sunnudagur, 20. janúar 2019

Amerískar pönnukökur með berjum

Amerískar pönnukökur með berjum · Lísa Stefan


Þó að ég hafi sett þessa uppskrift saman í Danmörku fyrir níu árum síðan og leikið mér með hana síðan þá mun hún líklega alltaf minna mig á morgunstund hér í Bremen. Það var á sunnudegi fljótlega eftir flutningana, þegar við vorum enn á pappakassastiginu, að mér fannst eins og þyrfti að þjappa fjölskyldunni saman í byrjun dags. Ég átti hindber í frysti og ákvað að skella í amerískar pönnukökur, eins og við Íslendingar köllum þær þykku (þessar á myndinni eru með bláberjum sem skýrir skellurnar). Í minningunni er þetta í fyrsti huggulegi helgarmorgunverðurinn á nýjum stað. Ég geri yfirleitt 10 pönnukökur úr deiginu og ber þær fram með hreinu hlynsírópi. Kardamoman er smekksatriði; smá klípa gefur bara örlítinn keim.

AMERÍSKAR PÖNNUKÖKUR

260 g fínt spelti eða lífrænt hveiti
2½ teskeið vínsteinslyftiduft
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
2 matskeiðar lífrænn hrásykur
klípa af möluðum kardamomum
2 stór egg
280 ml mjólk
2½ matskeið gæða jurtaolía
má sleppa: frosin bláber eða hindber

Hrærið þurrefnunum saman í stórri skál með pískara. Aðskilið eggin. Þeytið eggjahvíturnar ásamt örlitlu salti uns áferðin er vel froðukennd (ekki stífþeyta). Hrærið eggjarauðunum saman við þurrefnablönduna ásamt mjólk og olíu þar til deigið er kekklaust. Hrærið svo þeyttu hvítunum rólega saman við. Geymið berin í sér skál.

Berið olíu á pönnukökupönnu og hitið á meðalhita. Ausið deigi á pönnuna og dreifið úr því með ausunni. Raðið því næst nokkrum berjum ofan á. Bakið í 2-3 mínútur þar til pönnukakan er gullinbrún, snúið við með spaða og bakið hina hliðina.

(Hitastillingin veltur líklega á pönnunni sjálfri. Margir stilla fyrst á háan hita og lækka svo en ef mín ofhitnar þá verður hún einstaklega leiðinleg. Með gashellum má auðveldlega stjórna hitanum en núna á ég keramikborð og því finnst mér best að lyfta pönnunni upp þegar ég helli deiginu á hana. Inn á milli pensla ég pönnuna með örlítilli olíu.)

Berið pönnukökurnar fram með hreinu hlynsírópi eða smjöri. Ef ekki eru notuð frosin ber er kjörið að borða þær með ferskum berjum líka.



miðvikudagur, 9. janúar 2019

№ 18 bókalisti: japanskar bókmenntir II

№ 18 bókalisti: japanskar bókmenntir II · Lísa Stefan


Nýtt ár, nýr japanskur bókalisti, loksins. Ég veit að nokkrir hafa beðið eftir þessum. Ég var með listann niðurnegldan en þurfti að gera smá breytingar því tvær bækur sem mig langaði að lesa núna voru ófáanlegar í enskri þýðingu á bókasafninu; þær verða bara á þeim þriðja. The Pillow Book eftir Sei Shonagon er, líkt og The Tale of Genji sem var á þeim fyrsta, klassískt rit eftir japanska hirðdömu skrifað um árið 1000, á Heian-tímabilinu í sögu Japans. Ég veit af enskri þýðingu eftir Ivan Morris frá árinu 1967 en ég er að lesa nýrri eftir Meredith McKinney, gefin út af Penguin Classics.

№ 18 bókalisti:
1  The Pillow Book  · Sei Shonagon
2  No Longer Human  · Osamu Dazai
3  Scandal  · Shusaku Endo
4  The Old Capital  · Yasunari Kawabata
5  Quicksand  · Junichiro Tanizaki
6  Death in Midsummer and Other Stories  · Yukio Mishima
7  Lost Japan  · Alex Kerr

Enskar þýðingar (í þessari röð): 1) Meredith McKinney; 2) Donald Keene; 3) Van C. Gessel;
4) J. Martin Holman; 5) Howard Hibbett; 6) Edward G. Seidensticker, Ivan Morris o.fl.;
7) Alex Kerr og Bodhi Fishman.

Titill bloggfærslunnar segir japanskar bókmenntir en í þetta sinn varð ég að bæta einu almennu riti á listann, Lost Japan eftir Alex Kerr, sem hann skrifaði upprunalega á japönsku. Þið kunnið að hafa séð hana nú þegar á Instagram hjá mér. Bókin var jólagjöf frá minni elstu, sem gaf mér einnig Orientalism eftir Edward W. Said. Vel valið hjá henni, ekki satt? Flestar bækurnar á bókalistanum eru fljótlesnar - ég er þegar að verða búin með þrjár þeirra - þannig að ég geri fastlega ráð fyrir að deila öðrum lista í byrjun febrúar. Gleðilegt og gæfuríkt ár!



sunnudagur, 25. nóvember 2018

Gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar

Gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar · Lísa Stefan


Þessi ljúffenga gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar er bragðgóð og rjómakennd. Líkaminn bókstaflega öskrar á hana á haustin þegar ný gulrótauppskera kemur í verslanir. Sigrún vinkona á uppskriftina sem birtist í bók hennar, Café Sigrún: Hollustan hefst heima (við skemmtum okkur vel þegar ég var að aðstoða hana með handritið). Sigrún hefur ferðast mikið um Austur-Afríku og súpan er innblásin af undursamlegum dögum á eyjunni Zanzibar: Þar sem hún sat og gæddi sér á gulrótasúpu naut hún útsýnis yfir Indlandshafið og í loftinu var ilmurinn sem barst frá matarbásunum á Forodhani-markaðnum, í hinni sögulegu borg Stone Town. Súpan er vegan, auðvelt er að matreiða hana (þið þurfið töfrasprota eða matvinnsluvél) og hún gefur ykkur nauðsynleg vítamín og trefjar. Þetta er ein vinsælasta uppskriftin á CafeSigrun-vefsíðunni: Ég hef engar breytingar gert á innihaldinu, bara örlitlar á aðferðinni.

GULRÓTA- OG KÓKOSSÚPA FRÁ ZANZIBAR

2 matskeiðar kókosolía
1 stór laukur
4 hvítlauksrif
lítill bútur ferskt engifer
300 g lífrænar gulrætur
150 g sætar kartöflur
1 teskeið karrí
2 lífrænir grænmetisteningar
750 ml vatn
150 ml kókosmjólk
½-1 teskeið sjávar/Himalayasalt
má sleppa: pipar eftir smekk
má sleppa: 7-10 saffranþræðir

Skolið gulræturnar (burstið ef þarf) og afhýðið annað grænmeti. Saxið allt gróft. (Afhýðið eða skafið gulræturnar ef þið notið ekki lífrænar.)

Hitið kókosolíuna í potti við meðalhita og steikið laukinn þar til hann fer að mýkjast. Bætið hvítlauk og engifer út í, steikið áfram í nokkrar mínútur og hrærið svo karrí saman við (ég nota kraftmikið karrí).

Bætið gulrótum og sætum kartöflum út í og veltið upp úr karríblöndunni. Hellið vatninu í pottinn ásamt grænmetisteningunum, aukið hitann og hrærið vel. Hitið upp að suðu, hrærið ½ teskeið af salti saman við, setjið svo lok á pottinn og leyfið súpunni að malla við vægan hita í 25-30 mínútur.

Fjarlægið pottinn af hellunni og blandið kókosmjólkinni ásamt saffranþráðunum saman við. Maukið súpuna með töfrasprota þar til áferðin er silkimjúk. Farið varlega því súpan er sjóðandi heit: Haldið töfrasprotanum alveg beinum og ýtið á takkann þegar neðsti hluti sprotans er ofan í súpunni (ef maukuð í matvinnsluvél/blandara er betra að leyfa súpunni að kólna aðeins áður hún er maukuð í smá skömmtum).

Hitið súpuna upp og smakkið til með salti og pipar án þess að láta hana sjóða. Berið súpuna fram með nýbökuðu brauði eða bollum.




föstudagur, 16. nóvember 2018

№ 17 bókalisti: rithöfundatryggð

№ 17 bókalisti: rithöfundatryggð · Lísa Stefan


Árið 1971 skrifaði Joan Didion ritgerð um Doris Lessing sem byrjaði á orðunum: „To read a great deal of Doris Lessing over a short span of time is to feel that the original hound of heaven has commandeered the attic. She holds the mind's other guests in ardent contempt“ (The White Album, bls. 119). Áhugavert. Ég hef orð hennar í huga þegar ég les Martha Quest, fyrstu bókina af fimm í Children of Violence seríunni. Þessi bókalisti er að nokkru leyti byggður á rithöfundatryggð: skáldsögurnar The Grass Is Singing og The Golden Notebook eftir Lessing voru á lista № 7 og á síðasta voru bækur eftir Didion, Johnson og Baldwin.

№ 17 bókalisti:
1  Martha Quest  eftir Doris Lessing
2  Two Lives  eftir William Trevor
3  Housekeeping  eftir Marilynne Robinson
4  Where I Was From  eftir Joan Didion *
5  Play It as It Lays  eftir Joan Didion
6  The Uncommon Reader  eftir Alan Bennett
7  Jesus' Son  eftir Denis Johnson
8  Nobody Knows My Name  eftir James Baldwin
9  Will You Please Be Quiet, Please?  eftir Raymond Carver **

* Úr We Tell Ourselves Stories in Order to Live, útg. Everyman's Library.
** Úr Collected Stories, útg. The Library of America.

Í fyrsta sinn er ég að lesa verk eftir þá William Trevor og Raymond Carver, og Play It as It Lays er fyrsta skáldsagan eftir Didion sem ég les. Á næsta bókalista verða japanskar bókmenntir eingöngu. Ég lofaði öðrum slíkum lista fyrir löngu og ætla að uppfylla það loforð sem fyrst.



mánudagur, 1. október 2018

№ 16 bókalisti | Black History Month (UK)

№ 16 bókalisti · Lísa Stefan


Bókasöfn eru hamingjustaðurinn minn. Eða svo hélt ég. Í síðustu viku var ég á safninu með minnisbók, þá sem ég nota fyrir bókatitla sem mig langar að lesa. Eins og þið getið ímyndað ykkur var ég eins og lítill krakki á leið í Disneyland. Ég gekk upp þrepin og inn á hæð hugvísinda (þetta er háskólabókasafn, það er stórt) þar sem ég í sæluvímu gekk á milli hárra bókarekka. Skoðaði bækur, snerti bækur. Fjarlægði bækur af bókalistanum sem ég hafði þegar í huga til að skapa pláss fyrir þær sem kröfðust þess að vera á honum. Setti bækur aftur á listann, kannski til þess eins að taka þær af honum aftur stuttu síðar. Bara eðlileg bókasafnshegðun.

En svo gerðist eitthvað, eitthvað sem ég var ekki búin undir: ég upplifði augnabliks hræðslukast. Í nokkrar sekúndur, þar sem ég stóð við fyrstu hillurekkana með bandarískum skáldskap, gerði ég mér skyndilega grein fyrir því hversu margar bækur voru þarna á hæðinni, í öllum þessum hillum: Í þessu lífi kæmist ég aldrei yfir það að lesa allar bækurnar á langar-að-lesa listanum því hann verður alltaf lengri. Ég get ekki verið eini bókaunnandinn sem hefur upplifað þennan ótta. Getur ekki verið. Það er eins gott að það sé líf á eftir þessu, þar sem okkar bíður bókasafn með öllum ólesnu bókunum sem okkur langar að lesa. Það er eins gott.

№ 16 bókalisti:
1  Blue Nights  · Joan Didion
2  Go Tell It on the Mountain  · James Baldwin
3  Sing, Unburied, Sing  · Jesmyn Ward
4  The Human Stain  · Philip Roth
5  Stet  · Diana Athill
6  Train Dreams  · Denis Johnson
7  The Bookshop  · Penelope Fitzgerald
8  Do Not Say We Have Nothing  · Madeleine Thien
9  The Collected Essays of Elizabeth Hardwick  · ritstj. D. Pinckney


Á laugardaginn - kannski hafið þið þegar séð það á Instagram - las ég æviminningar Didion, Blue Nights, í einum rykk. Hún skrifaði bókina eftir andlát dóttur sinnar, Quintana, sem var aðeins 39 þegar hún lést. (Hún skrifaði The Year of Magical Thinking eftir andlát eiginmannsins, rithöfundarins John Gregory Dunne). Mér líkaði Blue Nights. Þetta er ekki sorgarsaga sem kallar á bréfþurrku við lesturinn. Stíll Didion er ekki ofurhlaðinn tilfinningum. Hún er bara að reyna að ná utan um þetta allt. Að reyna að finna svör við spurningum sem ekki er hægt að svara.

Okótber er Black History Month í Bretlandi, mánuður tileinkaður sögu blökkumanna (febrúar í BNA). Ég sýni stuðning minn með tveimur skáldsögum á listanum, eftir James Baldwin og Jesmyn Ward. Hún hlaut verðlaunin National Book Awards 2017 fyrir Sing, Unburied, Sing. Það var í annað sinn sem hún hlaut þau, árið 2011 fyrir skáldsögu sína Salvage the Bones.