mánudagur, 30. desember 2013

Uppskrift: Skonsur, bakstur og handgerð jólagjöf



Jæja, hvernig hefur ykkur liðið um jólin? Ég fann jólaskapið þegar við settumst niður til að borða kalkúnamáltíð á aðfangadagskvöld, en ég viðurkenni að þessi desembermánuður var ólíkur öllum öðrum sem ég hef upplifað hingað til. Ég kenni flutningunum um og kannski rauðum jólum líka.

Ég hef verið nokkuð dugleg að baka í fríinu og í gær bauð ég fjölskyldunni upp á skonsur í morgunmat og setti auk þess uppskriftina á matarbloggið. Í fríinu bakaði ég líka bananabrauðið með valhnetunum og notaði tækifærið til þess að uppfæra uppskriftina eilítið. Í dag lofaði ég kryddbrauði, sem er klassík á þessu heimili.


Ég fékk margar fallegar bækur í jólagjöf en verð að segja að þessi litla minnisbók sem yngri dóttir mín bjó til handa mér var sú gjöf sem mér þótti einna vænst um. Stærðin á henni er á við þumalfingur og hún inniheldur 20 rúðustrikaðar síður. Hvað er betra en kaffi og hjörtu?


myndir:
Lísa Hjalt

þriðjudagur, 24. desember 2013

Gleðileg jól



Ég er byrjuð að sjóða möndlugrautinn fyrir kvöldið og vanillulyktin berst um allt hús. Dásamlegt! Mér finnst gaman að sjá að möndlugrauturinn er sú uppskrift sem flestir eru að skoða á matarblogginu þessa dagana, einnig sætkartöflumúsin með pekanhnetunum og rósakálið góða sem Nigella Lawson heillaði mig með hér um árið. Allt þetta verður að sjálfsögðu á jólaborðinu okkar í kvöld með kalkúninum. Það sem ég hlakka til að setjast niður og borða veislumat!

Ég keypti mér nýjan hvítan dúk í John Lewis og tauservíettur líka (kíkið endilega á krúttlegu jólaauglýsinguna þeirra í ár, um dýrið sem hafði aldrei séð jólin). Ég tók nokkrar myndir í gær þegar ég var að undirbúa borðið. Ég keypti greinarnar með berjunum á Íslandi fyrir mörgum árum og þær voru eitt af því fáa sem ég tók með þegar við fluttum út.


Ég gæti varla hugsað mér jól án bókapakka frá Amazon. Í ár fékk ég nokkrar sem voru á óskalistanum: tvær á borðið í setustofunni, Ralph Lauren (risastór og full af myndum) og The Natural Home eftir stílistann Hans Blomquist. Ég verð að fá bókmenntir líka og núna fékk ég fallega innbundna útgáfu af Persuasion eftir Jane Austen frá Penguin útgáfunni. Það var svo líka smá Downton Abbey í einum pakkanum (hlakka til að sjá jólaþáttinn sem verður sýndur í sjónvarpinu hér á morgun). Pósturinn færði mér svo þrjá pakka í gær frá vinum á Íslandi með bókum þannig að það verður enginn skortur á lesefni þessi jól.


*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar og friðsælar hátíðar!

föstudagur, 20. desember 2013

þriðjudagur, 17. desember 2013

Rýmið 47



Því miður veit ég engin nánari deili á þessari borðstofu en myndin er hluti af innliti á bloggi finnska ljósmyndarans Krista Keltanen. Ég væri alveg til í að eiga skápinn.

mynd:
Krista Keltanen af Pinterest/Krista Keltanen

föstudagur, 13. desember 2013

föstudagur, 6. desember 2013

fimmtudagur, 5. desember 2013

Rýmið 46



- hvítt, bjart svefnherbergi í íbúð í Stokkhólmi sem er til sölu
- í eigu sænska tískubloggarans Elin Kling (ég pinnaði mynd af henni fyrir stuttu þar sem hún er smart í svörtu eingöngu)

mynd:
Per Jansson af blogginu My Scandinavian Home

miðvikudagur, 4. desember 2013

Nivôse eftir Romme



Ég varð að fá jólalegan tískuskammt á bloggið í dag því ég hef áhyggjur af því að finna hreinlega ekki jólaandann í ár, sem er mjög óvenjulegt ástand fyrir mig. Ég er ein af þeim sem bókstaflega elska desember; elska komu jólanna. Ég þóttist viss um að þegar Last Christmas með Wham hljómaði í útvarpinu í dag að þá myndi þetta koma. En nei, það gerðist ekki neitt.

Kannski ef ég horfi nógu lengi á þessa fallegu tískuteikningu frá árinu 1919, Nivôse eftir Marthe Romme, fer eitthvað að bærast hið innra. Vonandi! Verð annars að fá að benda á eitt í teikningunni fyrst ég er að birta hana. Nú er kápan í öndvegi en takið eftir hvernig glittir í rendur þarna vinstra megin.

*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

mynd:
Marthe Romme af Pinterest (uppgötvað í gegnum bloggið Classiq)

miðvikudagur, 27. nóvember 2013

Í leit að jólaskapi



Ég sit á Starbucks (enn netlaus heima) og hafði ætlað mér að birta nokkrar jólamyndir í dag í þeirri von að komast í jólaskap en það virðist ekki vera hægt að nota nettenginguna hér til þess að hlaða inn myndum. Ég notaði því bara þessa mynd af jólaglervörum frá Holmegaard sem ég póstaði á ensku útgáfuna í dag. Jólaflaska frá þeim hefur verið lengi á óskalistanum og ég viðurkenni fúslega að ég segði nú ekki nei við glösum og kertastjökum líka.

Ég þurfti annars að líta tvisvar í dagbókina í morgun til þess að trúa því að næsti sunnudagur væri fyrsti í aðventu. Ég er engan veginn tilbúin fyrir jólin enda er ég enn að taka upp úr kössum og raða dótinu okkar. Kannski finn ég jólaskapið pakkað ofan í einhverjum kassa, hver veit. Ég er mikil jólakona en er sem betur fer ekki týpan sem stressar sig fyrir jólin og ég held öllu jólaskrauti í lágmarki. Blikkljós í gluggum er ekki minn stíll. Ég hef nokkra skrautmuni á sjálfu jólaborðinu og svo er það bara jólatré og aðventukrans.

*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.


miðvikudagur, 23. október 2013

Innlit: enskt sveitasetur



Ég veit ekki í hvaða tímariti þessi umfjöllun um sveitasetrið hans John Roger birtist, en þar sem Carol Prisant skrifar greinina var það líklega World of Interiors eða House Beautiful. Roger stjórnar antíkmunadeild Sibyl Colefax & John Fowler, sem er enskt hönnunarfyrirtæki stofnað upp úr 1930. Það fyndna er að hann starfaði sem lögmaður þegar hann einn daginn gekk inn í sýningarsal þeirra í leit að skrifborði og starfsferill hann breyttist snarlega. Þið sjáið hluta af skrifborðinu hér fyrir neðan og svo getið þið séð það í horninu á myndinni úr stofunni. Mér finnst þetta sveitasetur hans heimilislegt en um leið smekklegt - ég er lítið fyrir ofhlaðinn sveitastíl. Garðhönnunin finnst mér ákaflega falleg og ekki of formleg. Ég vildi geta sagt ykkur eitthvað meira um húsið en ég fann þessar skönnuðu myndir á netinu án viðtalsins við Roger.

Á persónulegum nótum, vegna anna á næstu vikum þá verð ég í fríi frá bloggskrifum og veit ekki alveg hvenær ég sný aftur, kannski undir lok nóvember. Ég lofa smá fréttum þegar ég kem til baka. (Ef þið notið Pinterest þá er ég þar og kem til með að pinna í kaffipásum.) À bientôt!


myndir:
Elizabeth Zeschin (skannaðar) af blogginu Kitchens I Have Loved

fimmtudagur, 17. október 2013

París: fyrir ári síðan við Palais Royal

París: fyrir ári síðan við Palais Royal · Lísa Hjalt


Ég var með París í huganum þegar ég vaknaði í morgun og þegar ég leit á dagatalið áttaði ég mig á því með bros á vör að ég var í París á þessum degi fyrir akkúrat ári síðan. Ég átti enn nokkrar myndir úr ferðinni sem ég hafði ekki deilt á blogginu. Myndin hér að ofan sýnir stemninguna fyrir utan Le Nemours kaffihúsið, sem er við Palais Royal í 1. hverfi. Við settumst ekki niður til að fá okkur kaffi þar sem við höfðum verið að borða hádegisverð og eftirrétt á veitingastað hinum megin við Signu. En það var grenjandi rigning og göng Palais Royal veittu skjól.
París: fyrir ári síðan við Palais Royal · Lísa Hjalt


miðvikudagur, 16. október 2013

Uppskrift: sætkartöflusúpa með ristuðum graskersfræjum



Í gær birti ég uppskrift að sætkartöflusúpu með ristuðum graskersfræjum á matarblogginu. Ég fann hana á Sweet Paul vefnum en hún birtist einmitt í nettímaritinu þeirra, haustblaðinu 2013, sem er ókeypis. Vefurinn þeirra er einstaklega skemmtilegur fyrir ykkur sem hafið áhuga á matargerð.

mynd:
Lísa Hjalt

mánudagur, 14. október 2013

Innlit: heimili í Kent í eigu listamanna



Þetta fallega heimili í Kent í suðurhluta Englands er í eigu myndlistarkonunnar Karen Birchwood og píanóleikarans David Manson. Eins og sjá má á myndunum blanda þau saman nýjum, klassískum og gömlum húsgögnum og útkoman er einstaklega persónuleg. Ég er hrifin af bastkörfunum sem er að finna hér og þar, mér finnst þær alltaf svolítið sjarmerandi; þær gefa heimilinu náttúrulegan blæ og skapa hlýleika.


myndir:
David Merewether fyrir Wealden Times

þriðjudagur, 1. október 2013

Haustdagur í Luxembourg II

Haustdagur í Luxembourg II · Lísa Hjalt


Þá er októbermánuður genginn í garð! Ég lofaði fleiri myndum af Grund-hverfinu í Luxembourg og dagurinn í dag er eðal til þess að standa við það loforð. Ég deildi að vísu þessum sömu myndum á ensku útgáfunni í dag þannig að þetta eru kannski gamlar fréttir fyrir þá sem lesa bæði bloggin. Ég þarf að fara fljótlega aftur í göngutúr með myndavélina og ég skal muna að hlaða batteríið áður.

Haustdagur í Luxembourg II · Lísa Hjalt


mánudagur, 30. september 2013

Haustdagur í Luxembourg

Haustdagur í Luxembourg · Lísa Hjalt


Ég fór í göngutúr í borginni í dag og ætlaði mér að ná fallegum haustmyndum í gamla hlutanum, sem kallast Grund. Áttaði mig svo á því þegar ég hafði rölt í gegnum Pétrusse-dalinn, eða gilið, og inn í gamla hlutann að ég hafði steingleymt að hlaða batteríið í myndavélinni. Kannski bara lán í óláni því það var kannski full sólríkt fyrir myndatökur um það leyti sem ég var á ferðinni (tók þessa mynd á svipuðum slóðum á laugardaginn þegar ég fór með vinkonur frá Íslandi í göngutúr). Ég náði nú samt nokkrum myndum í dag sem ég deili síðar í vikunni.

Ég smellti af þessari upp á hæðinni þegar ég var að njóta útsýnisins með lattebollann minn. Það er bara rétt aðeins farið að glitta í haustlitina hér í Luxembourg og veðrið leikur enn við okkur.

þriðjudagur, 24. september 2013

haustlitir í boði Clive Nichols

Samkvæmt dagatalinu er haustið komið en allur gróður hér í kring er enn þá grænn. Ef það væru ekki plómur, vínber og epli í garðinum þá væri það bara eilítið svalara loft á morgnana sem minnti á komu haustsins. En ég er komin í haustgírinn og hlakka til að sjá náttúruna klæðast nýjum litum. Að mínu mati tekst ljósmyndaranum Clive Nichols að fanga allt að því draumkennda hauststemningu á meðfylgjandi myndum. Litadýrðin er dásamleg!

Ég varð að bæta við eldhúsinu hér að neðan vegna hlýleikans - eldhús með arni er draumurinn. Ég sá fyrir mér heita súpu í potti og nýbakað brauð um leið og ég sá myndina. Talandi um súpur. Ég fann þessa uppskrift að sætkartöflusúpu í gær og ætla að prófa hana í dag.

myndir:
Clive Nichols

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION