föstudagur, 31. október 2014



Það stóð nú alltaf til að tilkynna að ég væri á leiðinni í stutt bloggfrí fram í næstu viku vegna haustfrís í skólum barnanna, en það fór svo að ég tilkynnti það bara á ensku útgáfunni. Undanfarnar vikur hafa leitað á mig hugmyndir að breytingu á bloggunum og núna í fríinu hafa þær orðið skýrari og eiginlega ekki látið mig í friði. Án þess að fara nánar út í þær hér þá ætla ég að gera hlé á íslensku útgáfu bloggins fram yfir áramótin og nota frekar tímann til að leika mér aðeins með þessar hugmyndir mínar. Ég mæti aftur til leiks á ensku útgáfunni á miðvikudaginn í næstu viku.

Gleðilega hrekkjavöku!

fimmtudagur, 16. október 2014

Innlit: fyrrum textílverksmiðja í Como



Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta innlit. Ítalski arkitektinn og listamaðurinn Marco Vido endurgerði þetta ris í Como á Ítalíu en á 3. áratugnum var húsið textílverksmiðja. Ég er í einhvers konar haltu mér-slepptu mér sambandi við iðnaðarstíl því stundum finnst mér hann of kaldur og fráhrindandi. Hérna finnst mér hafa vel tekist til því það er nóg af hlýjum viði sem skapar jafnvægi. Auk þess finnst mér svörtu gluggarnir svakalega flottir.


myndir:
Nathalie Krag fyrir Interior Design, ágúst 2014

miðvikudagur, 15. október 2014

Rýmið 76



- forstofa íbúðar í Mílan
- eigandi og hönnuður Roberto Peregalli (og Laura Sartori Rimini), innblásinn af hönnuðinum Lorenzo (Renzo) Mongiardino

mynd:
The World of Interiors, júlí 2013 af síðu Jane Ellsworth Interiors/Pinterest

miðvikudagur, 8. október 2014

Handmáluð viskustykki frá Bertozzi


Í vikunni uppgötvaði ég vefsíðu AllÓRA, sem er verslun í London sem selur hvers kyns ítalskt handverk. Ítalska orðið allóra þýðir ,í fortíðinni' og kjörorð fyrirtækisins eru ,oggi come AllÓRA' sem mætti þýðast 'í dag sem þá'. Hjá AllÓRA hafa þau myndað náið samband við handverksfólkið og þau leggja áherslu á gæði vörunnar og að hún sé ekta, að handverkið sé fallegt og unnið með ástríðu. Verslunin, sem er einnig netverslun, býður upp á gott úrval en það sem aðallega fangaði athygli mína voru handmáluðu viskustykkin frá ítalska fyrirtækinu Stamperia Bertozzi.
Handmáluð viskustykki frá Bertozzi · Lísa Hjalt


Stamperia Bertozzi er ítalskt fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1920. Þau nota fornar handverksaðferðir til að búa til handmáluð og handprentuð efni með ástríðu. Þau blanda litina sjálf og nota blöndur sem hafa varðveist innan fjölskyldunnar, frá einni kynslóð til annarrar.

Þessi stílhreinu viskustykki - línan kallast Gradation - eru unnin úr 100% líni. Efnið sem er notað í viskustykkin er lífrænt og ofið í vefstól sem skilar efni sem er mjúkt viðkomu. Með tímanum tekur það breytingum og verður bara fallegra í útliti.

Þegar efnið er málað er það ekki bara sett til hliðar og látið þorna heldur er línið unnið þrisvar sinnum og málað með mismunandi litatón í hvert sinn. Að lokum nota þau sérstaka Bertozzi handverksaðferð til að festa litinn sem felst í því að nota gufu sem er drifin með sólarorku. Útkoman er skær eða sterkur litur sem endist lengur.

Ég féll kylliflöt fyrir viskustykkjunum í bláu (indigo) og brúnu (cacao) og myndi gjarna vilja sjá þau í mínu eldhúsi, en Gradation-línan er einnig fáanleg í grænu og bleiku.

- stærð – 70 x 55 cm - má fara í þvottavél - þarf ekki að strauja


AllÓRA | 66 Oxford Gardens | London W10 5UN
Sími: +44 (0)20 3701 4076 | Netfang: info@allorashop.com

myndir:
af vetsíðu AllÓRA

þriðjudagur, 7. október 2014

Rýmið 75



- stofa í húsi á nýsjálensku eyjunni Waiheke Island, Auckland
- hönnun Fearon Hay Architects

mynd:
Patrick Reynolds fyrir Fearon Hay Architects af vefsíðu ArchDaily

fimmtudagur, 2. október 2014

Innlit: þakíbúð með verönd í East Village, NY



Á fimmtudögum á ensku útgáfu bloggsins er ég með seríu þar sem ég birti veröndir og önnur útisvæði. Í dag var ég með stóra verönd virklega fallegrar þakíbúðar í East Village hverfinu í New York og hugsaði með mér, því ekki að deila innri rýmunum hér á íslensku útgáfunni. Það var arkitektinn Michael Neumann sem hjálpaði eigendunum að ráðast í endurnýjun og miklar breytingar á húsnæðinu. Glerhurðirnar með svörtu römmunum og bogadregnu gluggarnir sem einkenna rýmið finnst mér hafa heppnast ákaflega vel, en samtals fimm hurðir opnast út á veröndina. Stíllinn er hrár en samt hlýlegur, mikið er um muni úr náttúrulegum efnum og brúnir tónar eru einkennandi.


Einn eigandanna er einn af yfirmönnum hjá Ralph Lauren veldinu og því er að finna mikið af húsgögnum og munum fyrir heimilið frá Ralph Lauren Home, til dæmis sófann og stólana í stofunni. Rammaða prentverkið fyrir ofan arininn er eftir Richard Serra.


Persónulega langaði mig að sleppa að nota þessa mynd af borðstofunni því mér finnst borðskreytingin svo yfirdrifin eða, svo ég segi það bara hreint út, forljót. En hin myndin sem ég fann var bara of lítil. Ég vildi samt sýna ykkur rýmið því þaðan sést vel út á veröndina og myndin sýnir hurðirnar og gluggana vel. Það er annars alveg merkilegt hvað þetta er algeng stílisering í innlitum í amerískum tímaritum, eins og það þurfi alltaf að vera einhver svakalegur vasi með risastórum blómum eða greinum ofan á hringborði sem gnæfir yfir allt annað. Þess má geta að stólarnir í iðnaðar- eða verksmiðjustílnum eru gamlir Tolix stólar og eru líka notaðir við borðið á veröndinni.


myndir:
Miguel Flores-Vianna fyrir Architectural Digest, apríl 2012

þriðjudagur, 30. september 2014

Ný keramiklína: POME-POME



Eruð þið að leita að fallegum og stílhreinum munum til að prýða borðið ykkar, einhverju nýju til að safna? Nú í haust er væntanleg á markað ný keramiklína, POME-POME, frá hinni dönsku Malene Helbak, sem hún hannaði í samstarfi við sænska grafíska hönnuðinn Nygårds Maria. Þær stöllur sóttu innblástur í jurtaríkið og allir munirnir eru hvítir með sæbláum og petról-bláum (er til íslenskt heiti yfir svona lit?), mintugrænum og appelsínugulum tónum. Er það klisja að segja að það gerist varla skandinavískara? Ég veit ekki með ykkur en ég gæti vel hugsað mér að dekka mitt borð með þessum munum.

mynd:
af vefsíðu Bo Bedre

fimmtudagur, 25. september 2014

Rýmið 74



- stofa eða leskrókur með arni í hlutlausum tónum í Hollywood
- eigandi er Darren Star, maðurinn á bak við sjónvarpsþætti eins og Sex and the City, Beverly Hills, 90210 og Melrose Place
- innanhússhönnun var í höndum Waldo's Designs og um arkitektúr sá Rios Clementi Hale Studios

mynd:
Roger Davies fyrir Architectural Digest, mars 2012

þriðjudagur, 16. september 2014

mánudagur, 15. september 2014

Innlit: heimili listakonunnar Pepa Poch á Spáni



Þegar ég rekst á heimili listamanna sem eru jafn falleg og þetta þá fæ ég allt að því skjálfta í hnén. Hið vinsæla tímarit Lonny er ókeypis á netinu og septemberútgáfan er öll hin glæsilegasta. Þau heimsóttu katalónsku listakonuna Pepa Poch sem býr í hvítmáluðu húsi á Costa Brava á Spáni með útsýni út á Miðjarðarhaf. Ég allt að því slefaði þegar ég sá pússuðu gólfborðin, svo ég minnist nú ekki á loftbitana sem hafa verið málaðir í bláum tón. Það eru einmitt þessir bláu tónar hér og þar um húsið og í listaverkum Poch sem heilla mig. Ég er auk þess ákaflega hrifin af svona hráum stíl þar sem steinn og viður leika aðalhlutverk, sérstaklega þegar hann er hlýlegur eins og á þessu heimili. Það eru fleiri myndir á vefsíðu Lonny ef þið viljið sjá meira og að sjálfsögðu smá viðtal við listakonuna.


myndir:
Albert Font fyrir Lonny, september 2014

fimmtudagur, 11. september 2014

Heimagerður hindberjasafi í boði Ikea



Í júlí rakst ég á þessa fallegu mynd á Livet Hemma, bloggi sem sænska Ikea vefsíðan heldur úti. Stílistarnir þeirra útbúa oft skemmtilegar matarmyndir þegar verið er að kynna nýja eldhúslínu eða muni og þá fylgir gjarnan uppskrift. Ég hef ekki prófað þessa uppskrift að hindberjasafa sem inniheldur 2 kíló (4 lítra) hindber, 1½ lítra vatn, 1 kíló sykur og safa úr 1 sítrónu. Mér finnst sykurmagnið alltof mikið og myndi alveg örugglega minnka það verulega og nota frekar blöndu af lífrænum hrásykri, agave sírópi og stevia dropum.

Sigrún vinkona, sem heldur úti CafeSigrun vefnum, sendi mér flösku af Via Health stevia dropunum um daginn sem ég hef verið að prufa mig áfram með og mér líst vel á þá. Eftir flutningana til Englands datt sonur okkar beint inn í bresku tehefðina og fær sér alltaf te á kvöldin í stórum bolla, rosa fínt Earl Grey te frá Clipper, sem honum þykir best. Hann notar út í það mjólk og demerara sykurmola og ég hef reynt að fá hann til að minnka sykurmagnið. Núna samþykkir hann að nota 1 mola og stevia á móti. Ég prófaði svo að baka glútenlausa súkkulaðiköku í gær þar sem hluti sætunnar var stevia og hún heppnaðist mjög vel. Sem betur fer er ekkert glútenóþol á okkar bæ en mig langar að eiga góða uppskrift ef gesti með slíkt óþol ber að garði og mig langar líka að hafa uppskriftina á matarblogginu. Ég deili henni þegar ég hef neglt hana niður.

Talandi um Sigrúnu, sáuð þið sýnishornið hér á blogginu úr uppskriftabókinni hennar? Bókin er ekki enn komin út en ég læt ykkur að sjálfsögðu vita hvenær það gerist.

mynd:
Malin Cropper fyrir Ikea Livet Hemma

þriðjudagur, 9. september 2014

Rýmið 72



- stofa á Majorca á Spáni í eigu Brenda og Paul van Berg
- húsið er uppgert og situr í fjallshlíð nálægt borginni Palma

Ég hef sagt það áður en eitt uppáhaldstímaritið mitt um innanhússhönnun er Elle Decoration UK. Það kemur inn um lúguna í hverjum mánuði og ég er alltaf jafn spennt þegar ég tek það úr plastinu og sest niður til að fletta því með lattebolla í hendi. Þetta rými er hluti af innliti í júlítölublaði þessa árs og það var að sjálfsögðu hrái stíllinn sem höfðaði til mín. Eigendurnir, sem líka reka jógastöð við heimili sitt, hafa ferðast um Afríku og Asíu og keypt ýmsa muni, einkum á mörkuðum í norðurhluta Afríku. Heimilið ber að sjálfsögðu keim af því.

mynd:
Sunna & Marc van Praag fyrir Elle Decoration UK

mánudagur, 8. september 2014

Innlit: ljóst, grænt og hlýlegt á Spáni



Ég var að fá í hendurnar svo fallega bók með nútímalegum sveitasetrum, sem ég ætla að segja ykkur frá síðar, og varð eiginlega að kafa aðeins ofan í möppurnar mínar í leit að nútímalegum rómantískum stíl. Þetta hús á Spáni finnst mér fallegt og hlýlegt; rómantíski stíllinn er ekki yfirgnæfandi eða of væminn eins og oft vill verða. Ég er svolítið skotin í flísunum á gólfinu þó ég myndi ekki nota þær sjálf á svona stóran flöt.

Ég man ekki eftir að hafa farið í gegnum grænt innanhússtímabil í lífinu en ég hef alltaf verið hrifin af flöskugrænum vösum og stórum grænum glervösum. En að blanda þessu saman við hvítt hefur mér hingað til þótt full Breiðablikslegt (ég vona að ég móðgi engan með þessari samlíkingu). Ég held að þessi litasamsetning gangi upp hér vegna þess að hún er brotin upp með náttúrulegum mottum ásamt munum úr basti, og húsgögnin eru ekki öll eins heldur hafa þau mismunandi áferð og ljósa/hvíta og jafnvel gráa tóna. Það er sennilega trikkið.


myndir:
El Mueble

fimmtudagur, 4. september 2014

Merci: litrík rúmföt úr 100% líni



Þegar kemur að rúmfötum er ég týpan sem vel hlutlausa liti eða þá mjög milda tóna. Kannski vegna þess að það getur verið ansi erfitt að finna litrík rúmföt sem auk þess eru unnin úr náttúrulegum textíl. Það er staðreynd að mikið af þessum mynstruðu og litríku rúmfötum á markaðnum eru lituð með kemískum efnum sem mér finnst ekki eiga erindi í svefnrými fólks. En ef þið eruð mikið fyrir liti þá er hægt að fá náttúruleg og smekkleg rúmföt í versluninni Merci í París sem eru úr 100% líni. Þeir voru að bæta níu litum í flóruna, meðal annars þessum tónum sem sjást á myndinni, sem heldur betur  minna á haustið. Mér finnst graskersliturinn sérstaklega fallegur; það væri gaman að brjóta upp með honum. Þau hjá Merci er með vefverslun líka og senda til Íslands.

mynd:
Merci • af Facebook síðu


föstudagur, 22. ágúst 2014

Sýnishorn: CafeSigrun uppskriftabókin

CafeSigrun uppskriftabókin · Lestur & Latte


Fyrr í vikunni sagði ég ykkur að uppskriftir væru mér hugleiknar þessa dagana, meira en venjulega, og nú langar mig að segja ykkur út af hverju (enginn föstudagsblómapóstur í dag). Ég tók að mér að ritstýra bókinni hennar Sigrúnar vinkonu minnar sem heldur úti CafeSigrun vefsíðunni, þar sem má heldur betur finna úrval af frábærum uppskriftum sem eru lausar við hvítan sykur, hvítt hveiti, ger og fleira. Sigrún hefur haldið úti vefsíðunni í fjölmörg ár, með mjög svo óeigingjörnu starfi, og núna er hún að koma með sína fyrstu uppskriftabók. Hún vann allar uppskriftirnar sjálf í eldhúsinu sínu (fyrst í London, þar sem hún bjó áður, og svo heima á Íslandi) og tók einnig allar myndirnar sjálf. Þess má geta að hún er í fullu námi í klínískri barnasálfræði og á auk þess tvö lítil kríli þannig að þetta hefur verið mikil vinna, en vel þess virði því bókin verður virkilega falleg.
CafeSigrun uppskriftabókin


Þessa dagana hugsa ég eiginlega í uppskriftum og á skrifborðinu eru ekkert nema útprentaðir kaflar frá Sigrúnu. Ég gæti allt eins svarað með orðinu múskat eða grasker ef einhver spyrði mig hvernig ég hefði það. Eins gaman og þetta er þá verð ég að viðurkenna að um leið er þetta eins konar sjálfspynting því þegar ég samþykkti að aðstoða Sigrúnu þá gleymdi ég einu atriði: Öllum myndunum sem verða í bókinni sem ég fæ í tölvupósti! Ég sit hér í sakleysi mínu að lesa yfir kafla þegar tölvupóstur berst með ekki einni heldur kannski fimm myndum af guðdómlegustu súkkulaðisneið sem fyrir finnst (þessar sem innihalda alvöru súkkulaði sem glampar á!) og svo spyr Sigrún eins og ekkert sé: „Hver er best?“ Og þegar ég hef rétt jafnað mig á þessari sendingu þá berst annar póstur með kannski svakalega girnilegum grænmetisrétti, fiskrétti, salati, súpu, brauði, ís, konfekti og ég veit ekki hvað. Og svona er þetta alla daga. Alla! Bara nú í dag hef ég fengið um 10 myndir eða svo.

Myndirnar í þessari bloggfærslu eru bara örlítið brot af kræsingunum í bókinni (og fyrrnefndri sjálfspyntingu!).
CafeSigrun uppskriftabókin


Það er enn ekki kominn útgáfudagur á bókina, sem Forlagið gefur út, en ég segi ykkur að sjálfsögðu hvenær það gerist. Handritinu skilar Sigrún inn núna í byrjun september og við erum auðvitað voðalega spenntar yfir þessu öllu. Næstu viku ætlum við að nota til þess að fínpússa handritið fyrir skil og því ætla ég að taka frí frá bloggskrifum.

Ég óska ykkur góðrar helgar og vona að þessir síðustu dagar ágústmánaðar leiki við ykkur!

myndir:
Sigrún Þorsteinsdóttir - CafeSigrun

þriðjudagur, 19. ágúst 2014

Tzatziki eftir listakonuna Felicita Sala



Uppskriftir eru mér ansi hugleiknar þessa dagana, enn meira en venjulega. Ég segi ykkur síðar út af hverju. En í matarvímu hérna áðan mundi ég allt í einu eftir þessum skemmtilegu prentverkum með uppskriftum eftir listakonuna Felicita Sala.

Þessi væri nú svolítið sæt á vegg í eldhúsinu yfir sumartímann, er það ekki?


fimmtudagur, 14. ágúst 2014

Rýmið 70



- borðstofa í uppgerðu húsi í Silver Lake, Los Angeles í eigu stílistans Jessica de Ruiter (C, Elle, Harper’s Bazaar, W) og listamannsins Jed Lind (skúlptúr)
- ljósakrónan er upprunaleg Paavo Tynell hönnun; það kemur ekki fram í innlitinu í C Home en ég held að þetta sé örugglega Saarinen túlipanaborð
- arkitekt Gregory Ain (1908-1988)

mynd:
Douglas Friedman af vefsíðu C Home

miðvikudagur, 13. ágúst 2014

Í minningu Lauren Bacall og Robin Williams




Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni að í vikunni kvöddum við tvær stórar stjörnur, Lauren Bacall (f. 1924) og Robin Williams (f. 1951). Bacall var orðin 89 ára gömul og hafði skilað sínu, en andláti Williams er erfiðara að kyngja. Það er dapurlegt og sýnir okkur alvarleika þunglyndis, og líka þá hlið á Hollywood sem við vitum að er falin á bak við glamúrinn og gleðina á rauða dreglinum, hlið sem sjáum sjaldan nema þá kannski hjá ungum leikurum sem leiðast út í óreglu og virðast lifa lífinu í beinni.

Eins og segir í gömlu viðtali við Lauren Bacall í Vanity Fair frá árinu 2011 er hún „síðasta vitnið að gullnu öldinni“ í Hollywood. Fyrsta hlutverk hennar var í kvikmyndinni To Have and Have Not (1944) þar sem hún aðeins 19 ára lék á móti og kynntist Humphrey Bogart, sem var 25 árum eldri. Þau gengu í hjónaband árið 1945 og eignuðust tvö börn, og ólíkt því sem gengur og gerist í kvikmyndaborginni voru þau gift þar til Bogart lést af völdum hálskrabbameins árið 1957. Hún lék í fjölmörgum myndum og var ógleymanleg sem Vivian Rutledge í The Big Sleep (1946) þar sem hún lék aftur á móti Bogart.

Bacall var glæsileg kona og ein af þeim sem hélt glæsileikanum á efri árum, eins og sést á ljósmyndunum hér að ofan. Ein af mínum uppáhaldskvikmyndum er einmitt ein af síðari myndum hennar, The Mirror Has Two Faces (1996) í leikstjórn Barbra Streisand. Bacall var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt. Þær stöllur leika mæðgur með töluvert ólíka sýn á lífið og tilveruna og þessi eldhússena er afbragð.

Þess má svo geta að Bacall bjó í Dakota-byggingunni í New York, þeirri sömu og John Lennon. Hún heyrði byssuskotin þegar hann var myrtur fyrir utan bygginguna í desember 1980 en hélt að skotin væru bara hvellir úr bíl.


Því verður ekki neitað að Robin Williams var stórkostlegur gamanleikari en það voru einkum hlutverk hans í alvarlegri kvikmyndum sem heilluðu mig. Hann náði fyrst til mín í Dead Poets Society (1989), í leikstjórn Peter Weir, en fyrir leik sinn fékk hann tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir aðalhlutverk í annað sinn (sú fyrsta var fyrir Good Morning, Vietnam (1987) og sú þriðja fyrir The Fisher King (1991)). Hann lék kennara með sérstakar kennsluaðferðir í mjög svo íhaldssömum skóla og lokasenan kallar fram gæsahúð í hvert sinn. Það er svo ekki hægt að minnast Williams án þess að nefna aukahlutverkið í Good Will Hunting (1998), en fyrir það fékk hann sinn fyrsta og eina Óskar. Ég man ekki hvort það var í viðtali sem ég sá við Ben Affleck eða Matt Damon, sem skrifuðu handritið saman (fengu Óskar fyrir) og léku í myndinni, þar sem fram kom að um leið og Williams samþykkti að vera með opnuðust allar gáttir og allir voru tilbúnir að leggja fram krafta sína.

Þegar ég hugsa um Williams þá kemur leikarinn Billy Crystal alltaf upp í hugann líka en þeir unnu lengi saman ásamt Whoopi Goldberg að uppistandi sem kallaðist Comic Relief. Ef þið eruð gamlir Friends-arar þá ættuð þið að muna eftir þeim félögum Williams og Crystal sem gestaleikurum í þessari kaffihúsasenu. Ég get ekki sleppt því að minnast á uppáhaldsþáttinn minn, Inside the Actors Studio, en þar átti hann ógleymanlega stund með James Lipton og nemendunum. Einn í salnum endaði víst á spítala vegna hláturs! Hér er brot af því besta en endilega leitið að og horfið á þáttinn í fullri lengd á YouTube. Þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.

myndir:
1: af vefsíðu TSM | 2: af TSM | 3: Sean Hagwell