miðvikudagur, 8. febrúar 2017

№ 7 bókalisti | Vanessa Bell sýning

№ 7 bókalisti | Vanessa Bell-sýning · Lísa Stefan


Í gamla minnisbók hef ég skrifað tilvitnun sem fær mig alltaf til að hlæja. Leikkonan Emma Thompson var í NYT-dálkinum By the Book og þegar hún var spurð út í síðustu bókina sem fékk hana til að gráta svaraði hún: „I was on holiday years ago with “Corelli’s Mandolin.” Rendered inconsolable and had to be put to bed for the afternoon“ (Sunday Book Review, 23.09.2012). Ég dýrk'ana. Það er kominn tími á annan bókalista og bók Bernières er á honum, Vintage Books útgáfa, fallega myndskreytt af Rob Ryan. Þarna er líka skáldsaga eftir Sigurð Pálsson, sem er í miklu uppáhaldi. Ég sá hann stundum á kaffihúsum í Reykjavík, alltaf svo smart til fara, gjarnan með mynstraðan silkihálsklút eða alpahúfu (hann lærði í Frakklandi). Ég hef þegar minnst á Doris Lessing og að ég væri að endurlesa Little Women. Hér er № 7 bókalistinn, sá fyrsti árið 2017 (til þæginda hef ég númerað listana):

1  Fictions  · Jorge Luis Borges
2  The Grass is Singing  · Doris Lessing
3  The Golden Notebook  · Doris Lessing
4  Captain Corelli's Mandolin  · Louis De Bernières
5  Instead of a Book: Letters to a Friend  · Diana Athill
6  Local Souls  · Allan Gurganus
7  Parísarhjól  · Sigurður Pálsson
8  Little Women  · Louisa May Alcott
9  In Montmartre: Picasso, Matisse and Modernism in Paris, 1900-1910  ·
Sue Roe


Ég er næstum því með samviskubit yfir því að hafa ekki lesið æviminningar Athill, Instead of a Letter, en þegar ég sá Instead of a Book á útsölu í Waterstones vissi ég að hún færi á listann minn. Í bókinni eru bréf sem hún skrifaði í yfir þrjátíu ár til ameríska ljóðskáldsins Edward Field, sem geymdi þau og vildi gefa út. Í innganginum bendir Athill gamansamlega á:
Usually when someone's letters are published the writer is dead. In this case there was a problem: Edward is six years younger than I am, but since I'm ninety-three that doesn't make him young. If he waited until I was dead he might be dead too. (bls. vii)
Hrós til rithöfunda sem fá mann til að skella upp úr í bókabúð! Ég hef aldrei lesið bók eftir höfundinn Gurganus. Ég keypti bókina hans eftir að hafa hlustað á samræður hans og Michael Silverblatt í Bookworm (þætti frá nóv. 2013) og endaði á því að hlusta á allar samræður þeirra. Ég var að hugsa um að setja hana upp í hillu og lesa fyrst Oldest Living Confederate Widow Tells All, en hún togaði í mig og fór á listann. Það gladdi mig að finna bók Roe á bókasafninu. Það eina sem ég get sagt um hana núna er að ég vildi að í henni væru fleiri myndir (á myndinni minni hér að ofan sést í málverk Modigliani, Caryatid, 1911).

Listaverk: Vanessa Bell, Nude with Poppies, 1916
Vanessa Bell, Nude with Poppies, 1916

Stundum vildi ég óska að ég byggi nær London. Þá gæti ég tekið næstu lest til að sjá Vanessa Bell sýninguna í Dulwich Picture Gallery sem opnar í dag (þangað er stutt lestarferð frá miðri London). Listakonan Vanessa Bell (1879–1961) tilheyrði bóhemíska Bloomsbury-hópnum og var systir Virginiu Woolf (ljósmyndin af henni sem sést á myndinni minni er tekin fyrir utan Charleston-setrið árið 1925). Sýningunni lýkur 4. júní. Í tengslum við sýninguna kemur út bókin Vanessa Bell (ritstj. Sarah Milroy, Philip Wilson Publishers) sem mig langar að eiga. Ef þið eruð Bell-aðdáendur þá langar mig að benda ykkur á safnaratölublað Harper's Bazaar UK, mars 2017, sem er eingöngu fáanlegt í gegnum Dulwich-safnið.

Ljósmynd af Vanessu Bell sem sést á minni mynd er úr bókinni Charleston: A Bloomsbury House & Garden og málverk Amedeo Modigliani úr bókinni In Montmartre á bókalistanum (© Musée d'Art Moderne de la Ville de Paris) | Vanessa Bell listaverk af vefsíðu Art UK (© 1961 estate of Vanessa Bell, Henrietta Garnett, Swindon Art Gallery)



fimmtudagur, 2. febrúar 2017

Map Stories eftir Francisca Mattéoli

Ritdómur: Map Stories eftir Francisca Mattéoli · Lísa Stefan


Munið þið eftir ykkar fyrsta atlas, ykkar eigin? Fyrir utan myndir af hnettinum þá var forsíðan á mínum svört með hvítum stöfum. Ég var tíu eða ellefu ára og gleypti hann í mig. Landakort hafa undarlegt aðdráttarafl og virðast gefa von um stórkostleg ævintýri. Gömul landakort hafa alltaf heillað mig, sérstaklega þessi myndskreyttu sem eru landfræðilega kolröng. Myndir af sjávarskrímslum og seglskipum gera þau enn meira heillandi. Þið getið rétt ímyndað ykkur spenninginn þegar mér barst fyrir nokkrum mánuðum síðan eintak af nýrri bók, Map Stories: The Art of Discovery (Octopus (Ilex)). Höfundurinn Francisca Mattéoli sérhæfir sig í ferðaskrifum. Í bókinni notar hún tuttugu og þrjár sögur og frábært safn sögulegra landakorta til að halda með okkur á vit ævintýra um allan heiminn þar sem við hittum kortagerðarmenn, landfræðinga, könnuði og draumóramenn. Stundum fannst mér sem ég væri að stíga inn í vídd þar sem Bilbo Baggins hittir Indiana Jones.

Kort af Nílardal eftir Nicolas de Fer og gefið út 1720, bls. 44-45

Mattéoli er ekki fræðingur á sviði landafræði og bók hennar er ekki hugsuð sem fræðirit. Í formálanum skrifar hún: „Þetta er bók sem býður lesandanum í ferðalag frá landakorti til landakorts til að hleypa ímyndunaraflinu lausu“ (bls. 7). Það er einmitt þar sem gerir bókina heillandi.

Ferðalag Mattéoli byrjar með enduruppgötvun hinnar týndu borgar Petru og endar í Kína eftir för um Silkiveginn. Þar á milli erum við á slóð Inkanna, á hinum dularfulla stað Machu Picchu; í kappinu á Suðurpólinn; á Þjóðvegi 66; í leit að upptökum Nílar; um borð í Austurlandahraðlestinni; kannski að velta því fyrir okkur hvort skrímslið Nessie leynist einhvers staðar í Loch Ness. Þetta er bara brot af áfangastöðunum.

Heimskort feneyska munksins Fra Mauro, ca. 1449, bls. 100-101

Það veltur alfarið á áhugasviði ykkar og sögulegri þekkingu hvort sumar sögur Mattéoli hljómi kunnuglegri en aðrar og hvort þær kenni ykkur eitthvað nýtt. Sérstakan áhuga hjá mér vakti sú um leitina að upptökum Nílarárinnar - leiðangur Richard Burton og John Speke - sem minnir meira á ráðgátu með dramatískum endi. Eftirfarandi lýsing er fengin af ljósmynd af kortaherbergi í Hinu konunglega landfræðifélagi (Royal Geographical Society):
[It] is plunged in a dusty half-light and decorated with maps, as one might expect. An enormous terrestrial globe fills one corner. On the upper floor, dark wood shelves are stacked with carefully arranged documents and books. On the ground floor, two large display cabinets protect the most precious objects and on a long table standing in the center of the room, pages lie spread out as if waiting to be consulted by some very serious gentleman. This was the setting that would soon be at the heart of the scandal. It was here, or at least in a similar room of this distinguished institution founded in 1830 that, around a hundred years ago, a disagreement broke out regarding the source of this fabled river, which would soon turn into a downright controversy and then a brutal confrontation. (bls. 42)

Kort af Síle (Chile), 1884, bls. 157

Með aðstoð Mattéoli hittum við ævintýramenn eins og Thomas Edward Lawrence, eða sjálfan Arabíu-Lawrence, norska landkönnuðinn Roald Amundsen, sem fyrstur náði á suðurskautið, og Peter Fleming (bróðir Ian Fleming), sem árið 1932 tók þátt í Amazon-leiðangri eftir að hafa séð auglýsingu í The Times (bók hans Brazilian Adventure, sem kom út 1933, er enn í prentun).

Map Stories gerir okkur kleift að dást að verkum frægra kortagerðarmanna og má þar nefna: Fra Mauro (sjá mynd mína hér að ofan), Fernão (Fernando) Vaz Dourado, Nicolas de Fer (sjá kort að ofan af Nílardal), Willem Blaeu og son hans Joan, Martin Behaim, Pedro Reinel og Lopo Homem, Jodocus Hondius, Guillaume Le Testu og John Speed.

Í bókinni er eitthvað fyrir alla. Og ef þið standið sjálf ykkur að því að fletta upp gömlum ferðakoffortum á netinu, eða öðrum gömlum munum sem tengjast ferðalögum, þá skil ég ykkur fullkomlega.

Kort af Suðurpólnum, 1912, bls. 120-121

Einkum er ég hrifin af hönnun bókarinnar sem er falleg viðbót í safnið á kaffiborðinu. Kortið á forsíðunni er upphleypt og innri kápan er gamalt landakort með teikningum af helstu fjöllum og ám ásamt upptökum og ósum (sjá kort). Uppsetning textans er skýr og efst á vinstri blaðsíðum eru hnit þess staðar sem um ræðir. Landakortin eru ýmist á einni blaðsíðu eða á opnu. Mig langaði að klippa sum út og ramma inn sem því miður hefði skemmt bókina.

Rithöfundurinn Francisca Mattéoli
Francisca Mattéoli er höfundur margra ferðatengdra bóka sem hafa verið þýddar á mörg tungumál. Hún hefur einnig skrifað ferðagreinar fyrir tímarit eins og National Geographic, Condé Nast Traveller og Air France Magazine. Hún heldur einnig úti bloggi á frönsku og ensku. Hún býr í París en ólst að vísu upp í Suður-Ameríku með síleskt þjóðerni (móðir er skosk). Hún vinnur nú þegar að sinni næstu bók.


Map Stories: The Art of Discovery
Höf. Francisca Mattéoli
Innbundin, 176 blaðsíður, myndskreytt
Octopus


Brot af Evrópukorti, notað í kennslu á grunnskólastigi, frá árinu 1880, bls. 143

Landakortin úr bókinni eru birt með leyfi Octopus Publishing Group (nr. 5 í breyttu formi) | Landakort - heimildir: nr. 1 (forsíða) © akg-images/North Wind Picture Archives; nr. 2, 4-5, 7 © Bibliothèque Nationale de France; nr. 3 © akg-images/British Library



þriðjudagur, 24. janúar 2017

Brauðbollur | Tómatsúpa með næpum og steinselju

Brauðbollur með sesamfræjum (vegan) · Lísa Stefan


Matarmiklar súpur og heimagerðar brauðbollur halda mér gangandi þessa dagana þegar í huganum mig langar eina helst að flýja til annarrar plánetu. Í alvöru, ég held að þetta Trump-hugmyndafræði-tímabil sem við erum stigin inn í sé að hafa neikvæðari áhrif á mig en ég bjóst við. Tilhugsunin um fjögur ár af „öðrum mögulegum staðreyndum“ er allt annað en upplífgandi. Veit ekki hvar ég væri án bóka; í viðleitni minni til að forðast fréttir er ég byrjuð að hlusta á bókahlaðvörp frá árinu 2012! Lít á það sem þerapíu. Einnig gæðastundir í eldhúsinu. Ljósmynd af brauðbollum sem ég birti á Instagram á sunnudaginn var kveikjan að þessari færslu. Tveir báðu um uppskriftina og ég ákvað að baka þær aftur og deila á blogginu ásamt annarri uppskrift að tómatsúpu með næpum og steinselju.

Uppskriftin að brauðbollunum er í raun brauðuppskrift (án fræja) sem er prentuð á umbúðir af fljótvirku geri frá Doves Farm (e. quick yeast). Það þarf ekki að virkja það heldur er því blandað saman við mjölið á undan vökvanum. Sesamfræin eru mín viðbót og oftast strái ég þeim og birkifræjum (e. poppy seeds) yfir bollurnar. Í upprunalegu uppskriftinni er hefðbundið hveiti en þegar ég baka bollurnar kýs ég að skipta út 60 grömmum (¼ bolli) af fínmöluðu fyrir grófmalað spelti, rétt til að auka trefjarnar.

BRAUÐBOLLUR MEÐ SESAMFRÆJUM

500 g fínmalað spelti eða lífrænt hveiti
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
1 teskeið lífrænn hrásykur
1 teskeið (Doves Farm) fljótvirkt ger
1 matskeið sesamfræ
275-300 ml heitt vatn
1 matskeið kókosolía (eða önnur jurtaolía)
má sleppa: mjólk/sojamjólk til að pensla bollurnar
og sesam- og birkifræ til að strá yfir

Blandið saman mjöli, salti, sykri, fljótvirku geri og sesamfræjum í stórri skál með sleif.

Blandið heitu vatni saman við, byrjið með 275 ml, og bætið olíunni saman við þegar deigið fer að festast saman (ef þið notið kókosolíu látið þá krukkuna standa í heitu vatni fyrir notkun; í upprunalegu uppskriftinni er 1 teskeið af olíu). Bætið 1-2 matskeiðum af vatni saman við ef þörf er á.

Stráið örlitlu mjöli á borðplötu og hnoðið deigið í höndunum í 4-5 mínútur. Setjið deigið svo aftur í skálina og breiðið viskustykki yfir. Látið deigið hefast á hlýjum stað í a.m.k. 35 mínútur.

Skiptið deiginu í 8 hluta og mótið úr því kúlur. Setjið kúlurnar á ofnplötu með bökunarpappír og fletjið hverja út með því að þrýsta rétt aðeins ofan á þær með lófanum. Penslið með mjólk/sojamjólk og stráið sesam- og birkifræjum yfir. Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 12-14 mínútur.
Tómatsúpa með næpum og steinselju · Lísa Stefan


Bragð súpunnar skrifast að hluta á tvö yngstu börnin. Það var á köldum degi sem okkur langaði í súpu með næpum, selleríi og linsubaunum. Við elskum rófur og næpur (þessar hvítu eða gulleitu með fjólubláum blæ); þær gefa trefjar, B6- og C-vítamín til að nefna einhver heilsubætandi áhrif. Við kíktum á netið og fundum uppskrift að rauðri linsubaunasúpu með næpum og steinselju á vefsíðu Martha Stewart, sem við notuðum sem innblástur. Megin munurinn er sá að við notum mun minna af linsum í okkar og við völdum niðursoðna plómutómata í stað hrárra tómata. Þessi hefur oft mallað í pottinum á köldum dögum í janúar.

TÓMATSÚPA MEÐ NÆPUM OG STEINSELJU

1 matskeið létt ólífuolía
1 laukur
3 hvítlauksrif
2 sellerístilkar
1 næpa
1 dós (400 g) plómutómatar
1250 ml vatn
60 g / 75 ml rauðar linsubaunir
klípa broddkúmen (ground cumin)
klípa reykt paprika
1 lítið lárviðarlauf
½-1 teskeið gróft sjávar/Himalaya salt
nýmalaður svartur pipar eftir smekk
1 teskeið Modena balsamedik
75 ml fínsöxuð fersk flatblaða steinselja

Byrjið á grænmetinu. Afhýðið og saxið laukinn. Sneiðið selleríið fínt. Afhýðið hvítlauksrifin, sneiðið eitt fínt og pressið hin tvö þegar þau eiga að fara í pottinn. Afhýðið næpuna, skerið í bita og setjið til hliðar.

Hitið olíuna í meðalstórum potti við meðalhita. Léttsteikið lauk, sellerí og hvítlauk í 5 mínútur eða þar til mjúkt og hrærið rólega á meðan.

Stillið á hæsta hita og bætið plómutómötum ásamt vökva, rauðum linsum (skolið fyrst), næpubitum og vatni út í. Hitið að suðu, minnkið hitann, bætið ½ teskeið af salti út í og lófafylli af saxaðri steinselju og svörtum pipar. Eldið við vægan hita í 25 mínútur.

Undir lokin skuluð þið hræra út í pottinn balsamedikinu, restinni af steinseljunni og salta örlítið meira ef þarf. Til að gera matarstundina enn notalegri berið þá súpuna fram með heimabökuðu brauði eða brauðbollum.

Nýleg mynd á @lisastefanat sem var kveikjan að þessari bloggfærslu



föstudagur, 20. janúar 2017

Kaffiborðsbækur | Bitten by Witch Fever

Kaffiborðsbækur | Bitten by Witch Fever · Lísa Stefan


Nýverið nefndi ég að ég væri með nokkrar kaffiborðsbækur í augsýn. Sumar eru þegar fáanlegar, aðrar koma fljótlega eða í vor, eins og Hokusai: Beyond the Great Wave. Á listanum er ein sem ég er þegar byrjuð að lesa með miklum áhuga, Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home eftir Lucinda Hawksley, sem var jólagjöf frá vinkonu. Í bókinni eru kynntar 275 prufur af veggfóðri sem voru rannsakaðar og reyndust innihalda arsenik.

Mig hefur langað að bæta við nýrri listabók á kaffiborðið mitt og ég held að ég hafi fundið þá réttu, Hokusai: Beyond the Great Wave. Í bókinni eru 300 myndir af verkum japanska listamannsins Katsushika Hokusai (1760–1849), sem hann skapaði á síðustu þrjátíu árum ævi sinnar. Útgáfa bókarinnar (snemma í maí) á sér stað samhliða sýningu sem opnar í British Museum þann 25. maí, og lýkur í ágúst. Það sem mig langar að komast til London til að sjá sýninguna og eyða nokkrum dögum í Bloomsbury-hverfinu.

Listaverk: Katsushika Hokusai
Katsushika Hokusai, Clear day with a southern breeze (Red Fuji), 1831

Við skulum kíkja á listann yfir kaffiborðsbækurnar, í handahófskenndri röð með stuttum athugasemdum við hverja (kannski hafið þið séð einhverjar hér til hliðar á blogginu):


· The Japanese House: Architecture and Life: 1945 to 2017  eftir Pippo Ciorra og Florence Ostende (Marsilio). Ef arkitektúr er ástríða ykkar þá tekur þessi yfirgripsmikla bók fyrir japanskan arkitektúr frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar til nútímans.
· The Long Life of Design in Italy: B&B Italia. 50 Years and Beyond  eftir Stefano Casciani (Skira). Árið 1966 stofnaði Piero Ambrogio Busnelli ítalska húsgagnafyrirtækið B&B Italia og núna getum við notið sögu þess í fallegu riti (sjá stutt myndband á vefsíðu þeirra).
· Blumarine: Anna Molinari eftir Elena Loewenthal, í ritstjórn Maria Luisa Frisa (Rizzoli). Drottning rósarinnar, hönnuðurinn Anna Molinari, hjá ítalska tískuhúsinu Blumarine á marga aðdáendur. Ég held að margt áhugafólk um tísku bíði eftir útgáfu þessarar bókar, sem inniheldur ljósmyndir eftir menn eins og Helmut Newton, Tim Walker, Albert Watson og Craig McDean. Ég myndi kaupa hana bara vegna bókarkápunnar!
· Adobe Houses: House of Sun and Earth  eftir Kathryn Masson (Rizzoli). Mig langar að komast yfir þessa sem sýnir 23 heimili í Kaliforníu, innan- og utandyra. Adobe-hús með hvítþvegnum veggjum og sýnilegum bjálkum ... já takk.
· Art House: The Collaboration of Chara Schreyer & Gary Hutton  eftir Alisa Carroll (Assouline). Myndræn veisla: fimm heimili hönnuð með það að markmiði að rúma 600 listaverk, samstarf listaverkasafnarans Schreyer og innanhússhönnuðarins Hutton.
· Flourish: Stunning Arrangements with Flowers and Foliage  eftir Willow Crossley (Kyle Books). Ef ykkur langar að endurskreyta heimilið með blómum þá er ég viss um að þið getið sótt innblástur í bók Willow Crossley, sem Emma Mitchell ljósmyndaði fallega.
· Around That Time: Horst at Home in Vogue  eftir Valentine Lawford og Ivan Shaw (Abrams Books). Ég hef ekki enn fundið þessa í bókabúð, bara séð umfjöllun í tímaritum (það glittir í eina á neðstu myndinni). Bókin inniheldur, meðal annars, ljósmyndir eftir Horst P. Horst sem birtust í Vogue's Book of Houses, Gardens, People frá árinu 1968 (lífsförunautur hans Valentine Lawford skrifaði textann). Formála bókarinnar skrifar Hamish Bowles hjá Vogue. Sjá meira hér.
· Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home  eftir Lucinda Hawksley (Thames & Hudson, gefin út í samstarfi við The National Archives). Fyrrnefnd bók sem sýnir 275 prufur af veggfóðri eftir hönnuði eins og Corbière, Son & Brindle, Christopher Dresser og Morris & Co. (Sjá meira hér að neðan.)
· Hokusai: Beyond the Great Wave  eftir Timothy Clark, Shugo Asano og Roger Keyes (Thames & Hudson). Fyrrnefnd bók um japanska listamanninn Katsushika Hokusai sem inniheldur verk sem hann skapaði á síðustu þrjátíu æviárunum. Í bókinni fær dóttir hans Eijo (Ōi) löngu tímabæra athygli, en hún telst til listamanna Edo-tímabilsins, á síðari hluta 19. aldar. Útgáfa bókarinnar á sér stað samhliða sýningu í British Museum sem opnar í maí.

Listaverk: brot af verki eftir Hokusai
Brot af verki Hokusai, The poet Rihaku lost in wonder at the majesty of the great waterfall

Ég varð að birta hér myndir af tveimur verkum Hokusai í því sem líklega útleggst á íslensku sem viðarprent (e. woodblock printing). Ferill hans spannaði sjö áratugi en flestir þekkja til verkanna sem hann skapaði á síðari hluta ævinnar. Blái liturinn, hinn prússneski blái, eins og hann kallast, hefur alltaf heillað mig og laðað mig að verkum Hokusai.

Fyrir þá sem hafa áhuga á skoða fleiri verk eftir Hokusai (eða annað listafólk) þá má finna gott yfirlit verka hans á vefsíðu Artsy og ritstjórnargrein með skemmtilegum staðreyndum. Artsy er vefsíða sem ég bætti bara nýlega á listann minn og varð strax í uppáhaldi (þau eru líka með hlaðvarp). Stefna Artsy er að gera alla list heimsins aðgengilega þeim sem hafa netaðgang.

„Blue Bird Amongst the Strawberries“, mynstur eftir Charles F. A. Voysey, minnir á hið þekkta
„Strawberry Thief“ frá 1883 eftir William Morris. Úr bókinni Bitten by Witch Fever, bls. 131

Við lestur Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home, sem ég er enn að lesa, hef ég gert mér grein fyrir því að ég hafði ekki hugmynd um að eitraðir litir hefðu verið notaðir til að hanna veggfóður án þess að það teldist hættulegt (það var Carl Wilhelm Scheele sem árið 1775 notaði arsenik til að búa til grænan lit, Scheele's Green, sem varð vinsæll og var t.d. notaður til að búa til skæran grænan lit fyrir veggfóður):
Many dismissed as ludicrous the doctors who held that the wallpapers were poisonous, including English wallpaper designer William Morris, who stated that they 'were bitten as people were bitten by the witch fever'. (bls. 7)
Ég varð að fletta upp í síðasta kaflanum til að komast að því að veggfóður laus við arsenik voru ekki framleidd í Bretlandi fyrr en 1859, án þess að almenningur veitti því sérstaka eftirtekt. Þar var ekki fyrr en upp úr 1870 að Morris & Co. „létu loksins undan þrýstingi almennings“ og þá varð það „stórfrétt“ (bls. 226). Þessi bók er svo sannarlega áhugaverð svo ekki sé minnst á fallega hönnun: Það eru sjö stuttir kaflar - í útliti eins og bæklingar - á milli kafla með mynstrum í litaröð, sem sýna veggfóðrin sem voru rannsökuð.

Kaffiborðsbækur | Bitten by Witch Fever, veggfóður · Lísa Stefan
Ljósgrænn. Corbière, Son & Brindle, London, UK, 1879. Bitten by Witch Fever,
Mynsturkafli V, bls. 141

Katsushika Hokusai listaverk af vefsíðum: 1. The British Museum, 2. Thames & Hudson Útgáfulisti vor 2017



föstudagur, 6. janúar 2017

Bækur og kaffi | Gleðilegt ár

Bækur og kaffi · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég vona að þið hafið slakað vel á yfir hátíðarnar og að ykkar bíði eitthvað skemmtilegt á árinu 2017. Við erum enn í hátíðargír, fyrir utan veislumatinn. Að springa úr seddu eftir gamlárskvöld stakk eitt barnanna upp á því að hafa bara epli og gulrætur á matseðli vikunnar, sem mér fannst helst til öfgafullt. Við vorum bara heima um jólin og röltum stundum í Waterstones til að fá okkur latte á kaffihúsinu þeirra. Það var nóg að skoða bara í bókabúðinni því nóg var um bækur undir jólatrénu. Muniði eftir því fyrir um mánuði síðan þegar ég minntist á að lesa aftur Little Women ef ég ætti innbundnu útgáfuna frá Penguin? Haldiði að eiginmaðurinn hafi ekki gefið mér hana í jólagjöf og tvö önnur klassísk verk. Þessar útgáfur eru svo fallegar. Ég hef ekki klárað verkin á síðasta bókalista en fór lesandi Louisu May Alcott inn í nýja árið. Þessa dagana er ég að nóta hjá mér hugmyndir fyrir þann næsta og eftir ferð okkar á bókasafnið á miðvikudaginn eru nokkrar sem bara bíða lesturs. Til að gefa ykkur vísbendingu: Á borðinu mínu sjáið þið The Golden Notebook eftir Doris Lessing. Ég deili listanum síðar.

Í desember horfði ég aðeins á sjónvarp (í meiningunni að ná nokkrum dagskrárliðum á BBC iPlayer - ég horfi ekki á sjónvarp, ég les). Maggie Smith og Alex Jennings voru frábær í myndinni The Lady in the Van (2015). Hvernig Alan Bennett hélt út fimmtán ár með Mrs Shepherd í innkeyrslunni er ofar mínum skilningi. Á BBC var sýnd heimildarmyndin Alan Bennett's Diaries (2016) eftir Adam Low sem var gaman að sjá. Ég er að hugsa um að lesa dagbækur Bennett eftir að hafa skoðað nýjasta bindið, Keeping On Keeping On, í bókabúð. Og já, ég var yfir mig hrifin af kvikmyndinni NW, í leikstjórn Saul Dibb, handritsgerð Rachel Bennette, sem er byggð á samnefndri bók eftir Zadie Smith. Ég kláraði bókina áður en ég horfði á hana og leikhópurinn var frábær, sérstaklega Nikki Amuka-Bird sem heldur betur á verðlaun skilið fyrir túlkun sína á Natalie/Keisha Blake. Hún var stórkostleg. Það eina sem olli mér vonbrigðum var að þau slepptu hinni tragísku og fyndnu Annie, úr „guest“-kaflanum um Felix, en ég skil vel út af hverju það var gert.

Jæja, tími til kominn að klára að gera fínt fyrir helgina. Fljótlega deili ég ritdómi mínum um Map Stories eftir Francisca Mattéoli, sem til stóð að gera fyrir jól, og ég er með nokkar kaffiborðsbækur í sjónmáli.