sunnudagur, 21. nóvember 2021

Bóklestur í útgöngubanni

Kápan af Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995 · Lísa Stefan


Á föstudaginn trítlaði ég út á pósthús og fann um sjöhundruð síðna doðrant með bréfum Irisar Murdoch í hólfinu, Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995. Upphaflega keypti ég bókina til að setja undir jólatréð, gjöf frá mér til mín, en í staðinn verður hún útgöngubannsbókin mín. Bók með hlutverk.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að á morgun verður öllu skellt í lás í Austurríki vegna hárrar tíðni COVID-smita. Það er óhætt að segja að stemningin sé sérkennileg þessa dagana og ég held að ég sé ekki ein um að glíma við lokanaleiða. Ég hafði hlakkað til að klára skólaönnina og njóta þess í desember að rölta um jólaskreyttar götur Linz, kíkja í bókabúðir og setjast niður á notalegum kaffihúsum. Að vísu er gert er ráð fyrir afléttingum fyrir jól en þá má búast við mannmergð í miðborginni, sem ég kæri mig lítið um þó að ég sé bólusett. Kosturinn við útgöngubann er sá að nægur tími gefst fyrir bóklestur og kósíheit heima fyrir. Mín bíður góður bunki þannig að ég get ekki kvartað.
Lestur um menningu og menningararf · Lísa Stefan


Það verður enginn bókaskortur í þessu banni því í hillunum leynist margt ólesið. Nýverið var ég stödd í bókabúð og keypti tvær þýskar, meðal annars Medea. Stimmen eftir Christu Wolf (1929-2011). Ég hef aldrei lesið verk eftir hana. Ég var í skapi fyrir gríska goðafræði því í kaffipásum á þessu hausti hef ég teygt mig í Mythos eftir Stephen Fry. Þvílík skemmtilesning, hann er svo orðheppinn. Ég hef líka verið að lesa íslenskar esseyjur í bókinni Póetík í Reykavík: Erindi 14 höfunda (ritstj. Kjartan Már Ómarsson). Einn höfundanna, Margrét Bjarnadóttir, sendi mér óvænt eintak en hún gaf út bókina Orðið á götunni, sem ég fletti reglulega mér til skemmtunar (sjá № 14 bókalista). Bækurnar þrjár verða á næsta bókalista sem ég hef ekki enn deilt á blogginu sökum anna.

Pasta og lærdómur · Lísa Stefan
Klassík lærdómspása með grænmetispasta

Bókabúð á Linz Hauptplatz: Alex Buchhandlung · Lísa Stefan
Anddyri bókabúðarinnar Alex Buchhandlung

Ein bókabúðin í Linz heitir Alex Buchhandlung og er staðsett á Der Linzer Hauptplatz, aðaltorgi sem er rétt við meginbrúna yfir Dóná. Þetta er lítil verslun með gríðarlegt magn þýskra bóka. Ég var næstum því búin að kaupa þar Fischer-útgáfu af dagbókum Franz Kafka en hugsaði með mér að þýskan mín væri kannski ekki nógu góð til að virkilega njóta lesturins. Ég lét hana því bíða og ákvað að fyrst skyldi ég lesa eina ólesna í hillunum mínum sem inniheldur sögurnar Málsóknin og Umskiptin. Ég hef lesið þá síðari í íslenskri þýðingu en aldrei lesið Kafka á þýsku.
Kápan af sögum Kafka í þýskri útgáfu (Fischer) · Lísa Stefan




sunnudagur, 22. ágúst 2021

Sicilia: A love letter to the food of Sicily · Ben Tish

Kápa bókarinnar Sicilia: A love letter to the food of Sicily eftir Ben Tish (Bloomsbury)


Sicilia: A love letter to the food of Sicily eftir Ben Tish kom út hjá Bloomsbury Publishing í júní. Bókin er stútfull af uppskriftum og ljósmyndum sem tengjast matargerð og menningu Sikileyjar. Um kápu bókarinnar þarf ekki að segja mörg orð, hún endurspeglar birtu og liti sumarsins í allri sinni dýrð. Þess má geta að fyrir tveimur árum sendi Tish frá sér bókina Moorish: Vibrant recipes from the Mediterranean, sem fjallar um menningaráhrif Norður-Afríku og Arabaheimsins á matargerð Miðjarðarhafssvæðisins.

Sicilia: A love letter to the food of Sicily
Höf. Ben Tish
Innbundin, myndskreytt, 304 blaðsíður
ISBN: 9781472982759
Bloomsbury Publishing



fimmtudagur, 29. júlí 2021

№ 28 bókalisti | Oh, Vienna ...

№ 28 bókalistinn: Bókabunki með Matisse í baksýn · Lísa Stefan


Þá er komið að nýjum bókalista. Mér finnst eitthvað afskaplega hrífandi við þennan bókabunka. Ég vissi ekki hvaða bók ég ætti að byrja á (er að að venja mig af því að lesa margar í einu) en valdi endanlega Max Perkins eftir A. Scott Berg, sem hlaut National Book Award verðlaunin árið 1980. Þetta er ævisaga eins mikilvægasta ritstjóra 20. aldar, bók um bækur og listina að skrifa. Perkins ritstýrði m.a. þeim F. Scott Fitzgerald, Ernest Hemingway, Thomas Wolfe og Marjorie Kinnan Rawlings. Vitandi að The Great Gatsby varð klassík er það allt að því með ólíkindum að lesa bréfin sem Perkins bárust frá Fitzgerald fyrir útgáfu hennar árið 1925, full efasemda, einkum um titilinn. Áhyggjur hans reyndust því miður sannar því bókin seldist illa í samanburði við hans fyrstu, This Side of Paradise (1920). Ef elsku karlinn - old sport - hefði nú bara vitað hver örlög hennar yrðu.

№ 28 bókalisti:

1  Essayism  · Brian Dillon
2  This Little Art  · Kate Briggs
3  Forty-one False Starts: Essays on Artists and Writers  · Janet Malcolm
4  Shuggie Bain  · Douglas Stuart
5  Unquiet  · Linn Ullmann
6  Max Perkins: Editor of Genius  · A. Scott Berg
7  The Lost: A Search for Six of Six Million  · Daniel Mendelsohn

Ensk þýðing: 5) Unquiet: Thilo Reinhard

Bókabúðin Shakespeare & Company í Vínarborg · Lísa Stefan
Bókabúðin Shakespeare & Company í Vínarborg

Í síðustu bókalistafærslu sagði ég ykkur frá þeim takmörkunum sem við búum við í Austurríki vegna kófsins. Sumarið væri öðruvísi og líklega meira um lestarhopp ef hægt væri að skella sér á kaffihús eða út að borða hvenær sem er. En hvergi er hægt að setjast niður án vottorðs um neikvæða skimun og því þarf að plana allt með fyrirvara. Nýverið kom elsta dóttirin ásamt hollenskum kærasta í heimsókn og við eyddum m.a. degi í Vínarborg. Við fórum á Belvedere-safnið, heilsuðum Napóleon, eða Napí eins og við kölluðum hann, og störðum hvað lengst á Kossinn hans Klimts. Þrömmuðum svo um borgina, nutum hádegisverðar í almenningsgarði og enduðum í gyðingahverfinu þar sem enska bókabúðin Shakespeare & Company er til húsa, nánar tiltekið á Sterngasse. Ég elska þetta hverfi í Vín þannig að ég leyfi félögunum í Ultravox að eiga síðasta orðið, Oh, Vienna ...



þriðjudagur, 20. júlí 2021

Lestrarkompan: Janet Malcolm

Kápan af Unquiet eftir Linn Ullmann (Hamish Hamilton) · Lísa Stefan


Afmælið mitt er í júlí og það ætti ekki að koma á óvart að fólk gefur mér gjarnan bækur. Sumir vilja sjá óskalista og ég sendi hlekk á forgangsraðaðan lista, ekki lista yfir allar bækurnar sem mig langar í. Ef ég sýndi fólki mína sönnu bókasál þá fengi það líklega ranghugmyndir um geðheilsu mína. Auðvitað skilja margir svona bókaklikkun en það er ástæðulaust að flagga henni að óþörfu. Hlekkirnir í þessari lestrarkompu voru niðurnegldir þegar tvær gjafir bárust í hús, bækur eftir Janet Malcolm og Linn Ullmann, þannig að ég breytti þeim og uppfærði einnig næsta bókalista sem var tilbúinn. Að setja þessar bækur upp í hillu og lesa síðar var óhugsandi.

Elsta dóttirin gaf mér Forty-one False Starts: Essays on Artists and Writers eftir rithöfundinn og blaðakonuna Janet Malcolm, sem aðallega skrifaði fyrir The New Yorker. Malcolm lést fyrr í sumar, 86 ára að aldri. Hún fæddist í Prag árið 1934 en fjölskyldan flúði til Bandaríkjanna fimm árum síðar þegar ofsóknir nasista gegn gyðingum voru hafnar. Greinar hennar birtust í ýmsum ritum og einnig skrifaði hún bækur, m.a. þessar þrjár sem mig langar að lesa: The Silent Woman: Sylvia Plath and Ted Hughes, Reading Chekhov: A Critical Journey og Two Lives: Gertrude and Alice.
Kápan af Forty-one False Starts eftir Janet Malcolm (FSG) · Lisa Stefan


Kær vinkona gaf mér skáldsöguna Unquiet eftir hina norsku Linn Ullmann, sem þið sjáið á fyrstu myndinni (upprunalegur titill er De Urolige; Thilo Reinhard þýddi á ensku). Sagan er sjálfsævisöguleg en foreldrar hennar voru norska leikkonan Liv Ullmann og sænski leikstjórinn Ingmar Bergman. Í fyrra var hún gestur alþjóðlegu bókmenntahátíðarinnar Edinburgh International Book Festival, sem var streymt á netinu vegna heimsfaraldursins. Ég hafði þegar sett bókina á langar-að-lesa listann en þegar ég heyrði Ullmann tala um hana þá var ekki aftur snúið. Bókina skyldi ég eignast og lesa.

Ég gaf sjálfri mér nokkrar bækur í afmælisgjöf (m.a. tvær fyrstu hér að neðan) sem höfðu þegar ratað í lestrarkompufærslu. Má þar nefna This Little Art eftir Kate Briggs og ævisöguna um Elizabeth Hardwick sem kemur út í nóvember.

Bókamerki & kompuskrif

Nýlega keypti ég:
  Essayism · Brian Dillon
  The Lost: A Search for Six of Six Million · Daniel Mendelsohn

... bætti á óskalistann:
  Damned to Fame: The Life of Samuel Beckett · James Knowlson
  Words in Air: The Complete Correspondence Between Elizabeth Bishop og
Robert Lowell · ritstj. Saskia Hamilton

... bætti á langar-að-lesa listann:
  Edge of Irony · Marjorie Perloff
  Letters to Camondo · Edmund de Waal

... forgangsraðaði á langar-að-lesa listanum:
  Snow Lepard · Peter Matthiessen

Liv Ullmann á íslensku:
  Bjartur gaf út bókina Hin órólegu í þýðingu Ingibjargar Eyþórsdóttur, sem hlaut tilnefningu til íslensku þýðingaverðlaunanna árið 2019. Í fyrrasumar var hún bók vikunnar á RÚV.

Janet Malcolm hlekkir:
  Í skemmtilegum samræðum við Ian Frazier á New Yorker Festival 2011.
  The Art of Nonfiction No. 4, viðtal í bókmenntaritinu The Paris Review vorið 2011.
  A life in writing: Janet Malcolm, viðtal í The Guardian, júní 2011.
  Útdráttur úr bókinni Forty-one False Starts, titilritgerðin eða prófíll hennar um málarann David Salle fyrir The New Yorker, tbl. 11. júlí 1994.
  Tveir atburðir: Brönsj og samræður við Janet Malcolm í mars 2013 á vegum Kelly Writers House við Háskólann í Pennsylvaníu. Kvöldið áður var hún með upplestur.
  Hún var einnig listakona og þekktust voru collage-verkin hennar, innblásin af ljóðum Emily Dickinson.
  Að lokum, minningarorðin um hana í The Guardian.



sunnudagur, 20. júní 2021

№ 27 bókalisti: Erpenbeck, Stepanova og Roth

Á № 27 bókalistanum mínum eru verk eftir Erpenbeck og Stepanova ásamt ævisögu Philips Roth · Lísa Stefan


Í bloggfærslu í apríl lofaði ég nýjum bókalista að loknum lestri á þriðja sjálfsævisögubindi Simone de Beauvoir. Það loforð sveik ég með stæl því stuttu síðar fékk ég óvænt verkefni í hendurnar. Þrátt fyrir annir hef ég haldið uppi góðri lestrarrútínu sem hefst eldsnemma á morgnana með kaffibollanum: er búin með bók Jenny Erpenbeck, vel hálfnuð með bæði Mariu Stepanovu og ævisögu Philips Roth og byrjuð að lesa allar hinar. Hvort sem þið trúið því eða ekki þá er ég að lesa Jón Kalman í fyrsta sinn. Fyrir tveimur árum setti ég The Years eftir Annie Ernaux í uppáhaldsflokkinn en nýverið gaf ég vinkonu eintak og hreinlega varð að lesa hana aftur.

№ 27 bókalisti:

1  Philip Roth: The Biography  · Blake Bailey
2  In Memory of Memory  · Maria Stepanova
3  Not a Novel: Collected Writings and Reflections  · Jenny Erpenbeck
4  The Radetzky March  · Joseph Roth
5  Heldenplatz  · Thomas Bernhard [þýsk]
6  Himnaríki og helvíti  · Jón Kalman Stefánsson
7  The Years  · Annie Ernaux [endurlestur]

Ensk þýðing: 2) In Memory of Memory: Sasha Dugdale; 3) Not a Novel: Kurt Beals;
4) The Radetzky March: Joachim Neugroschel; 7) The Years: Alison L. Strayer

Ef þið fylgist með bókafréttum þá hafa örlög ævisögunnar um Philip Roth varla farið fram hjá ykkur, bók sem margir biðu spenntir eftir. Í kjölfar ásakana um kynferðislega misnotkun gegn höfundinum Bailey, stöðvaði útgefandinn, W. W Norton & Company, dreifingu bókarinnar og tók hana endanlega af markaði (Bailey, sem hefur ekki verið fundinn sekur fyrir dómstólum, hefur þegar fundið nýjan útgefanda). Ég pantaði bókina fyrirfram, löngu áður en þessar fréttir bárust, og held að ég hefði keypt hana þrátt fyrir allt þar sem ég get alveg aðskilið listina frá listamanninum. Heimildaöflun er viðamikil og bókin vel skrifuð (Roth valdi Bailey sérstaklega til verksins) en ég viðurkenni að stundum kemur upp í hugann Af hverju þarf ég að vita þetta? þegar fjallað er um kynlíf Roths í smáatriðum.

Not a Novel var mín fyrsta bók eftir Erpenbeck, sem er einn af stóru rithöfundunum í Þýskalandi í dag. Þetta er ensk þýðing á óskálduðu efni eftir hana en gallinn er sá að þýðingin inniheldur einungis brot af upprunalega verkinu, Kein Roman, sem er helmingi lengra. Ég naut lestursins en stundum fannst mér efni endurtekið og í lokin upplifði ég eins konar gjá; þessi styttri útgáfa náði ekki að koma heilsteyptu verki til skila. Ég hef ég ekki lesið bókina á frummálinu en bæti úr því þegar þýskan er orðin betri.

Kápan á Philip Roth: The Biography eftir Blake Bailey (W. W. Norton) · Lísa Stefan
Kápa bókarinnar Philip Roth: The Biography eftir hinn núna-alræmda Blake Bailey

Rúm fimm ár eru liðin síðan ég deildi fyrsta bókalistanum og þar sem ég vel bækurnar vandlega þá hafa bara nokkrar valdið vonbrigðum. Á síðasta lista var safn stuttra ritgerða eftir Vivian Gornick sem ég get ekki mælt með: Unfinished Business: Notes of a Chronic Re-reader. Inngangurinn höfðaði vel til mín, og jók líklega væntingar mínar, en þegar ég las áfram þá varð það deginum ljósara að ég og Gornick erum mjög ólíkir lesendur: hún einblínir mjög á persónusköpun og virðist mjög upptekin af misheppnuðum ástarsamböndum í skáldskap. Þessi nálgun reyndi á þolinmæði mína. Í ritgerðunum opinberaðist ákveðin þversögn því Gornick er virkur femínisti og tónn skrifanna gaf mér ekki mynd af sterkri konu. Mér líkaði ein ritgerð um ítölsku skáldkonuna Nataliu Ginzburg, sem er enn á langar-að-lesa listanum mínum. Á þeim lista eru enn nokkur verk eftir Gornick en í sannleika sagt finn ég núna litla löngun til að forgangsraða þeim.

Peoníur og bókabunki á skrifborðinu mínu · Lísa Stefan


Lokunum í Austurríki vegna COVID-19 hefur loksins verið aflétt eftir stöðugar framlenginar frá síðasta hausti. Við erum enn skyldug til að nota FFP2-grímur og búum enn við takmarkanir, t.d. þarf vottorð um neikvæða skimun eða bólusetningu til að fara á kaffihús og veitingastaði. Nýverið fór ég í fyrstu bólusetninguna og fer í þá næstu eftir nokkrar vikur og mun þá loksins geta fengið mér latte hvenær sem er. Ég bið ekki um meira. Þangað til heldur lífið áfram að vera frekar lokunarlegt, eða lockdowny eins og ég kalla það á ensku.