fimmtudagur, 1. júní 2017

№ 9 bókalisti: japanskar bókmenntir I

Japanskur bókalisti (№ 9): Kawabata, Tanizaki, Mishima, Shikibu · Lísa Stefan


Hugmyndin að japönskum bókalista kviknaði fyrir mörgum mánuðum síðan og þegar ég byrjaði að skrifa höfunda og titla í vasabókina sá ég strax að listarnir yrðu fleiri en einn. Þrátt fyrir að orðið snjór komi fyrir í einum titlinum hér að neðan fannst mér tilvalið að fara inn í sumarið lesandi japanskar bókmenntir. Þessi fyrsti listi er eilítið styttri en hann átti að vera, einfaldlega vegna þess að ein bók sem ég pantaði hefur enn ekki borist og á síðustu stundu ákvað ég að hafa ekki á honum tvö verk eftir sama höfund. Það þýðir að skáldsaga eftir Yasunari Kawabata, sem hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1968, færist yfir á næsta. Þeir sem fylgjast með blogginu ættu að kannast við Tanizaki, en verk hans The Makioka Sisters var á einum lista. Það gladdi mig þegar einn blogglesandi sagðist hafa ákveðið að lesa bókina og notið lestursins rétt eins og ég.

№ 9 bókalisti:
1  First Snow on Fuji  eftir Yasunari Kawabata
2  The Temple of the Golden Pavilion  eftir Yukio Mishima
3  Some Prefer Nettles  eftir Jun'ichirō Tanizaki
4  The Tale of Genji  eftir Murasaki Shikibu *
5  The Tale of Genji  eftir Murasaki Shikibu **
6  My Neighbor Totoro: The Novel  eftir Tsugiko Kubo ***

Ensk þýðing eftir: * Edward G. Seidensticker; ** Dennis Washburn
*** Myndskreyting eftir Hayao Miyazaki

Eins og sjá má eru á listanum tvær óstyttar útgáfur af The Tale of Genji og ég hef enn ekki ákveðið hvora ég ætla að lesa. Sú sem Washburn þýddi er ný útgáfa í kiljubroti frá W. W Norton & Co, hin er innbundin frá Everyman's Library. Ég er að reyna að panta þessa í þýðingu Seidensticker í gegnum bókasafnið, sem er ástæða þess að ég hef frestað birtingu listans. Ef ég næ ekki að redda henni þá þarf ég bara að ákveða hvora ég kaupi. Kannski hafið þið tekið eftir því á Instagram að ég er byrjuð að lesa The Temple of the Golden Pavilion eftir Mishima. Hann setti í skáldsöguform söguna um munkinn sem árið 1950 kveikti í Gullna hofinu í Kyoto, sem var reist á 15. öld (Bandaríkjamenn vörpuðu ekki sprengjum á hofin í stríðinu). Þessi atburður var sjokkerandi. Fyrir dómi sagðist ungi munkurinn hafa verið að mótmæla markaðssetningu búddisma. Fræðimaðurinn Donald Keene skrifar aftur á móti í inngangi bókarinnar: „[H]e may have been directly inspired by nothing more significant than pique over having been given a worn garment when he had asked the Surperior of the temple for an overcoat“! (Hann á sem sagt að hafa beðið um nýja yfirhöfn og móðgast þegar hann fékk notaða!) Ég er meira en hálfnuð með bókina og Gullna hofið sem stendur enn er byrjað að trufla hugarró aðalsöguhetjunnar, sem ég myndi lýsa sem frekar fráhrindandi einstaklingi.


Hafið þið séð teiknimyndina My Neighbour Totoro (1988) eftir Hayao Miyazaki? Hún er ein af japönsku myndunum í uppáhaldi á okkar bæ. Í fyrra sat ég með syni mínum á bókakaffinu í Waterstones hér í bænum þegar hann spottaði bókina í hillu. Við höfðum ekki hugmynd um tilvist bókarinnar. Kom þá í ljós að skáldsaga var gerð eftir kvikmyndinni með myndskreytingum Miyazaki. Bókin er svo falleg og við nældum okkur að sjálfsögðu í eintak. Sonurinn hafði virkilega gaman af lestrinum og nú er röðin komin að mér.



laugardagur, 13. maí 2017

Lestrarkompan 2017: Lessing, Athill, Borges ...

Lestrarkompan mín: Lessing, Athill, Borges ... · Lísa Stefan


Nýverið rakst ég á frábært enskt orð sem er ekki að finna í orðabók: readlief (read og relief skeytt saman). Merking þess er þegar þú loksins kemst í það að byrja á bók sem þú hefur ætlað að lesa í mörg ár. Lestrarléttir væri kannski ágætt íslenskt orð, en bókalistarnir mínir hafa stuðlað að mörgum slíkum. Það er gefandi að strika bók af listanum og enn frekar ef hún reynist góð. Langar-að-lesa listinn minn styttist að vísu ekki neitt því ég er stöðugt að rekast á bækur sem rata á hann. Höfuðverkur bókaunnandans. Hér að neðan er að finna nokkrar pælingar um bækur sem voru á № 7 bókalistanum mínum, sem ég deildi í febrúar. Ég bjó til nýjan flokk fyrir þessar tilteknu færslur sem ég kalla Lestrarkompan (árið í titlinum gefur til kynna hvenær umræddur bókalisti birtist á blogginu).

Lestrarkompan, № 7 bókalisti, 6 af 9:

Fictions eftir Jorge Luis Borges
Þessu smásögusafni er ávallt lýst sem frumlegu. Það er bókmennta- og heimspekilegt og ekki fyrir alla. Ég hef ekki lesið neitt í líkingu við það. Fyrstu tvær sögurnar fönguðu mig ekki en um leið og ég byrjaði á þeirri þriðju þá var ekki aftur snúið. Sú saga kallast „Pierre Menard, Author of the Quixote“ (birtist í argentíska bókmenntaritinu Sur í maí 1939) og fjallar um mann sem endurskrifar Don Quixote eftir Cervantes, línu fyrir línu. Hugmyndin að sögunni er snilld.

The Grass is Singing eftir Doris Lessing
Þegar ég lauk lestrinum var mín fyrsta hugsun á ensku: powerful. Síðan þá hef ég heyrt marga nota sama orð yfir bókina sem var sú fyrsta eftir Lessing og kom út árið 1950. Hún byrjar á morði á aðalsögupersónunni Mary Turner og eftir því sem líður á lesturinn kynnumst við bakgrunni hennar og hvað leiddi til þessa harmleiks, í raun hvað sundraði lífi hennar á bóndabæ í Suður-Ródesíu (núna Simbabve). Lessing ólst þarna upp og lýsir afríska landslaginu meistaralega. Það eru mánuðir síðan ég lauk lestrinum og ég er enn að hugsa um bókina sem er góð sálfræðistúdía.

The Golden Notebook eftir Doris Lessing
Þessi telst til klassískra verka og er ekki fyrir alla. Ég átti erfitt með nokkra hluta, áveðnir partar fannst mér ýmist fullir af endurtekningum eða of langir, og það tók mig dágóðan tíma að klára bókina. En það er ekki hægt að þræta fyrir þá staðreynd að þetta er áhrifaríkt bókmenntaverk. Góðu hlutarnir eru eftirminnilegir og ég er glöð að ég tók loks af skarið og sneri þessari bók upp í lestrarlétti.

Captain Corelli's Mandolin eftir Louis De Bernières
Ég las einhvers staðar að þetta væri skáldsaga með hjarta og sú lýsing á vel við. Það eina sem truflaði mig örlítið á fyrstu 100 blaðsíðunum eða svo voru kynningar á persónunum (hver fær sér kafla), en hann komst ekki hjá þeim því í bókinni koma margir við sögu. Bernières bætir upp fyrir þetta með dásamlegum, og oft kómískum, smáatriðum, sérstaklega lýsingum á lífinu í þorpinu (bókin gerist á grískri eyju í síðari heimsstyrjöldinni).

Instead of a Book: Letters to a Friend eftir Diana Athill
Ég er hrifin af bréfum en undir lokin á þessu safni var ég við það að missa þolinmæðina. Athill og vinur hennar voru að eldast og síðustu bréfin innihéldu of mikið af tali um heilsufar, sem er ósköp eðlilegt á milli náinna vina en allt annað en skemmtilegt að lesa. Hún kemur einmitt að þessu í eftirmálanum og segir þetta vera ástæðu þess að hún hafði bréfin ekki fleiri. Bók hennar Stet er á langar-að-lesa listanum mínum og ég hef ekki lesið neitt nema lof um hana þannig að kannski ættuð þið að íhuga að lesa hana fyrst ef þið hafið áhuga á skrifum Athill.

Local Souls eftir Allan Gurganus
Ég ákvað að fresta lestrinum á þessari. Eins og fram kom í bloggfærslunni ætlaði ég alltaf að lesa bók hans Oldest Living Confederate Widow Tells All  á undan þessari. Það var akkúrat það sem ég ákvað svo að gera.

In Montmartre: Picasso, Matisse and Modernism in Paris, 1900-1910 eftir Sue Roe
Ég er ekki listfræðingur en ég held að höfundurinn hafi unnið heimavinnuna sína vel. Mér fannst bókin áhugaverð en hefði viljað sjá meira af ljósmyndum af málverkum (ég var stöðugt að fletta upp á netinu verkum sem komu fyrir í textanum til að vera viss um að ég væri með rétt í huga eða til að sjá þau sem ég kannaðist ekki við). Mér fannst gaman að lesa um Picasso, Matisse og aðra listamenn en stundum voru stuttar sögur úr lífi fólks sem tengdist þeim sem, að mínu mati, höfðu lítið vægi. Að því leyti hefði bókin mátt við frekari endurskrifum.

Hafið þið fundið fyrir lestrarlétti (readlief ) nýlega?

Þessa dagana er ég að klára að lesa bækurnar á № 8 bókalistanum og kem til með að skrifa tvo ritdóma, um stríðsdagbækur Astrid Lindgren, A World Gone Mad, og um skáldsöguna Pachinko eftir Min Jin Lee.



mánudagur, 17. apríl 2017

Fæðingardagur Karen Blixen

Fæðingardagur Karen Blixen · Lísa Stefan


Gleðilega páska! Í dag er fæðingardagur dönsku skáldkonunnar Karen Blixen (f. 17. april 1885, d. 7. september 1962), sem skrifaði margar sögur undir skáldanafninu Isak Dinesen (Babette's Feast and Other Stories, Shadows on the Grass, Seven Gothic Tales, Winter's Tales og Last Tales). Hún var frábær sögumaður, best þekkt fyrir bók sína Out of Africa (Jörð í Afríku), sem oft er lýst sem ljóðrænni hugleiðingu um líf hennar í Kenýa þar sem hún átti búgarð, kaffiplantekru (í bókinni er engin tímaröð). Flestir þekkja til Blixen vegna kvikmyndar Sydney Pollack: Kvikmyndin kann að gefa ykkur hugmynd að lífi Blixen í stórkostlegu landslagi Afríku, en aðeins með því að lesa bókina kynnist þið hinu sanna andrúmslofti. Fyrir mér er bókin lýsing á Afríku sem ég kem aldrei til með að upplifa. Löngu horfnu tímabili.

Í minnisbók hef ég skrifað tilvísun eftir Blixen. Spurð að því hvernig saga hefst fyrir rithöfund svaraði hún á dönsku:
Det begynder med atmosfære, et landskab, der for mig er vidunderligt skønt, og så – så kommer menneskene pludselig ind i billedet. Med det er de der, de lever, og jeg kan lade dem leve videre i bøgerne.
Það þarf varla að þýða þetta en hún er í raun að segja að fyrst sé það andrúmsloft, landslag, sem henni finnst dásamlegt og svo skyndilega kemur fólk inn í myndina. Þar með er það þar, lifir, og hún getur leyft því að lifa áfram í bókunum. (Ég fann tilvísunina á FB-síðu Karen Blixen Museet.)

Í febrúar fengu aðdáendur Blixen frábærar fréttir þegar tilkynnt var um gerð sjónvarpsþáttaraðar eftir bók hennar Jörð í Afríku.

myndin af Karen Blixen er úr bókinni Letters from Africa 1914-1931



mánudagur, 10. apríl 2017

Samtal við textílhönnuðinn Lisa Fine

Samtal við textílhönnuðinn Lisa Fine · Lísa Stefan


Þessi orð eru höfð eftir bandaríska ljósmyndaranum, Ansel Adams heitinum: „You don't make a photograph just with a camera. You bring to the act of photography all the pictures you have seen, the books you have read, the music you have heard, the people you have loved.“ Orð hans eiga við hvers kyns skapandi listir og ég notaði þau til að hefja samræður við textílhönnuðinn Lisa Fine í gegnum tölvupóst. Á blogginu hef ég þegar lýst henni sem hönnuði með skilning á sögu og stend við þau orð. Hún er lagin með liti og mynstur; það virðist sem hvert efni frá Lisa Fine Textiles segi sögu. Hún er fædd og uppalin í Mississippi. Nú býr hún í New York ásamt hundunum sínum og ferðast víða, oft til Indlands eða annarra framandi staða. Smálistaverk hafa innblásið feril hennar, einnig listmálarinn Henri Matisse.

Þar sem umræðuefnið er ekki flókið finnst mér óþarfi að þýða svör hennar yfir á íslensku. Þar sem það er mögulegt, einnig í beinum tilvísunum, hef ég sett inn tengla á t.d. stuttar ritgerðir á vefsíðum listasafna sem mér fannst áhugaverðar og fræðandi. Fyrir utan málverkin eftir Matisse valdi ég myndirnar í færslunni.

[Mynstur frá Lisa Fine Textiles sem sjást á efstu myndinni (smellið fyrir nánari
upplýsingar): Cairo, Kashgar, Luxor, Malabar, Malula, Mandalay, Pasha og
Rajkot. Sjá bækur neðar í færslunni]

Persneskt smálistaverk: Mir Sayyid 'Ali, Night-time in a City,
ca. 1540, Tabriz, Íran, Safavíd-tímabilið

Svo við víkjum aftur að orðum Adams, hvað hefur sett mark sitt á hönnuðinn Lisa Fine (í ljósi alls sem hún hefur uppgötvað í gegnum vinnu sína og ferðalög).
LF: My life is very much about people, however, books and art not only inspire and teach but are the best refuge.

My favorite painter is Matisse. I love his mix of color and pattern, especially in his orientalist portraits. Irving & Fine [samstarf við textílhönnuðinn Carolina Irving] peasant blouses were very much inspired by his work. I also love the Fauvism movement.
Tveir aðrir listamenn eru einnig í uppáhaldi hjá henni, Kees Van Dongen og Amedeo Modigliani.

Henri Matisse, Zorah on the Terrace, 1912

Hún á ekki eitt uppáhaldsverk eftir Matisse en sagði: „I love his Moroccan period most, especially the portraits.“ Síðar fann ég verk hans Zorah on the Terrace í pósthólfinu mínu með orðunum: „Love Moroccan portraits.“ Hin tvö verkin eftir Matisse fylgdu á eftir, verkið hér að neðan með orðunum: „Love odalisque series.“

laugardagur, 1. apríl 2017

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan


Mótíf, mynstur, textíll, litir. Nýverið barst mér dágóður skammtur af prufum frá Lisa Fine Textiles og hef því eytt latte-stundum mínum með handprentuð, litrík efni breidd yfir skrifborðið mitt ásamt textílbókum, eins og myndirnar mínar sýna. Hérna höfum við þrjú mynstur sem Lisa Fine kynnti í fyrra, Kalindi, Cochin og Ayesha Paisley, sem eru falleg viðbót í safn hennar af framandi efnum, sem öll eru innblásin af ferðalögum hennar. Bráðum hyggst ég deila með ykkur stuttum samræðum sem ég átti við Lisa Fine sjálfa í gegnum tölvupóst, um bækur, list og hvaðan hún sækir innblástur.

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Cochin frá Lisa Fine Textiles, litur í forgrunni: rose

Af þessum þremur efnum er Cochin með blómamynstrinu sú hönnun sem nú þegar á hjarta mitt og sál, einkum í litnum rose sem hefur saffrangulan bakgrunn. Mynstrið er handprentað á 90% náttúrulegt lín með 10% næloni, fáanlegt í fjórum litum: rose, cinnabar (þetta rauða og bláa, sjá mynd að ofan, efst til hægri), burnt sugar og saffron (með bleikum blómum). Hönnun Lisa Fine ber gjarnan indversk nöfn. Cochin er nýlenduheiti indversku borgarinnar Kochi, á suðvesturströndinni í Kerala-héraði.

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Ayesha Paisley, litur í forgrunni: ruby

Mynstrið Ayesha Paisley er handprentað á 100% náttúrulegt lín, fáanlegt í fjórum litum: ruby, sapphire, coral og spinel (ég á ekki prufu af þessu síðastnefnda).

Ayesha Paisley, í forgrunni: sapphire

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Í forgrunni: Kalindi í öllum fáanlegum litum (undir bollanum mínum
eru tvær prufur af mynstrinu Luxor)

Efnið Kalindi er með blómamynstri ásamt doppum, handprentað á 90% náttúrulegt lín með 10% næloni. Það er fáanlegt í fimm ríkum litum: monsoon (þetta ljósbláa), indigo, saffron, dusty rose og lipstick. Ég geri ráð fyrir að mynstrið sé nefnt eftir ánni Kalindi í West Bengal héraði í austurhluta Indlands.

Til að skoða öll efnin kíkið þá á heimasíðu Lisa Fine Textiles.
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan


Kannski eru einhverjir lesendur í þeim hugleiðingum að gefa einu rými upplyftingu eða jafnvel að hugsa um að endurhanna heimilið. Í viðtali sem birtist í tímaritinu Lonny, þegar gestaíbúð hennar á Vinstri bakka Parísar var til umfjöllunar, gaf Lisa Fine eitt mjög gott ráð: „Never be a victim of trends. If modern is in style and you love Victorian, go Victorian. Style is an expression of yourself and not what fashion dictates“ (Inspiration India, des/jan 2010). Forðist sem sagt tískusveiflur og látið ykkar eigin persónulega stíl ráða för. Í sömu umfjöllun deildi hún nokkrum hugmyndum um hönnun og hér er ein sem gæti komið ykkur á byrjunarreit: „Similar to how many designers will start with a rug and then build a room, choose a fabric to inspire the space and work from there.“ Val mitt á efni væri augljóst.