miðvikudagur, 29. janúar 2014

Rýmið 51




- eldhús í Marrakesh í Marokkó
- hönnuðir Karl Fournier og Olivier Marty hjá Studio KO

mynd:
Philippe Garcia fyrir franska AD, n°120, nóvember 2013

þriðjudagur, 28. janúar 2014

Innlit: 17. aldar sveitasetur í Normandie-héraði



Minn persónulegi stíll er meira í takt við það sem sést í skandinavískri hönnun í bland við hráan stíl, en hluti af mér er svolítið veikur fyrir glæsilegum sveitasetrum eins og þessu franska 17. aldar húsi í Normandie-héraði. Húsið var í niðurníðslu þegar innanhússhönnuðurinn Charles Spada var ráðinn til að bjarga því. Þessar myndir eru hluti af þeim sem birtust í grein í tímaritinu Veranda fyrir tveimur árum síðan en ef þið hafið áhuga þá fann ég aðrar myndir sem sýna endurbyggingu hússins.


myndir:
Alexandre Bailhache fyrir Veranda, jan/feb 2012 af blogginu {this is glamorous}

miðvikudagur, 22. janúar 2014

Rýmið 50



Þetta er fimmtugasti rýmispósturinn á blogginu og ég ákvað að halda áfram með stemninguna frá því í gær. Þessi stofa, sem kallast Brodsworth Hall, er á ensku sveitasetri sem kallast Angelfield House. Húsið var tökustaður breskrar sjónvarpsmyndar, Thirteenth Tale, sem var sýnd á BBC um jólin. Því miður missti ég af henni, sennilega vegna þess að ég horfi aldrei á sjónvarp. En ég hefði alveg verið til í að kveikja á því fyrir þessa mynd, það er nokkuð ljóst. Frábærir leikarar og söguþráðurinn greinilega spennandi! Myndin var byggð á samnefndri bók eftir Diane Setterfield.

mynd:
Brodsworth Hall, Angelfield House af síðu English Heritage á Twitter

miðvikudagur, 15. janúar 2014

Rýmið 49



Því miður veit ég ekkert um þessa borðstofu annað en að ljósmyndarinn Debi Treloar tók myndina. Rýmið er greinilega hluti af sveitasetri ef við skoðum það litla sem sést út um gluggann en mér hefur ekki tekist að finna hvaða sveitasetur það er. Ég verð því að láta rómantísku stemninguna í myndinni nægja í dag.

mynd:
Debi Treloar af blogginu La Cocina de Tina

þriðjudagur, 14. janúar 2014

Innlit: lúxus og bóhemískur stíll á grísku eyjunni Mykonos



Innlitið að þessu sinni er strandhótelið San Giorgio á grísku eyjunni Mykonos þar sem lúxus og bóhemstíll mætast. Í boði eru 33 herbergi þar sem hvítir veggir, húsgögn úr hráu timbri, bastkörfur og -mottur ásamt fallegum textíl leika lykilhlutverk. Hvað þarf maður meira þegar gríska Eyjahafið í allri sinni dýrð er innan seilingar?


myndir:
San Giorgio af vefsíðu Est Magazine

þriðjudagur, 7. janúar 2014

Rýmið 48



Stundum vildi ég að ég byggi í Ástralíu svo ég gæti skotist út í búð og gripið eintak af Vogue Living þegar mér hentar. Ég hef séð myndir úr hinum ýmsu umfjöllunum í blaðinu og allar eiga þær það sameiginlegt að vera smekklegar. Því miður veit ég engin nánari deili á þessu eldhúsi því ég hef bara þessa einu mynd. Mér þykir líklegt að þetta sé umfjöllun um sumarbústað eða sveitabæ, en það sem vakti áhuga minn voru fallegu hvítu og bláu eldhúsmunirnir. Ég er alltaf svolítið veik fyrir svona mynstrum og mig dauðlangar í þessar könnur þarna í efstu hillunni. Ég verð að finna flóamarkað fljótlega og sjá hvort ég hafi heppnina með mér.

mynd:
Jonny Valiant fyrir Vogue Living af Pinterest

mánudagur, 6. janúar 2014

Innlit: norskur fjallakofi í Geilo



Þessi póstur er tileinkaður þolinmóða eiginmanninum sem uppbót fyrir þær stundir sem ég er upptekin að sækja mér innblástur á netinu og veiti honum litla athygli. Norskir fjallakofar höfða sterkt til hans og þegar við bjuggum á Íslandi þá keypti hann oft eitthvað norskt fjallakofatímarit. Timbrið og handverkið heillaði hann. Þessi tiltekni kofi er í Geilo, sem er þekkt úitvistarsvæði í Noregi með skíðavæðum (liggur svo til mitt á milli Osló og Bergen ef maður lítur aðeins norðar á kortið), og eins og sést er búið að taka hann allan í gegn. Án þess að vilja hljóma neikvæð þá er ég persónulega ekki hrifin af skrautmáluðum við en norskara gerist það varla. Mér finnst annars antíkgræni liturinn í leskróknum afskaplega fallegur og hlýlegur.


myndir:
Anette Nordstrøm fyrir Interiør Magasinet