þriðjudagur, 11. júní 2019

№ 21 bókalisti: ritgerðir eftir Zambra

№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Stefan


Jæja, það er kominn tími á fyrsta bókalista sumarsins. Samkvæmt hefð er eitt ritgerðasafn á honum, Not to Read eftir chileska rithöfundinn Alejandro Zambra (No Leer á spænsku). Í þeirri fyrstu viðurkennir hann að hafa sem krakki horft á Madame Bovary (1949) fyrir próf í stað þess að klára að lesa bókina. Til hliðar við rautt F skrifaði kennarinn hans: „Vincente Minnelli!!“ Þessar stuttu ritgerðir eru konfekt fyrir bókaunnendur. Ég ætlaði að hafa á listanum skáldsögu sem ég var byrjuð að lesa, The Friend eftir Sigrid Nunez sem hlaut verðlaunin National Book Awards fyrir bókmenntir árið 2018, sem veitt eru í BNA. Mér fannst hún áhugaverð, einkum vegna bókmenntalegra tilvísana (sögumaðurinn er rithöfundur), en svo fór mér að leiðast ritstíllinn og ég kláraði hana ekki. Það er heilsusamlegt að endurlesa eitthvað gott eftir lestur sem veldur vonbrigðum; ég valdi Mávinn eftir rússneska leikskáldið Anton Chekhov.

№ 21 bókalisti:
1  Not to Read  · Alejandro Zambra
2  The Collected Stories of Grace Paley 
3  Milkman  · Anna Burns
4  Disgrace  · J. M. Coetzee
5  The Voyage Out  · Virginia Woolf
6  Journal of Katherine Mansfield  · ritstj. John Middleton Murry
7  The Seagull  · Anton Chekhov

Enskar þýðingar: 1) Not to Read: Megan McDowell; 7) The Seagull: Laurence Senelick

Þið sem fylgist með blogginu vitið að Virginia Woolf er í miklu uppáhaldi. Háskólabókasafnið í Bremen á gömul bindi af öllum verkum hennar frá Hogarth Press, útgáfunni sem hún og maðurinn hennar Leonard settu á fót. Þessar innbundnu útgáfur eru fagurgrænar að lit og fyrst fékk ég The Voyage Out, hennar fyrstu skáldsögu, að láni bara til að fletta henni. Bókin er ekki mín uppáhalds eftir Woolf en ég stóðst ekki freistinguna og ákvað að endurlesa hana.
№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Stefan


Ég viðurkenni að stundum sakna ég gömlu bloggvenja minna, þegar ég safnaði myndum af innlitum í möppur og gat ekki beðið eftir að deila þeim. Þið kunnið að hafa tekið eftir að stundum nota ég myndir af málverkum í bloggfærslur, en núna ákvað ég að sýna ykkur tvö rými á heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London, sem birtist í tímaritinu House & Garden UK. Þessi listrænu horn - þar sem kaffiborðinu bregður fyrir og bókahillunni við gluggann - höfða til áhugakonunnar um innanhússhönnun innra með mér. Fágað og smekklegt.

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte
Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London.
House & Garden UK/Greg Funnell



föstudagur, 26. apríl 2019

№ 20 bókalisti | Lee Krasner sýning í London

№ 20 bókalisti | Sýningin Lee Krasner: Living Colour · Lísa Stefan


Ég sit undir markísu á veröndinni og anda að mér vorinu, ilmi fjólublárra og hvítra sýrena úr horni garðsins. Bókahlaðvörp spilast eitt af öðru í tölvunni. Eigum við að kíkja á verkin á bókalistanum? Í fyrra kom út í nýrri þýðingu, eftir ljóðskáldið Michael Hofmann, klassíkin Berlin Alexanderplatz eftir Alfred Döblin, gefin út af New York Review Books. Ég er hrifin af bókahönnun þeirra og margir titlar hafa ratað á óskalistann. Ég las aldrei gömlu þýðinguna þannig að ég hef engan samanburð. Undirheimar Berlínar eru sögusviðið, Weimar-lýðveldið upp úr 1920, og í upphafi bókar er hinn skrautlegi Franz Biberkopf að koma úr fangelsi, staðráðinn í að snúa blaðinu við. Hin bókin sem ég keypti til að setja á listann er The Years eftir Annie Ernaux, sem ég minntist á síðustu færslu. Aðrar koma úr hillum bókasafnsins.

№ 20 bókalisti:
1  The Years  · Annie Ernaux
2  Berlin Alexanderplatz  · Alfred Döblin
3  The Wife  · Meg Wolitzer
4  The Mexican Night  · Lawrence Ferlinghetti
5  The Garden Party  · Katherine Mansfield
6  It All Adds Up  · Saul Bellow
7  The Diary of Anaïs Nin 1931-1934 

Enskar þýðingar: 1) The Years: Alison L. Strayer; 2) Berlin Alexanderplatz:
Michael Hofmann

Það eru ár síðan ég las bindi af dagbókum Anaïs Nin og mér fannst eitthvað notalegt við að grípa ofan í það sem er á listanum, sem byrjar árið 1931. Ég hef lengi ætlað mér að lesa sögur eftir Katherine Mansfield en henni kynntist ég í gegnum dagbækur og bréfaskrif Virginiu Woolf. Smásögusafnið The Garden Party byrjar vel og mér líkar strax ritstíllinn. Mansfield var ekki nema 34 ára þegar hún lést og maður getur rétt ímyndað sér hverju hún hefði getað áorkað sem rithöfundur.

Listaverk: Lee Krasner, Desert Moon, 1955. LACMA. © The Pollock-Krasner Foundation
Lee Krasner, Desert Moon, 1955

Mig langar í menningarferð til London í sumar, til að sjá sýninguna Lee Krasner: Living Colour í listagalleríi Barbican Centre, sem opnar 30. maí. Lee Krasner (1908–1984) var amerísk listakona, fædd í Brooklyn, og var brautryðjandi abstrakt expressjónisma. Í kynningarskrá segir að í „kraftmiklum verkum hennar endurspeglist andi tækifæranna í New York eftirstríðsáranna“ og að sýningin „segi sögu stórkostlegs listamanns, hvers mikilvægi hefur of oft fallið í skugga hjónabands hennar og Jackson Pollock.“

Þetta er fyrsta stórsýningin á verkum Lee Krasner í Evrópu í meira en 50 ár, skipulögð af Barbican Centre í samvinnu við listasöfnin Schirn Kunsthalle Frankfurt, Zentrum Paul Klee í Bern og Guggenheim Bilbao. Samhliða sýningunni kemur út bókin Lee Krasner: Living Colour eftir Eleanor Nairne, í útgáfu Thames & Hudson.

Í október verður hægt að njóta verka Lee Krasner hér í Þýskalandi, á safninu Schirn Kunsthalle Frankfurt.

Listakonan Lee Krasner í vinnustofu sinni. Kasmin Gallery, NY. © 2017 The Pollock-Krasner Foundation
Listakonan Lee Krasner í vinnustofu sinni

Listaverk: Lee Krasner, Palingenesis, 1971. Kasmin Gallery, NY. © The Pollock-Krasner Foundation
Lee Krasner, Palingenesis, 1971

efsta mynd mín | Lee Krasner listaverk af vefsíðu Barbican Centre: 1) LACMA (Los Angeles County Museum of Art) 2) Kasmin Gallery, NY | Krasner í vinnustofu sinni: Kasmin Gallery af síðunni Artsy. © The Pollock-Krasner Foundation



laugardagur, 13. apríl 2019

Vorstemningin

Vorstemning, textíll · Lísa Stefan


Í fullkomnum heimi. Nei, við skulum segja betri, fullkomnun er leiðinleg. Í betri heimi sit ég í baststól á veröndinni og finn varma sólarinnar í gegnum markísuna. Á borðinu hvílir bókastafli, við hlið kaffibollans og pressukönnunnar eru minnisbækur. Stuðningurinn við bakið er þykkur, mjúkur púði með ábreiðu gerðri úr einum af mynstraða textílnum sem sést á myndinni hér að ofan, sem ég kalla: Vorstemningin mín með Annie Ernaux og Schuyler Samperton Textiles.

Raunveruleikinn er sá að ég sit innandyra. Sú harða birta sem einkennir byrjun vorsins er enn til staðar og þó að brum hafi blómgast hafa sólríku dagarnir, sem lofuðu almennilegu vori, orðið kaldari (í dag kom haglél). Að bíða eftir vorinu er ekki mín sterkasta hlið. Góðu fréttirnar eru þær að ein af bókunum sem ég er að lesa hefur verið tilnefnd til Alþjóðlegu Man Booker verðlaunanna: æviminningar Annie Ernaux, The Years, sem þýdd er úr frönsku af Alison L. Strayer. Fyrir utan að vera skotin í eintakinu mínu, sem er gefið út af Fitzcarraldo Editions, verð ég að segja að frásögnin, skrifuð í þriðju persónu, heillar mig. Ég man ekki eftir að hafa lesið æviminningar í þriðju persónu. Bókin spannar árin 1941 til 2006 og stuðst er við „minni, minningarbrot úr fortíð og nútíð, ljósmyndir, bækur, lög, útvarp, sjónvarp, auglýsingar og fréttafyrirsagnir.“ Ég er ekki búin að lesa bókina en get hiklaust mælt með henni. Það er gefandi þegar bók sem mann hefur langað að lesa stenst ekki aðeins væntingar manns heldur fer fram úr þeim.

Magnólíutré í blóma, Antwerpen, vorið 2011 · Lísa Stefan
Magnólía í blóma, Antwerpen 2011

Við bjuggum í Antwerpen þegar ég tók þessa mynd af magnólíu í blóma. Mér þykir vænt um hana - þetta var fyrsta vorið mitt í Belgíu og ég man enn eftir þessu götuhorni - en hún birtist því miður ekki lengur á gömlu útgáfu bloggsins. Albúm sem tengist því virðist hafa gufað upp.

Aftur að textílnum: Schuyler Samperton Textiles er bandarískt merki sem lesendur bloggsins ættu að þekkja. Textílhönnuðurinn Schuyler er ein af mínum uppáhalds. Á blogginu hef ég deilt mörgum mynstrum úr vaxandi textíllínu hennar. Ég var að bíða eftir vorkomunni til að deila tveimur mynstrum sem sjást á efstu myndinni minni. Efnið Eden er efst: Í fölbleika litnum kallast það Eden/Sweet Pea, í fölgræna Eden/Meadow. Shalimar er blómamynstrið með hvíta bakgrunninum. Prufan með miðanum er Shalimar/Mist, með bláu og grænu mynstri. Shalimar/Cielo kallast það bláa. Öll þessi efni eru úr 100% líni.

Listaverk: Dora Carrington, Farm at Watendlath, 1921, Tate
Dora Carrington, Farm at Watendlath, 1921

Græna palettan sem listakonan Dora Carringon notar í verkinu Farm at Watendlath höfðar til mín þetta vor. Árið 1921 eyddi hún sumarleyfi sínu í Lake District. Það litla sem ég veit um líf hennar er fengið úr kvikmyndinni Carrington (1995), sem fjallar um samband hennar og rithöfundarins Lytton Strachey, og lýsingum í bindunum sem ég hef lesið af dagbókum Virginiu Woolf. Fyrstu kynni Woolf af Carrington voru henni ekki beint í hag, en í ágúst 1920 kveðjur við annan tón: „Carrington is ardent, robust, scatterbrained, appreciative, a very humble disciple, but with enough character to prevent insipidity“ (2. Bindi). Á íslensku má orða það að hún sé áköf, hraust, utan við sig, þakklát, mjög auðmjúkur nemandi, en með nógu mikinn karakter til að fyrirbyggja andleysi.

Ég verð hérna bráðum aftur með nýjan bókalista.

Dora Carrington listaverk af vefsíðu Tate



laugardagur, 23. febrúar 2019

№ 19 bókalisti: frumraun ungrar skáldkonu

№ 19 bókalisti: frumraun ungrar skáldkonu · Lísa Stefan


Sko mig, ég náði að deila nýjum bókalista í febrúar! Ég er einkum spennt fyrir efstu bókinni á þessum, The Parisian, frumraun ungu skáldkonunnar Isabellu Hammad. Hún kemur út í vor hjá forlaginu Jonathan Cape og ég get sagt að lestur fyrstu kaflanna lofar góðu. Þá að öðrum Black History Month: frá árinu 1976 í Bandaríkjunum hefur febrúarmánuður verið tileinkaður sögu blökkumanna og ég sýni stuðning minn með If Beale Street Could Talk eftir James Baldwin. Bretar fagna þessum mánuði í október og Baldwin var líka á listanum sem ég deildi þá (№ 16). Hann er í miklu uppáhaldi. Kvikmynd leikstjórans Barry Jenkins sem byggð er á bókinni ætti ekki að hafa farið fram hjá Baldwin-aðdáendum. Hann er tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir handritið og Regina King fyrir aukahlutverk. Á morgun kemur í ljós hvort þau vinna.

№ 19 bókalisti:
1  The Parisian  · Isabella Hammad
2  Orientalism  · Edward W. Said
3  If Beale Street Could Talk  · James Baldwin
4  The Ghost Writer  · Philip Roth
5  Women and Writing  · Virginia Woolf

The Parisian eftir Isabellu Hammad, frumraun höfundar (№ 19 bókalisti)
Isabella Hammad er alin upp í London og hlaut Plimpton-verðlaunin fyrir skáldskap árið 2018, fyrir smásöguna Mr. Can'aan sem birtist í The Paris Review, sem er bókmenntatímarit. Í apríl kemur út hennar fyrsta bók, sögulega skáldsagan The Parisian. Starfsfólk Jonathan Cape (Vintage) var svo elskulegt að senda mér prufueintak. Lýsingin hér á eftir er tekin úr fréttatilkynningu: „As the First World War shatters families, destroys friendships and kills lovers, a young Palestinian dreamer sets out to find himself.“ Draumóramaðurinn er hinn arabíski Midhat Kamal sem lesendur hitta á fyrstu síðu, um borð í skipi sem siglir frá Alexandríu til Marseille, þar sem hann kemur til hafnar í október 1914.

Rithöfundurinn Zadie Smith lofar The Parisian í ummælum á baksíðunni, segir bókina vera „göfuga lestrarupplifun: fíngerða, hófsama, áberandi skarpa, óvenjulega yfirvegaða og sannarlega fallega“ og bætir svo við:
It is realism in the tradition of Flaubert and Stendhal - everything that happens feels not so much imagined as ordained. That this remarkable historical epic should be the debut of a writer in her twenties seems impossible, yet it's true. Isabella Hammad is an enormous talent and her book is a wonder.

The Parisian
Höf. Isabella Hammad
Innbundin, 576 blaðsíður
Jonathan Cape



Síðasti bókalisti var japanskur og undanfarnar vikur hafa því eðlilega einkennst af japanskri menningu. Blómgunartími bóndarósa er ekki fyrr en í vor/sumar en ég ætla samt að slá botninn í þetta með listaverki eftir Hokusai og segja skilið við japanskar bókmenntir í bili.

Katsushika Hokusai, Kanarífugl og peonía, 1834
Katsushika Hokusai, Kanarífugl og peonía, 1834, Guimet Museum, París/WikiArt



sunnudagur, 20. janúar 2019

Amerískar pönnukökur með berjum

Amerískar pönnukökur með berjum · Lísa Stefan


Þó að ég hafi sett þessa uppskrift saman í Danmörku fyrir níu árum síðan og leikið mér með hana síðan þá mun hún líklega alltaf minna mig á morgunstund hér í Bremen. Það var á sunnudegi fljótlega eftir flutningana, þegar við vorum enn á pappakassastiginu, að mér fannst eins og þyrfti að þjappa fjölskyldunni saman í byrjun dags. Ég átti hindber í frysti og ákvað að skella í amerískar pönnukökur, eins og við Íslendingar köllum þær þykku (þessar á myndinni eru með bláberjum sem skýrir skellurnar). Í minningunni er þetta í fyrsti huggulegi helgarmorgunverðurinn á nýjum stað. Ég geri yfirleitt 10 pönnukökur úr deiginu og ber þær fram með hreinu hlynsírópi. Kardamoman er smekksatriði; smá klípa gefur bara örlítinn keim.

AMERÍSKAR PÖNNUKÖKUR

260 g fínt spelti eða lífrænt hveiti
2½ teskeið vínsteinslyftiduft
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
2 matskeiðar lífrænn hrásykur
klípa af möluðum kardamomum
2 stór egg
280 ml mjólk
2½ matskeið gæða jurtaolía
má sleppa: frosin bláber eða hindber

Hrærið þurrefnunum saman í stórri skál með pískara. Aðskilið eggin. Þeytið eggjahvíturnar ásamt örlitlu salti uns áferðin er vel froðukennd (ekki stífþeyta). Hrærið eggjarauðunum saman við þurrefnablönduna ásamt mjólk og olíu þar til deigið er kekklaust. Hrærið svo þeyttu hvítunum rólega saman við. Geymið berin í sér skál.

Berið olíu á pönnukökupönnu og hitið á meðalhita. Ausið deigi á pönnuna og dreifið úr því með ausunni. Raðið því næst nokkrum berjum ofan á. Bakið í 2-3 mínútur þar til pönnukakan er gullinbrún, snúið við með spaða og bakið hina hliðina.

(Hitastillingin veltur líklega á pönnunni sjálfri. Margir stilla fyrst á háan hita og lækka svo en ef mín ofhitnar þá verður hún einstaklega leiðinleg. Með gashellum má auðveldlega stjórna hitanum en núna á ég keramikborð og því finnst mér best að lyfta pönnunni upp þegar ég helli deiginu á hana. Inn á milli pensla ég pönnuna með örlítilli olíu.)

Berið pönnukökurnar fram með hreinu hlynsírópi eða smjöri. Ef ekki eru notuð frosin ber er kjörið að borða þær með ferskum berjum líka.