Í bloggfærslu í apríl lofaði ég nýjum bókalista að loknum lestri á þriðja sjálfsævisögubindi Simone de Beauvoir. Það loforð sveik ég með stæl því stuttu síðar fékk ég óvænt verkefni í hendurnar. Þrátt fyrir annir hef ég haldið uppi góðri lestrarrútínu sem hefst eldsnemma á morgnana með kaffibollanum: er búin með bók Jenny Erpenbeck, vel hálfnuð með bæði Mariu Stepanovu og ævisögu Philips Roth og byrjuð að lesa allar hinar. Hvort sem þið trúið því eða ekki þá er ég að lesa Jón Kalman í fyrsta sinn. Fyrir tveimur árum setti ég The Years eftir Annie Ernaux í uppáhaldsflokkinn en nýverið gaf ég vinkonu eintak og hreinlega varð að lesa hana aftur.
Ef þið fylgist með bókafréttum þá hafa örlög ævisögunnar um Philip Roth varla farið fram hjá ykkur, bók sem margir biðu spenntir eftir. Í kjölfar ásakana um kynferðislega misnotkun gegn höfundinum Bailey, stöðvaði útgefandinn, W. W Norton & Company, dreifingu bókarinnar og tók hana endanlega af markaði (Bailey, sem hefur ekki verið fundinn sekur fyrir dómstólum, hefur þegar fundið nýjan útgefanda). Ég pantaði bókina fyrirfram, löngu áður en þessar fréttir bárust, og held að ég hefði keypt hana þrátt fyrir allt þar sem ég get alveg aðskilið listina frá listamanninum. Heimildaöflun er viðamikil og bókin vel skrifuð (Roth valdi Bailey sérstaklega til verksins) en ég viðurkenni að stundum kemur upp í hugann
Af hverju þarf ég að vita þetta? þegar fjallað er um kynlíf Roths í smáatriðum.
Not a Novel var mín fyrsta bók eftir Erpenbeck, sem er einn af stóru rithöfundunum í Þýskalandi í dag. Þetta er ensk þýðing á óskálduðu efni eftir hana en gallinn er sá að þýðingin inniheldur einungis brot af upprunalega verkinu,
Kein Roman, sem er helmingi lengra. Ég naut lestursins en stundum fannst mér efni endurtekið og í lokin upplifði ég eins konar gjá; þessi styttri útgáfa náði ekki að koma heilsteyptu verki til skila. Ég hef ég ekki lesið bókina á frummálinu en bæti úr því þegar þýskan er orðin betri.
 |
Kápa bókarinnar Philip Roth: The Biography eftir hinn núna-alræmda Blake Bailey |
Rúm fimm ár eru liðin síðan ég deildi fyrsta bókalistanum og þar sem ég vel bækurnar vandlega þá hafa bara nokkrar valdið vonbrigðum. Á síðasta lista var safn stuttra ritgerða eftir Vivian Gornick sem ég get ekki mælt með: Unfinished Business: Notes of a Chronic Re-reader. Inngangurinn höfðaði vel til mín, og jók líklega væntingar mínar, en þegar ég las áfram þá varð það deginum ljósara að ég og Gornick erum mjög ólíkir lesendur: hún einblínir mjög á persónusköpun og virðist mjög upptekin af misheppnuðum ástarsamböndum í skáldskap. Þessi nálgun reyndi á þolinmæði mína. Í ritgerðunum opinberaðist ákveðin þversögn því Gornick er virkur femínisti og tónn skrifanna gaf mér ekki mynd af sterkri konu. Mér líkaði ein ritgerð um ítölsku skáldkonuna Nataliu Ginzburg, sem er enn á langar-að-lesa listanum mínum. Á þeim lista eru enn nokkur verk eftir Gornick en í sannleika sagt finn ég núna litla löngun til að forgangsraða þeim.

Lokunum í Austurríki vegna COVID-19 hefur loksins verið aflétt eftir stöðugar framlenginar frá síðasta hausti. Við erum enn skyldug til að nota FFP2-grímur og búum enn við takmarkanir, t.d. þarf vottorð um neikvæða skimun eða bólusetningu til að fara á kaffihús og veitingastaði. Nýverið fór ég í fyrstu bólusetninguna og fer í þá næstu eftir nokkrar vikur og mun þá loksins geta fengið mér latte hvenær sem er. Ég bið ekki um meira. Þangað til heldur lífið áfram að vera frekar lokunarlegt, eða lockdowny eins og ég kalla það á ensku.