofunni og er einnig með innbyggðum setkrók. Í báðum setkrókunum má sjá fallegan textíl, púða og sessur í einlit eða með mynstri. Skrautmunir eru flestir eitthvað sem eigendurnir hafa keypt á ferðalögum um heiminn. Ég er einstaklega hrifin af þessum mynstraða lampa á milli setkrókanna en það kemur ekki fram í greininni hvaðan hann kemur.

Setustofa í hráum stíl með arni og innbyggðum setkrók

Aðrir munir á heimilinu sem fönguðu athygli mína voru skreyttu vasarnir á borðinu hér að neðan og í stiganum, og einnig fallegar mottur sem er að finna í öllum rýmum.


Á baðherberginu eru bogadregnu veggirnir upprunalegir og flísarnar eru spænskar. Þessi motta á gólfinu er alveg í mínum stíl! Ég varð að láta fylgja með svæðið utandyra með sundlauginni, en til að sjá meira þá verðið þið bara að næla ykkur í eintak af tímaritinu!



Ég held að flestir Íslendingar kannist við Ibiza, sem er hluti af balerísku eyjunum í Miðjarðarhafinu. Eyjan hefur alltaf verið tengd við fjörugt næturlíf, sem er ekki aðdráttarafl fyrir mig á ferðalögum. En ég hef alltaf verið hrifin af smáþorpum eyjunnar, afskekktum stöðum og ólíkum menningarstraumum, sem er ástæða þess að Ibiza komst á langar-að-heimsækja listann minn. Það er gömul bloggfærsla sem kallast Colours of Ibiza eftir Maríu bloggvinkonu mína á EclecChic sem sýnir akkúrat hvað það er sem laðar mig að eyjunni.


Það er ein önnur grein í júlíhefti Elle Decoration UK í ár sem mig langar að nefna. Hún er um arkitektinn og hönnuðinn Alexander Girard (1907-1993). Vitra Design Museum í Weil am Rhein verður með heilmikla sýningu á verkum hans árið 2016 (staðsetning safnsins er í horninu þar sem Þýskaland, Sviss og Frakkland mætast.) Hér er hlekkur á hönnun Alexanders Girard fyrir Vitra - eldspýtustokkarnir finnst mér æðislegir.


myndir af tölublaði Elle Decoration UK, júlí 2015, Where the cicadas sing, bls. 98-107 · Sunna og Mark Van Praag