mánudagur, 13. apríl 2015

Indverskt te (chai latte) og textílhönnun

Uppskrift: Indverskt te (chai latte) · Lísa Stefan


Í morgun fann ég fyrir slappleika og það var bara eitt sem líkaminn kallaði á: indverskt te eða chai latte. Ég smellti mynd af skálinni minni en ég naut tesins með bunka af The World of Interiors mér við hlið.

Fyrir þá sem hafa áhuga á textílhönnun: Á myndinni hér að ofan hvílir skálin mín á síðu í októberhefti ársins 2014 með umfjöllun um vatnslitamáluð mynstur eftir textílhönnuðinn William Kilburn (1745–1818). Þessi verk hans eru fáanleg í bók sem kallast Mr. Kilburn's Calicos: William Kilburn's Fabric Printing Patterns from the Year 1800 eftir Gabriel Sempill og Simon Lawrence. Bókin er dýr en örugglega hverrar krónu virði.

The World of Interiors, okt. 2014, bls. 112-113

Uppkriftinni að indverska teinu hafði ég þegar deilt á gamla matarblogginu en það er ætlun mín að smám saman endurbirta þær uppskriftir hér til halda öllu á einum stað. Ég hef gert þetta te í mörg ár og þessi hlutföll af kryddum eru alls ekki heilög heldur ætlað að vera leiðbeinandi; þið getið aukið hlutföll krydds eða sleppt því ef þið viljið. Passið bara að nota ekki of mikinn sykur því það eru miklu skemmtilegra að leyfa kryddbragðinu að njóta sín.

INDVERSKT TE (CHAI LATTE)

500 ml vatn
500 ml mjólk
4 pokar lífrænt svart te
2-2½ matskeið lífrænn hrásykur
1-3 kanilstangir eða 1 teskeið kanill
½ teskeið negulnaglar
¼ teskeið anísfræ eða 1 anísstjarna
nokkur svört piparkorn eða nýmalaður svartur pipar
örlítið engifer
örlítið múskat
örlítil kardamoma (má líka notar heilar kardamomur)

Setjið öll hráefnin í pott og sjóðið á meðal-hæsta hita. Fjarlægið pottinn af hellunni um leið og suðan kemur upp.

Berið teið fram í bollum eða skálum og njótið.

Önnur aðferð: Ef þið hafið tíma þá má byrja á því að sjóða vatnið með kryddunum eingöngu til að fá sterkara kryddbragð (ein kanilstöng ætti að vera nóg) og bæta svo hinum hráefnunum út í síðar. Það má líka flóa mjólkina sér og gera froðu til þess að láta þetta líta út eins og alvöru latte.




fimmtudagur, 9. apríl 2015

Letter from New York

Bókin Letter from New York eftir Helene Hanff · Lísa Hjalt


Nei, ég skrifa þetta ekki frá New York (væri samt ekkert á móti því) heldur var bara að klára að lesa þessa dásamlegu bók eftir Helene Hanff, Letter from New York, sem var gefin út árið 1992. Ég hef þegar sagt að ég pantaði notað eintak og mitt reyndist vera fyrsta útgáfa; eintak frá bókasafni með plastaðri kápu sem brakar í þegar síðu er flett - elska tilfinninguna!

Ég bloggaði nýverið um aðra bók eftir Hanff, 84 Charing Cross Road (sjá hér), og sagði ykkur að ég hefði fallið fyrir hnyttnum stíl hennar. Hún er alveg jafn fyndin í Letter from New York en bókin geymir sögur sem hún skrifaði í 6 ár fyrir Woman's Hour í útvarpi BBC eftir að 84 Charing Cross Road sló í gegn. Sögurnar eru um líf hennar í New York, um nágrannana (fólk og hunda - hún bjó við 305 East 72nd Street), vini, göngur um Central Park o.fl.



Líf Hanff er ekki fyllt glamúr en hún skrifar af ástríðu um daglegt líf í nágrenni sínu og um lífið á götum borgarinnar. Hún hefur næmt auga fyrir umhverfi sínu og fær mig oft til að hlæja upphátt. Hafi lesandinn ekki þegar ferðast til New York þá er líklegt að hann langi þangað eftir lesturinn, þrátt fyrir að Hanff sé að lýsa New York á síðari hluta áttunda áratugarins og á fyrrihluta þess níunda. Það sem mér finnst einstaklega skemmtilegt við Hanff er hversu auðvelt hún á með að gera grín að sjálfri sér. Ég vildi óska þess að hún væri enn á lífi því við þurfum á fólki eins og Hanff að halda í þessum heimi.

Ég þarf sennilega ekki að taka það fram en ég hef þegar pantað mína þriðju bók eftir Hanff og á von á notuðu eintaki af Q's Legacy í póstinum fljótlega




þriðjudagur, 7. apríl 2015

Vorblómin 2015

Magnólíur · Lísa Hjalt


Ég er bókstaflega ástfangin upp fyrir haus af þessu vori! Með hverju árinu sem líður verð ég meiri og meiri vormanneskja. Á Íslandi var haustið árstíðin mín en hérna megin við Atlantshafið á vorið hug minn og sál. Það eru aðallega blóm kirsuberja- og magnólíutrjánna sem hafa þessi áhrif. Ég tók myndavélina með í gær þegar við skelltum okkur í Walkers Nurseries gróðurstöðina sem er hérna rétt hjá. Það þarf annars ekki að fara þangað til að njóta þessara blóma; þessi tré eru hérna út um allt í allri sinni dýrð. Stundum vildi ég að það væri hægt að fá vor-lím þannig að hægt væri að njóta þessarar árstíðar aðeins lengur. En góðu fréttirnar eru þær að á eftir þessari árstíð kemur árstíð bóndarósanna!
Kirsuberjatré · Lísa Hjalt
Kirsuberjatré · Lísa Hjalt


sunnudagur, 5. apríl 2015

Bréf Mitford-systra | Gleðilega páska

Gleðilega páska | The Mitfords · Lísa Stefan


Ég vona að þessi páskasunnudagur leiki við ykkur. Ég var að vonast eftir sól í fríinu en þar sem skýin voru í aðalhlutverki þá skellti ég mér á bókasafnið í gær til að ná mér í lesefni. Ég var nýbúin að lesa bókina The Mitfords: Letters Between Six Sisters, í ritstjórn Charlotte Mosley (tengdadóttir einnar Mitford-systranna, Diana Mosley), og mig langaði að lesa meira um þessar áhugaverðu systur. Því miður reyndist safnið lokað og ég varð bara að sætta mig við tímarit og súkkulaði!



Í raun stóð það aldrei til að lesa fyrrnefnda bók. Ég fór á bókasafnið fyrir einhverjum vikum síðan til að fá að láni The Letters of Nancy Mitford and Evelyn Waugh (Nancy var elsta Mitford-systirin og varð þekktur rithöfundur; Waugh skrifaði m.a. skáldsöguna Brideshead Revisited), en því miður var bókin ekki fáanleg. Ég var að skoða í hillunum þegar bókasafnsvörðurinn kom til mín með bréf þeirra systra og sagðist hafa fundið bókina inni í geymslu; kannski að ég hefði áhuga á henni? Kápan heillaði mig strax en þar sem bókin var 830 blaðsíður þá hélt ég að ég myndi kannski bara rétt blaða í henni. Það fór auðvitað svo að ég las hana frá upphafi til enda og gat stundum ekki lagt hana frá mér.

Ég ætla ekki þreyta ykkur með löngum sögum af Mitford-systrum en það má segja að þær hafi verið áberandi í bresku samfélagi á 20. öldinni. „Dýnamíkin“ í sambandi þeirra var sérstök, eins og kemur fram í bréfunum, og nokkrar þeirra áttu ansi skrautlegt líf. Ég vissi afskaplega lítið um þær þegar ég byrjaði lesturinn en þið hefðuð átt að sjá mig þegar ég kom að þeim punkti í bókinni þar sem ein systirin, Unity, sat á veitingastað með sjálfum Adolf Hitler í München. Ég átti ekki von á lýsingum á persónutöfrum Hitlers en þær er svo sannarlega að finna þarna. Þessi tiltekna systir var gjörsamlega heilluð af manninum og hún reyndi að taka líf sitt þegar stríðið braust út árið 1939, en það er önnur (sorgleg) saga. Það er óhætt að segja að þessi bók fari með mann á undarlegar slóðir. Ef þið flettið upp á Mitford-systrum á netinu þá er af nógu að taka en ég fann stuttar greinar með ljósmyndum á vefsíðum BBC og The Guardian.

Gleðilega páska!


Ummerki eftir persneskan kött



mánudagur, 23. mars 2015

Kort og kjúklingaleggir

Kort og latte · Lísa Hjalt


Ég hélt að á þessum tímapunkti gæti ég sýnt ykkur vorið í allri sinni dýrð en sú myndataka verður aðeins að bíða því þetta vor virðist vera með smá hiksta. Það vantar ekki páskaliljur og krókusa í blóma en ég er að bíða eftir að ákveðið magnólíutré í bænum taki að blómstra. Þegar sá dagur kemur að ég labba fyrir hornið og sé tréð í fullum blóma þá verður vorið komið hjá mér. Og hvað hefur þetta að gera með kort og kjúklingaleggi? Nákvæmlega ekkert.
Kort úr bókunum The Food of France, myndskreyting eftir Russell Bryant,
og The Food of India, eftir Rosanna Vecchio

Nýverið var sonurinn að vinna að verkefni í skólanum sem snerist um mat, sem leiddi til enn meiri matarumræðu en gengur og gerist á heimilinu. Þar sem pizza er uppáhaldsmaturinn hans rataði Ítalía í verkefnið og þá kom nú kortið mitt að góðum notum. Síðan þá hefur kortið legið hérna á borðinu mínu og stuðlað að þó nokkru korta-oflæti (mér finnst myndskreytt kort líka svo flott) og ferðahugmyndum: Einn vill fara til Japans, annar til Fiji eða Hawaii og svo fékk ég líka spurninguna, Mamma, hvernig er í Norður-Kóreu?, sem varð til þess að ég fór að hugsa um hvort þar væri hægt að fá latte. Ég get nú ekki sagt að latte-drykkja í Norður-Kóreu hafi ratað á listann minn góða en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér?



Ég veit ekki hvar ég væri án Google-kortanna en ég verð að segja að það jafnast nú ekkert á við að dreifa úr stóru landakorti á borð og gera ferðaplön eða bara að láta sig dreyma.

Þar sem páskarnir eru á næsta leiti er ég aðeins farin að huga að því hvað ég eigi að bralla í eldhúsinu. Allar páskaminningar úr barnæsku snúast um páskaegg, veisluborð og fermingar. Ég veit ekki með ykkur en hjá okkur eru engar páskaveislur og við höfum þetta eins einfalt og hugsast getur. Hérna megin við Atlantshafið er líka veðrið yfirleitt orðið það gott að ég nenni ekki að vera inni að stússast í eldhúsinu þegar ég get verið úti í sólinni. Ég fór því að hugsa um kjúklingaleggi.
Kjúklingaleggir, maríneraðir · Lísa Hjalt


Mér líkar einfaldleikinn sem fylgir því að elda og bera fram maríneraða kjúklingaleggi. Maríneraður kjúklingur finnst mér mjög góður en ég vil ekki að maríneringin steli of miklu bragði frá kjúklingakjötinu. Kannski má segja að sú heimspeki eigi við alla mína matargerð því ég er lítið hrifin af því þegar eitthvað eitt tiltekið bragð verður einkennandi. Ég mæli með því að marínera leggina yfir nótt. Þegar ég ber þá fram með grjónum þá rista ég yfirleitt sesamfræ á pönnu og strái yfir grjónin áður en ég ber þau fram.

MARÍNERAÐIR KJÚKLINGALEGGIR

9-10 kjúklingaleggir (helst velferðar-/free-range)
1 matskeið jurtaolía
1 matskeið tamarisósa
1 matskeið appelsínusafi, nýkreistur
1 rautt chilli aldin
lítill bútur ferskt engifer
má sleppa: nokkrir dropar Tabasco-sósa

Fræhreinsið og fínsaxið chilli aldinið. Afhýðið og fínsaxið engiferið.

Setjið kjúklingaleggina ásamt öðru hráefni í góðan frystipoka. Lokið pokanum vel og veltið leggjunum í pokanum til að dreifa vel úr maríneringunni. Setjið pokann í skál og látið leggina marínerast í alla vega 2-4 klukkustundir í kæliskáp, helst yfir nótt og snúið þá pokanum nokkrum sinnum.

Þegar kjúklingaleggirnir hafa marínerast skuluð þið dreifa þeim í ofnskúffu með grind. Eldið við 200°C (180° ef blástursofn) í 35 mínútur (þar til safinn er orðinn glær).

Berið fram með, til dæmis, hvítum eða brúnum basmati hrísgrjónum og tamarisósu, og jafnvel með sneiðum af avókadó og rauðri papriku.

Recipe in English
Kjúklingaleggir · Lísa Hjalt